Ber með sér 90‘s breakbeat tóna – Fimmta smáskífa Lagaffe Tales komin út

0

Þann 28. mars gaf íslenska hústónlistarútgáfan Lagaffe Tales út sína fimmtu smáskífu í vínylformi. Take You To Love er smáskífa eftir tónlistarmanninn ILO sem inniheldur lögin „Take You To Love“ og „Miracles.“ ILO er listamaður sem varla þarf kynningu fyrir þá sem fylgst hafa með íslenskri raftónlist í gegnum árin en hann hefur meðal annars gefið út efni á útgáfum á borð við 66 Degrees Records, Foto Recordings, Rebirth, S-HIT Records og ásamt því að hafa endurhljóðblandað hljómsveitirnar Sigur Rós, múm og GusGus.

Smáskífan ber með sér keim af 90‘s breakbeat tónum með laginu „Take You To Love“ á A-hliðinni en á B-hliðinni leynist húsperlan Miracles, með þykkri bassalínu þar sem ILO fær að láni róandi söng og hljóðbút sem kemur upprunalega fram í laginu I Believe In Miracles með Deniece Williams.

Platan er fáanlegu í plötubúð allra landsmanna, Lucky Records við Rauðarárstíg. Fyrir stafrænt eintak er hægt að versla það á Bandcamp síðu Lagaffe Tales hérLagaffe Tales var stofnað af Viktori Birgissyni og Jónbirni Finnbogasyni árið 2012 og nú á sínu sjötta aldursári með 5 vínylútgáfur og 19 stafrænar smáskífur á bakinu.

Hægt er að nálgast plöturnar á öllum helstu netverslunum á borð við Juno, Deejay.de, Decks.de o.fl.

Skrifaðu ummæli