BIRKIR GEORGSSON 15 ÁRA SNJÓBRETTAKAPPI

0

Birkir Georgsson er 15 ára snjóbrettakappi frá Kópavogi. Birkir er búinn að renna sér í sex ár og er ekki á leiðinni að hætta. Birkir er kominn til Noregs í snjóbrettaskóla en það er mjög erfitt og eftirsóknarvert að komast inn í slíkan skóla. Að komast inn í slíkan skóla getur leitt enn lengra í snjóbrettabransanum og jafnvel að atvinnumennsku. Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum spurningum um skólann og framhaldið.

b bretti 4

Hvenær byrjaðir þú á snjóbretti og hvernig fékkstu áhuga á því?

Ég byrjaði á snjóbretti þegar ég var 9 ára en þá fór ég til Ítalíu í skíðaferð. Mig langaði ekkert að vera á skíðum, ég hafði verið aðeins á skíðum hérna heima og mér fannst það ekkert gaman þannig ég prófaði snjóbretti og það tikkaði alveg inn. Þegar ég kom heim frá Ítalíu hélt ég bara áfram að vera á snjóbretti og langaði ekki að gera neitt annað.

Nú varst þú að komast inn í snjóbrettaskóla, hvar er hann og hvernig kemst maður inn í svoleiðis skóla?

Skólinn er í Noregi og það eru nokkrir svona skólar þar. Skólarnir heita NTG en það eru svona deildir innan skólanna. Ég sótti um í skólann á síðunni þeirra á netinu og fékk svo boð um að koma út í inntökupróf þar sem við vorum að renna okkur saman og þjálfaranir voru að skrá niður hvað við gætum. Stuttu seinna fékk maður þær upplýsingar hvort maður fengi pláss í skólanum eða ekki.

b bretti 3

Hvað er þetta langt nám og hvernig er því háttað, hvað ertu að gera í skólanum?

Námið sjálft er þrjú ár og síðan eru stöðugar æfingar sem eru gerðar til að byggja upp líkamlegt þol. Einnig förum við í æfingarbúðir og erum t.d. að fara til Austurríkis nú í Október og  Ameríku í Nóvember. Við getum valið hvað við viljum keppa mikið því okkur er boðið á öll mót hér í Noregi þannig við verðum að ferðast mjög mikið og keppa í Noregi.

Hvað hefur þessi skóli upp á að bjóða að námi loknu? Auðveldar þetta kannski leiðina að atvinnumennskunni og er það eitthvað sem þig langar að gera?

Stúdentspróf að sjálfsögðu og síðan inngöngu í háskólanám. Þegar þú ferð í þennan skóla er hugsunin á að gera þig að atvinnumanni eins og Ståle Sandbech, Tor Lundstrom, Kevin Backstrom og Torstein Horgmo þeir allir fóru í þennan skóla og margir fleiri. Eftir að hafa stigið fyrst á bretti elskaði ég það og langar bara vera á bretti allan ársins hring þannig þetta verður bara huge tækifæri fyrir mig að gera það sem ég elska.

b bretti 2

Hvenær byrjar skólinn og er ekki stemming fyrir að byrja í honum?

Ég fór í æfingabúðir sem voru frá 5 – 7 ágúst þar vorum við að hjóla heilan helling og ganga upp fjöll og fleira. Ég byrja að læra í skólanum á mánudaginn 10 ágúst.

Comments are closed.