BEN FROST OG VALGEIR SIGURÐSSON LEIKA EFNI AF NÝÚTKOMNUM PLÖTUM

0

Bedroom Community kynnir tvöfalda tónleikaveislu: Ben Frost og Valgeir Sigurðsson í Gamla Bíói Sunnudaginn 3. desember. Þeir munu hvor um sig leika efni af nýútkomnum plötum sínum, The Centre Cannot Hold  annarsvegar og Dissonance hinsvegar sem komu út fyrr á árinu og hafa báðar hlotið mikið lof. Þetta verða lokatónleikar beggja þessarra tónlistarmanna á árinu og þeir einu hér á landi, en báðir hafa þeir ferðast vítt og breitt með sitt tónleikaprógramm á undanförnum mánuðum en ekki komið fram á sama stað og tíma áður.

New York Times valdi tónleika Valgeirs á Sónar Festival í Barcelona meðal þeirra 15 bestu á hátíðinni síðastliðinn júnímánuð. Hér eru á ferð tónleikar sem óhætt er að kalla upplifun fyrir bæði augu og eyru en rík áhersla er lögð á hinn sjónræna þátt tónleikanna.

Ben Frost hefur löngum verið þekktur fyrir að stilla hlustendum sínum uppvið hljóðvegg og í Gamla bíói mun hann einnig umlykja áhorfendur með samspili ljósa og myndbanda eftir MFO. Valgeir Sigurðsson vinnur með samruna klassískrar tónlistar og raftónlistar á sinn einstaka hátt og teflir einnig fram sérhannaðri myndvörpun sem unnin var af galdramönnunnunm í Antivj.

Þetta er fyrsta uppákoman sem Bedroom Community stendur fyrir hér á landi síðan á 10 ára hátíðartónleikum með nær öllum listamönnum útgáfunnar ásamt  Sinfóníuhljómsveit Ísland fyrir rúmu ári.

The Centre Cannot Hold eftir Ben Frost sem er hans fimmta sólóplata kom út þann 29. september undir merkjum Mute og Bedroom Community. Platan var hljóðrituð á 10 dögum í Chicago af hinum goðsagnakennda hljóðmeistara Steve Albini. Marcel Weber (MFO) sér um sjónrænan þátt tónleikanna. Dissonance er fjórða plata Valgeirs Sigurðssonar og kom út hjá Bedroom Community þann 21. apríl. Platan inniheldur 3 verk sem vísa í gamla og nýja tíma, frá umritun á strengjakvartettsforleik Mozarts til rafrænna tóna. Með Valgeiri leikur Liam Byrne á viola da gamba, og myndbands og ljósahönnun er í höndum Yannick Jaquet hjá Antivj.

Bedroomcommunity.net

Skrifaðu ummæli