BEINT FRÁ TOKYO MUN ÁRNI KRISTJÁNSSON VERA MEÐ TVO TÓNLISTARVIÐBURÐI Á ÍSLANDI Í VIKUNNI

0

arni 2

Árni Kristjánsson, plötusafnari og -snúður sem er búsettur í Japan, stendur fyrir tveimur viðburðum þessa vikuna, diskókvöld á Kaffibarnum, og plötusýningu í Lucky Records.

Diskókvöldið á Kaffibarnum fer fram undir yfirskriftinni „Boogie á Kaffibarnum.“ Miðvikudagskvöldið 10. febrúar mun hann troða upp og spila það besta úr plötusafninu sem hann hefur byggt upp síðastliðin 12 ár. Kvöldið verður það fjórða í röðinni en hann hefur haldið þessi kvöld árlega þegar hann hefur komið í heimsóknir til Íslands.

arni 4

„Ég byrjaði að safna plötum eftir að hafa keypt safnplötu með söngvaranum D-Train í Góða hirðinum 2004.“

Fyrir það segir Árni að honum hafi fundist öll 80s tónlist hallærisleg.

„Þetta var í fyrsta skipti sem ég kveikti á því að það kom flott sálartónlist út eftir að diskótímabilið hófst.“

Áhuginn blossaði svo eftir að kynnast plötum gegnum internetið og hann keypti ofan í plötutöskuna frá uppboðssíðuni eBay í Bandaríkjunum næstu misseri.

arni

Árið 2008 fluttist hann til Tókýó til að nema tónlistarmenningu við Tokyo University of the Arts og hefur búið, og safnað plötum þar síðan.

„Plötusafnaramenningin í Tókýó er engu lík, úrvalið og magnið sem er í boði er engu öðru líkt. Síðustu misseri hef ég heyrt að safnarar haldi ekki til Bandaríkjanna til að kaupa plötur, þar sem þær voru gefnar út, heldur til Tókýó sem er að verða eins konar mekka fyrir þá safnarana.“

Kvöldið á Kaffibarnum mun einkennast af sálarfullum tónum frá hinum og þessum heimshornum en fókusera á diskó, fönk og aðrar tegundir af danstónlist sem nutu vinsælda á fyrstu árum 9. áratugsins. Kvöldið byrjar kl. 21 og er til lokunar. Frítt er inn.

arni 3

Annar viðburðurinn sem Árni mun standa fyrir í vikunni verður plötusýning og framkoma sem plötusnúður í Lucky Records á Rauðarárstíg.

Árni segir að hugmyndin spratt upp í þegar hann skoðaði úrvalið af soul plötum hjá Ingvari í Lucky Records.

„Þegar ég var að fara í gegnum þessa rekka datt mér í hug að sýningarstýra plötusýningu af þeim plötum sem ég held mikið upp á sem hann hefur til sölu, og spila þær plötur í búðinni til að leyfa fólki að heyra gersemarnar sem leynast þar í rekkunum fjölmörgu.“ 

Viðburðurinn byrjar föstudaginn 12. febrúar klukkan 17 og stendur til 18:30. Eftir það munu plöturnar vera til sýnis, og sölu, í eina viku á vegg í búðinni með litlum athugasemdum um plöturnar, svo sem hvenær þær komu út, hvaða lög eru markverð og hverjir komu að gerð plötunnar. Jafnframt er frítt inn á viðburðinn í Lucky Records og áhugafólk um soul tónlist er hvatt til að mæta.

Comments are closed.