Ást og virðing í bland við gáskafulla gleði og stuð

0

Dúettinn Love & Fog var að senda frá sér sína fyrstu plötu en hún ber heitið Army of Lovers. Platan er stútfull af angurværum indí-rafpopp smellum sem fjalla flestir um ástina, eins og nafn hljómsveitarinnar og plötunnar gefur til kynna.

Love & Fog var stofnuð árið 2011, á grunni power-popp tríósins Dynamo Fog. Dúettinn er skipaður þeim Axel Flex Árnasyni sem leikur á bassa og syngur og Jóni Þór Ólafssyni sem leikur á gítar og syngur. Þeir semja öll lög og texta plötunnar í sameiningu. Axel sér um alla forritun og hljóðvinnslu en kapparnir stjórna upptökum saman. Platan var öll samin og hljóðrituð í hljóðveri Axels, Studio ReFlex á Hólmaslóð í Reykjavík.

Samstarf Axels og Jóns Þórs hófst árið 2007 þegar Axel stjórnaði upptökum á hljómplötu hljómaveitarinnar Lada Sport sem Jón var meðlimur í. Þeir hafa alltaf náð ansi vel saman og hafa ansi líkar hugmyndir um það hvernig tónlist þeirra á að hljóma. Þrátt fyrir að það hafi gengið á ýmsu á Dynamo Fog árunum, vissu þeir að leiðir þeirra myndu liggja saman aftur. Að sögn þeirra félaga hefur ferlið við gerð þessarar plötu einkennst af ást og virðingu, í bland við gáskafulla gleði og stuð. Þeir stefna á að halda útgáfufagnað við tækifæri en hann verður auglýstur síðar. Platan mun koma út stafrænt á spotify, en einnig í mjög takmörkuðu vínyl upplagi, sem má nálgast með því að hafa samband við hljómsveitina í gegnum póstfangið: loveandfogmusic@gmail.com.

Skrifaðu ummæli