BJÖRGVIN HALLDÓRSSON

0

Björgvin Halldórsson er einn ástsælasti tónlistarmaður okkar Íslendinga fyrr og síðar. Björgvin hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna í áraraðir og verður kappinn bara betri með hverju ári sem líður. Björgvin kom í viðtal hjá Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hann byrjaði í bransanum, ferlinum og hvað er framundan svo fátt sé nefnt. Okkur hjá Albumm er sönn ánægja að fá hinn eina sanna Björgvin Halldórsson í viðtal.

BJÖRGVIN SIGGA ELLA 2

Hvernig hófst þinn tónlistarferill og hvað var það sem heillaði þig við tónlistina?

Það byrjaði þannig að ég varð fyrir áhrifum frá vinum mínum í hljómsveitinni Bendix. Kunningjar mínir í Flensborg voru með þessa hljómsveit og ég byrjaði að pikka upp texta fyrir þá. Eftir stuttan tíma báðu þeir mig um að ganga í bandið og hef ekki litið til baka síðan. Ég var með Bendix í tvö ár og spiluðum við mikið og komum víða fram. Úr Bendix fór ég yfir í Flowers og tók við af Jónasi R. Jónssyni vini mínum sem síðar fór í Náttúru. Í Flowers voru Karl Sighvatsson, Arnar Sigurbjörnsson, Gunnar Jökull og Sigurjón Sighvatsson en Jóhann Kristinsson kom í stað Sigurjóns þegar hann fór í nám. Þannig var hljómsveitin skipuð í eitt og hálft ár eða þar til strákarnir í Hljómum og Flowers fóru að ræða saman og úr því spjalli varð til súpergrúppan Trúbrot árið 1968. Skömmu eftir þá byltingu stofnuðum við Arnar og Sigurjón hljómsveitina Ævintýri sem svo sannarlega átti eftir að láta að sér kveða.

Fyrst um sinn varstu í hljómsveitum eins og Bendix, Flowers og Ævintýri og varðst valinn poppstjarna Íslands. Hvernig leið þér með þann titil og hvernig var að vera poppstjarna á Íslandi á þessum tíma?

Þetta var stór upplifun að verða svona landsþekktur á einu kvöldi. Þetta var mjög skrýtið á þessum tíma. Ég lærði snemma að fara vel með þennan titil og gerði mér grein fyrir því að honum fylgdi viss ábyrgð og ég þyrfti að haga mér samkvæmt því. Ég passaði mig samt á því að taka þetta ekki of alvarlega og reyna að hafa gaman að þessu. Á þessum tíma var ekki mikið að gerast í fjölmiðlum hérlendis nema leiðinleg stjórnmál . Aðalmálið var að 1969 lentu menn á tunglinu og það var auðvitað og er stórfrétt. Popphátíðin í Höllinni 1969 var Idol keppni þessa tíma.

1969 var Björgvin Halldórsson kosinn poppstjarna ársins á stórtónleikum í Laugardalshöll þar sem vinsælustu hljómsveitir landsins komu fram. Ári síðar átti hann mest seldu plötu ársins.

Nú hefur þú verið einn ástsælasti tónlistarmaður okkar Íslendinga í áraraðir, var það eitthvað sem þú ætlaðir þér að gera og hefur þér aldrei langað til að hætta í tónlist?

Ég hef alltaf haft áhuga og notið tónlistar en í byrjun var hugmyndin að leggja fyrir sig einhverja iðn. Ég innritaðist í Iðnskólann til að læra viðhald á skrifstofuvélum. Það þótti gott veganesti uppá framtíðina því menn sáu að tölvurnar voru á næsta leiti. Það var um þetta leyti sem ég fer í Bendix og  tónlistin tók öll völd og ég kláraði ekki það nám. Í dag á tækni og tölvur allan áhuga minn fyrir utan tónlistina. Mikill græju og tæknikall.

Björgvin mynd Gassi

Þú hefur sungið og unnið með fjöldann allan af tónlistarmönnum í gegnum tíðina, hvaða samstarf stendur upp úr og af hverju?

Það er erfitt að taka einhvern út úr öllum þeim fjölda. Ég hef unnið með svo mörgum frábærum listamönnum. Í byrjun þegar ég fór að vinna meira í hljóðverum þá lærði ég mest á Gunnari Þórðarsyni og vann mikið með honum. Ég hef verið svo heppinn að ég hef unnið með svo hæfileikaríku fólki og þakka því fólki fyrir velgengi mína í gegnum tíðina. Mikið af skemmtilegum minningum á ég frá samstarfi mínu í HLH og Brimkló. Vísnaplatan var skemmtilegt verkefni sem og margar að plötum mínum. Það var líka gaman að syngja syrpuna með Rod Stewart og fara í tónleikaferðina til Rússlands 1982. Þátttaka mín í söngvakeppnum hér heima og erlendis var líka ögrandi og skemmtilegt.

Þú hefur farið í gegnum nokkur tímabil á þínum tónlistarferli, hvaða tímabil var skemmtilegast og af hverju?

Það er hugsanlega þegar maður var að byrja í bransanum. Þá var allt svo ferskt og skemmtilegt. Sem betur fer hef ég ennþá gaman að vinna að tónlist og koma fram á tónleikum. Að vinna í hljóðveri finnst mér skemmtilegast að gera ef ég á að vera hreinskilinn. Einnig finnst mér mikið um afturhvarf til 70´s í dag. Stundum finnst mér ég vera að hlusta á sömu tónistina og ég var að hlusta á þá.

