Ástríðuverkefni orðið að veruleika: Psychoplasmics gefur út sína fyrstu plötu

0

Árið 2014 gáfu þeir Lord Pusswhip og Alfreð Drexler út lagið og myndbandið „101 Reykjavík’’ undir nafninu Psychoplasmics, kraftmikla blöndu af þungu nýbylgjurappi og framsæknum danstónlistarpælingum, sem vakti verðskuldaða athygli í neðanjarðar senunni sem og netheimum SoundCloud og YouTube.

Lagið og myndbandið höfðu líka mikil áhrif á tónlistarsenuna á Íslandi en myndbandið setti staðalinn fyrir tónlistarmyndbönd með heimagerðum blæ og fagurfræði gömlu VHS spólunnar.

Þeir félagar fluttu í framhaldinu til Berlínar þar sem þeir hófu undirbúning að fyrstu plötu tvíeyksins í fullri lengd. Sú vinna stóð þar ytra í rúm tvö ár. Eftir að hafa gert tilraunir með mismunandi hljóðheima undir áhrifum af klúbbasenu Berlínarborgar lá fyrir hráefni í háhraða og háklassa fyrstu útgáfu sem nú lítur dagsins ljós.

Þeir Lordinn og Alfreð fá hér aðstoð frá góðum gestum í senunni eins og Bngrboy, Birni, Flóna og TY. Úr verður spennandi för um skynvillukenndan og fjölbreyttan heim raftónlistarinnar. Hljóðheimur sem er mitt á milli gömlu “analog” kynslóðar tíunda áratugarins og framúrstefnulegri yfirlýsingu þess sem koma skal..

Fyrsti singúllinn af plötunni, „107 RVK”, er nú kominn út á öllum helstu tónlistarveitum. Lagið er beint framhald af fyrsta laginu 101 Reykjavík og er miklu meira af efni frá dúettinum á leiðinni þar til platan sjálf kemur út í byrjun nóvember nætkomandi.

Soundcloud

Skrifaðu ummæli