ÁSTARSORG, KVÍÐI OG SKILIN EFTIR Í ÞÖGNINNI

0

Tónlistarkonan Sjana Rut sem slóg eftirminnilega í gegn í The Voice Ísland var að senda frá sér sitt fyrsta myndband við lagið „Bitter Sweet Sound.” Lagið fjallar að einhverju leiti um ástarsorg en yfir höfuð um særindi sem hún upplifði að vera skilin eftir í þögninni.

Sjana Rut leikstýrði og klippti myndbandið sjálf en hún kom að öllu nema tökunum sjálfum, frændi hennar Snorri Christophersson kom að þeim.

Albumm.is náði tali af Sjönu og svaraði hún nokkrum spurningum um lagið og myndbandið.


Um hvað fjallar lagið og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Ég samdi lagið fyrir áramótin en ég og Alex (NumerusX) bróðir minn tókum það upp í mars og byrjuðum að vinna að laginu og myndbandinu töluvert seinna. Lagið fjallar að einhverju leiti um ástarsorg en yfir höfuð um særindi sem ég upplifði að vera skilin eftir í þögninni. Ég var særð en samt fegin því, svolítið bitur sætt eins og lagið „Bitter Sweet Sound.“ En ég var aðalega að rifja upp gamlar minningar og særindi í því lagi.

Hvernig mundir þú lýsa tónlistinni þinni og hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ég hef aldrei getað svarað þessari spurningu þar sem ég veit ekki hvernig ég á að lýsa tónlistinni minni, hún er svo misjöfn bara allt bland í poka. Hef samið allskonar tónlist frá rafrænni house tónlist í djass, rokk eða sálar tónlist. Ef ég ætti að svara af hreinskilni hvaðan ég fæ innblástur þá er það bæði af öðru tónlistarfólki en fyrst og fremst frá kvíðanum. Ég hef alltaf nýtt tónlistinna til að fá útrás og róa mig niður þegar mér líður sem verst og út frá þessum hræðilegu kvíða köstum sem eiga sér stað skapa ég alltaf miklu meira og stærra.

Hver er hugmyndin á bakvið myndbandið?

Fyrst þegar það var byrjað að vinna í myndbandinu hafði ég ákveðna hugmynd sem var ekkert sérlega skýr til að byrja með. Það sem ég hafði fyrst og fremst í huga var einmanna- og tómleiki og að vera skilin eftir í þögninni. Hafði auðvitað fullt af hugmyndum en takmarkað sem hægt var að framkvæma þar sem ég hef aldrei haft neitt fagfólk eða mikið af fólki á bakvið mig, það er bara ég og bróðir minn. Ég leikstýrði og klippti myndbandið og kom að öllu sjálf nema tökunum sjálfum, frændi minn Snorri Christophersson kom að þeim.

Þetta er þitt fyrsta tónlistarmyndband, var gaman að stússast í því?

Hafði mjög gaman af því að stússast í myndbandinu, hef alltaf haft gaman af myndavélinni en þetta var fyrsta skipti sem ég vinn að einhverju svona.

Eitthvað að lokum?

Við erum alltaf að vinna í einhverju enda gerist ekkert nema maður gerir það sjálfur!

Skrifaðu ummæli