Hvað er Björgvin Halldórsson að hlusta á í dag, hvaða plötu getur þú alltaf sett á fóninn og hvað er við þá plötu sem heillar þig?

Ég er alæta á tónlist og hlusta bæði á gamla og nýja tónlist. Ég hef passað mig á að reyna að hlusta á nýja listamenn erlenda sem innlenda. Það er nauðsynlegt ef þú vilt vita hvað er að gerast í bransanum. Samt kemst ég alltaf af þeirri niðurstöðu að mikið af nýju tónlistinni er endurvinnsla á þeirri gömlu. Í dag er ég mikið að hlusta á “Roots music” sem er uppsprettan sjálf í dægurtónlistinni í dag.“country/bluegrass” tónlistin verður oft fyrir valinu. Ég er með ipod í bílnum sem geymir þúsundir laga, set hann á Random play og er þá alltaf að heyra eitthvað nýtt.

 Björgvin smoking.Mynd Sigga Ella

Hvaðan hefur þú fengið innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og textagerð í gegnum tíðina?

Það er nú bara lífið sjálft sem gefur manni innblástur. Svo eru það verkefnin sem tekin eru fyrir. Ég hef nú ekki veið nógu duglegur í textagerðinni en hef þó hnoðað nokkrum saman. Sem lagahöfundur mætti ég gera meira. Ég er með svona um sirka 80 lög skráð sem höfundur en lít á mig fyrst og fremst sem túlkanda og söngvara. Ég hef þó verið heppinn með mína lagasmíðar í gegnum tíðina og mikið af mínum lögum hafa náð miklum vinsældum og lifa góðu lífi í dag. Ég er samt að semja lög og safna í bankann.

Þú hefur gefið út tugi platna á þínum glæsta ferli. Áttu þér uppáhalds plötu og hvaða plata var eftirminnilegust að gera?

Þarna komum við aftur að því að draga í dilka sem er erfitt. Vísnaplöturnar geyma alltaf góðar minningar.Við unnum þá fyrstu í hinu fræga studio Ramport Studios í London sem var í eigu The Who og þar sem þeir hljóðrituðu Tommy og Quadrapheniu. Einnig  voru Duetta plöturnar mínar skemmtilegt verkefni og að syngja og vinna með öllum þessum ungu söngvurum er góð vítamín sprauta.

Íslandslaga flokkurinn sem nú telur sjö diska er skemmtilegt verkefni og gefandi og vonandi förum við í þá áttundu en efnið á hana er tilbúið til vinnslu.

Það verkefni sem þú ert að vinna í hvert sinn er það skemmtilegasta.

bo hall1

Platan þín “Ég Trúi Því“ var að koma út hvað geturðu sagt mér um þessa nýju plötu og er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Þegar við vorum að fara yfir katalogginn minn þá sáum við hvað hann er orðinn stór og hvað söngvarnir skiptust í “genres” eða flokka. Rómantík, Sorg, Gleði, sjómennsku, trúarlegir, ballöður, grín og allt þar á milli. Einnig kom í ljós að margir söngvarnir eru ekki til í föstu formi lengur. Ég hafði gert fjórar svokallaðar gospel plötur á fyrri tímum og okkur fannst tilvalið að velja þau bestu af þeim til að gefa út á tveim diskum í bland við góð kærleikslög sem ég hef hljóðritað. Úr varð “Ég trúi því” diskapakkinn sem ég verð að segja að sé mjög vandaður og eigulegur. Þarna er auðvitað Gullvagninn vinsæli sem kom þessum gospel plötum á kortið sem og önnur góð lög. Þarna er líka eitt óútgefið lag sem nefnist Engillinn Blíði.

Hvað er framundan hjá vinsælasta tónlistarmanni Íslands?

Akkúrat núna eru það tónleikar 15. ágúst og mun ég taka þátt í heiðurstónleikum The Beatles sem haldnir verða í Háskólabíó þann 15. ágúst næstkomandi. Við fórum með þessa tónleika í Hofið á Akureyri og  fluttum þá fyrir fullu húsi.

Næst á eftir þann 26. september ætla ég að endurtaka tónleikana mína “Bestu lög Björgvins” sem ég gerði í Háskólabíó fyrir tveimur árum sem gengu mjög vel. Skemmtilegir tónleikar sem við segjum sögurnar bak við lögin og tökum óskalög.

Miðasala á þessa tónleika er í fullum gangi á www.midi.is

Ég var að hljóðrita  skemmtilegt lag með frábærri Swing hljómsveit sem heitir Secret Swing Society. Lagið heitir Glans og er á netinu eins og allt í dag.

Síðan hefur undirbúningur fyrir Jólagesti Björgvins 2015 í Höllinni verið í gangi allt þetta ár og lofar góðu. Þetta eru Jólagestir Björgvins númer 9 og verða mjög spennandi. Við hlökkum mikið til og búnir að vera í jólaskapi frá áramótum.

Linkar:

https://www.youtube.com/user/bohall

https://www.facebook.com/bohall

https://www.facebook.com/bestubo?ref=hl

https://www.facebook.com/BoHalldors

https://www.facebook.com/boogco?ref=hl

https://www.facebook.com/Brimklo?ref=hl

https://www.facebook.com/pages/Stúd%C3%ADó-Tónaljós/196398254058

 

 

Comments are closed.