„Bak við æfðu sögurnar og tilbúnu svörin er alltaf önnur útgáfa“

0

Margrét Seema Takyar stýrir þáttnunum Trúnó sem fer í loftið í Sjónvarpi Símans 21. desember.

Sjónvarpsþátturinn Trúnó fer aftur í loftið á sjónvarpi Símans föstudaginn 21. Desember en þar fáum við að kynnast nýrri hlið á þjóðþekktum tónlistarmönnum. Margrét Seema Takyar stýrir þáttunum og gerir hún það listarlega vel! Viðmælendur Margrétar að þessu sinni eru sko alls ekki af verri endanum en það eru: Mugison, Högni Egilsson, Gunnar Þórðarson og Raggi Bjarna. Albumm.is náði tali af Margréti og fengum við að skyggnast á bakvið tjöldin á Trúnó!


Nú ert þú að fara af stað með sjónvarpsþættina Trúnó. Eru þættirnir búnir að vera lengi í vinnslu?

Ég hitti Önnu Hildi Hildibrandsdóttur í byrjun ágúst 2017 fyrir algjöra tilviljun á skrifstofunni hjá framleiðandanum mínum Abby (Arnbjörg) Hafliðadóttur. Held jafnvel Anna Hildur hafi verið að koma beint af fundi með Pálma sjónvarpsstjóra hjá Símanum sem hafði gefið henni grænt ljós á 4 fyrstu þættina. Hún var á höttunum eftir leikstjóra sem væri líka tökumaður og Abbý sagði held ég orðrétt: „Nú, þá þarftu ekki að leita langt, hérna er hún.“ Ég var þá ný lent á Íslandi og var opin fyrir nýjum verkefnum og hugmyndum og það sem Anna Hildur var með kitlaði. Við tvær tókum smá fund eftir kynninguna hennar Abbýjar, smullum frábærlega saman og áður en ég vissi af var ég komin í tökur enda erum við Anna Hildur báðar  hvatvísar. Fyrri serían kom út hjá Sjónvarpi Símans í mars fyrr á árinu. Svo kláraði ég seinni seríuna í ágúst. Við vorum þannig um ár með alla átta Trúnó þættina í vinnslu samhliða öðrum verkefnum.

Um hvað eru þættirnir og hvernig mundir þú lýsa þeim í einni setningu?

Þetta eru heimildar/viðtalsþættir, þar sem við förum á einlæg trúnó með átta þjóðþekktum tónlistarmönnum: Lay Low, Röggu Gísla, Emiliönu Torrini, Sigriði Thorlacious, Mugison, Högna úr Hjaltalín, Gunnari Þórðar og svo síðast en ekki síst honum Ragga Bjarna.

Trúnó í einni setningu- bak við æfðu sögurnar og tilbúnu svörin er alltaf önnur útgáfa sem bara besti vinur þinn veit og nú færð þú að vita það líka.

Kom þér eittvað á óvart við gerð þáttanna, ef svo hvað þá?

Það sem kom kannski mest á óvart var hvað þessir listamenn voru opnir og tilbúnir að koma með okkur í þetta ferðalag. Það að afhjúpa sig, sérstaklega fólk sem er þekkt í litlu samfélagi og þarf oft að vernda sitt og sína þá var það ekki sjálfgefið að okkur Önnu Hildi myndi takast það sem við lögðum upp með. Þar sem ég bjó líka lengi erlendis þá þekkti ég ekki eins vel til þeirra eins og Anna Hildur þegar við byrjuðum á þáttunum. Það kom þess vegna einnig á óvart að fá að kynnast þessum listamönnum frá svona nánu sjónarhorni og læra að bak við þekktu tónlistarpersónuna, var oft feiminn, leitandi, forvitinn einstaklingur, alltaf að leita að næsta hljóm og þó þau væru öll ólík, var ákveðin lífssýn, húmor, dýpt og hlýja sem einkenndi þau.

Hvenær og hvar verða þættirnir sýndir?

Trúnó 1 þar sem stelpurnar eru í lykilhlutverki eru komnir út á Sjónvarp Símans Premium. Síðan mun Trúnó 2 þar sem strákarnir eru í lykilhlutverkum bætast þar inn 21.desember, alveg í tíma fyrir jóla hámhorf (sem mér skilst er íslenskan yfir “binge watching”) og svo koma þeir út í opinni dagskrá hjá Sjónvarpi Símans seinnipart janúar.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég var að klára tökur á tónlistarmyndbandi með Rokky sem ég leikstýrði og tók. Hún er geggjað nýtt talent, sem allir ættu að tékka á. Þannig við stefnum á að frumsýna myndbandið í janúar/febrúar n.k. Svo er ég einnig að fara að fara leikstýra leikinni stuttmynd á ensku sem ég skrifaði og Íslenska framleiðslufyrirtækið Glassriver framleiðir. Í því verkefni er ég með sterkan hóp með mér og blanda saman New York tilveru minni og þeirri Íslensku. Ég stefni líka á að gefa út ljósmyndabók, New York City Love Stories sem er búin að vera í bígerð í smá tíma og krossa fingur að 2019 sé árið sem hún smellur saman. Svo er svo margt fleira enda nýtt ár að koma og ég fíla að sjá hvaða tækifæri og sögur heimurinn hendir í mann og “ride the wave”. Ég hef allavegana ótrúlega góða tilfinningu fyrir 2019 og gaman að kveðja þetta ár með nýjum sjónvarpsþáttum af Trúnó.

Allir þættirnir verða aðgengilegir á Sjónvarpi Símans Premium föstudaginn 21. desember

Skrifaðu ummæli