ÁSTDRUKKIN VÉDÍS HERVÖR GEFUR ÚT NÝJAN SMELL Á AFMÆLISDAGINN

0

Védís Hervör, tónlistarkona á 35 ára afmæli í dag. Af því tilefni ákvað hún að skella út laginu Punch Drunk Love en í fyrra gaf hún út lagið Grace og í byrjun árs lagið Blow My Mind en það lag hefur notið sérstakra vinsælda á ljósvaka- og útvarpsmiðlum. Eins og þekkt er orðið léku amma og afi Védísar í myndbandinu við Blow My Mind og bræddu þjóðina með yfir 60 ára sambúð sinni og hjónabandi.

Fyrir stuttu síðan tók Védís einnig ábreiðu af laginu Aint Nobody sem vakti mikla lukku fyrir tónlistarhátíðina Secret Solstice. ,,Þetta gerðist mjög hratt. Þórunn Antonía hafði samband með þessa fínu hugmynd, að ég tæki ábreiðu með Chaka Khan. Ég vatt mér í málið á sunnudagseftirmiðdegi og ákvað strax að byggja lagið upp á túllanum einum saman, nær eingöngu“ segir Védís og skellir upp úr. Hér kveður við örlítið dekkri tón í nýja laginu, en Védís segir það samt fylgja sama gamla stefinu um ást, í þessu tilviki að vera drukkin af ást en hlaðin eftirsjá og einhverri súrsætri tilfinningu. Lagið á Védís með eiginmanni sínum Þórhalli Bergmann og Stefáni Erni Gunnlaugssyni sem einnig stýrir upptökum með þeim hjónum – en hann er betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Íkorni.

En hvað er á döfinni hjá Védísi? ,,Sumarleyfi með fjölskyldunni og smá pása frá önnum. Stefnt er á EP útgáfu í haust. En svo er ég í gríðarlega skemmtilegu starfi sem samskipta- og miðlunarstjóri Viðskiptaráðs Íslands. Þar fer saman áhuginn á margmiðlun, skrifum og að beita sér fyrir rekstrarhagsmunum fyrirtækja á Íslandi. Er með sérstakt blæti fyrir nýsköpunarfyrirtækjum. 100 ára afmæli ráðsins er í september og í nógu að snúast fyrir það með útgáfu bókar og heimildamyndar, meðal annars. Svo þarf að sinna þessu hjartans máli, tónlistinni. Hún á mig alltaf.“

Védís er auðheyrilega mikill frumkvöðull en hún byggði upp fyrirtækið Raddlist með móður sinni og talmeinafræðingnum, Bryndísi Guðmundsdóttur. Afurðir fyrirtækisins í gegnum Lærum og leikum með hljóðin ættu flestar barnafjölskyldur að kannast við í bókum, smáforritum og öðru margmiðlunarefni. Védís er einn stofnenda KÍTÓN, félags kvenna í tónlist og jafnframt einn eigenda Freyju Filmwork, sem nú ryður sér til rúms í framleiðslugeiranum og greinilegt að margt er á döfinni hjá þessari hæfileikakonu. En hvernig kemst hún yfir þetta allt? ,,Það er einfalt svar. Ég á besta eiginmann á norðurhveli jarðar.“

Myndbandið við lagið vann myndgerðarmaðurinn BARA, en myndbandið frá honum/henni var valið úr hópi áhugasamra sem sendu inn hugmyndir sínar.

Við óskum Védísi Hervöru innilega til hamingju með 35 ára afmælið í dag og enn eitt þrusugott lag í safnið!

Hér má heyra Punch Drunk Love á Spotify:

Skrifaðu ummæli