ATOMSTATION VINNUR AÐ PLÖTU MEÐ FYRRUM UPPTÖKUSTJÓRA RAMONES Í LOS ANGELES

0

Ljósmynd: María Kjartans.

Hljómsveitin ATOMSTATION hefur sent frá sér nýtt lag eftir níu ára þögn. Lagið heitir „Ravens of Speed” og er fyrsta lagið af nýrri plötu sveitarinnar sem er væntanleg síðar á árinu. Platan mun bera nafnið BASH og er tekin upp í Cassette Recordings í Los Angeles í mars síðastliðnum af þeim Joshua Hawksley og Scott Hackwith, sem meðal annars hefur starfað með Iggy Pop, hljómsveitinni Dig o.fl., auk þess að stjórna upptökum hjá hinum goðsagnakenndu Ramones. Lagið Ravens of Speed er þegar hægt að nálgast á tónlistarveitunni Spotify, Itunes og víðar.

„Þegar komið var að því að hefja upptökur á plötunni komumst við óvænt í samband við Scott í gegnum sameiginlegan vin, Leif Björnsson sem nú er hjá Alda Music, en hann var um tíma í bandinu með okkur. Við sendum Scott demo af plötunni og hann svaraði og sagðist fíla þetta, sagði þetta vera efni sem kallaði á upptökur í LA vegna fílingsins og bauð okkur að taka þetta upp í studio-i sínu, Cassette Recordings. Við ákváðum að slá til og sjáum ekki eftir því.„ Guðmundur Ingi Þorvaldsson

Ljósmynd: María Kjartans.

Hljómsveitin ATOMSTATION (áður Atómstöðin) var stofnuð árið 2003 og hefur sent frá sér tvær breiðskífur auk nokkurra smáskífa. Síðasta plata sveitarinnar kom út árið 2008 og bar nafnið Exile Republic og hlaut afbragðs dóma innan og utan landsteinanna. Sveitina skipa þeir Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Örn Ingi Ásgeirsson, Óttar Brans Eyþórsson, Hróbjartur Róbertsson og Prins Grímsson.

Atomstation ferskir í Los Angeles!

Atomstation stefnir á tónleikahald á næstunni og mun meðal annars leika á rokkhátíð allra landsmanna, Eistnaflugi, þann 7.júlí næstkomandi í Neskaupsstað.

„Við hlökkum mikið til að fara austur og spila á þessari frábæru hátíð. Eistnaflug hefur heldur betur vaxið og dafnað þau níu ár sem bandið hefur legið í dvala og því frábært að ná að spila þar í ár. Við stefnum svo á að spila meira í sumar og erum spenntir að viðra nýju plötuna á komandi misserum.“ Guðmundur Ingi Þorvaldsson

Einnig er hægt að hlýða á lagið á Spotify

Skrifaðu ummæli