ASONAT

0

Asonat er hljómsveit sem er skipuð þeim Jónasi Thor Guðmundssyni, Fannari Ásgrímssyni og Olena Simon. Asonat var stofnuð árið 2011 en allir innan bandsins eiga sér mun lengri tónlistarsögu en það. Albumm.is náði tala af hljómsveitinni og fengum við að vita hvaðan þau fá innblástur fyrir sína tónlistarsköpun, hvar voru eftirminnilegustu tónleikarnir og hvaða plata yrði sett á fóninn rétt fyrir heimsendir svo fátt sé nefnt.

asonat1

Hvenær var Asonat stofnuð og hvernig kom það til?

Jónas:  Ætli það hafi ekki verið 2011? Fannar var þá nýfluttur heim til Íslands frá Barcelona og hafði samband við mig um að hittast og gera einhverja tónlist saman. Við tókum nokkur kvöld í stúdíóinu og voru fljótlega komnir með fína grunna af 2-3 lögum. Eitt lagið öskraði á góða kvenmannsrödd og hófum við þá leit að söngkonu. Leitin var nú ekki löng, þar sem ég sá stuttu síðar Olenu Simon syngja á Kaffibarnum og spurði hana hvort hún væri ekki til í að prufa syngja yfir eitt lag fyrir okkur.  Hún endaði nú á að syngja í þremur lögum á fyrstu breiðskífunni. Þegar við hófum gerð breiðskífu númer tvö, þá varð hún fljótlega að fullgildum meðlim – þar sem flest lögin voru einfaldlega samin með rödd hennar í huga.

Olena: Það gerðist nokkuð áreynslulaust hvernig ég flæktist inn í hljómsveitina.

Hvernig munduð þið lýsa tónlist ykkar og er Elektróníkin ykkar aðal?

Jónas: Við höfum ekkert verið að reyna skilgreina tónlistinni á einhvern ákveðinn hátt. Þetta er í raun elektrónísk tónlist með poppívafi. Við erum öll með ólíkan tónlistarbakgrunn og mótar það tónlistina á sinn hátt.

Fannar:  Elektrópop er það orð sem hefur oftast orðið fyrir valinu undanfarið til að lýsa þeirri tónlist sem við gerum, sérstaklega með útgáfu seinni breiðskífunnar sem er poppaðari en sú fyrri. Elektróníkin er án efa okkar aðalsmerki en fyrsta breiðskífan Love in Times of Repetition innihélt einnig acoustic elements.

asonat 5

Hvaðan fáið þið innblástur fyrir tónlistarsköpun ykkar og hvernig semjið þið tónlistina?

Fannar: Ég sæki innblásturinn víða, en oftar en ekki fyllist ég innblæstri við að hlusta á hina ýmsu tónlist og svo umfram allt þegar ég fer á tónleika með öðrum hljómsveitum, þá langar mig oft að fara heim af miðjum tónleikum til að búa til tónlist.

Jónas: Sköpunarferlið er nokkuð ólíkt því sem margir venjast, sérstaklega þar sem við erum á víð og dreifð um heiminn. Stór hluti af sköpunarferlinu fer í gegnum dropbox eða jafnvel Skype.

Olena: Ég er ekki viss hvernig þeir fá innblástur sinn, en mig grunar að heimaland þeirra spili stóra rullu. Þegar kemur að mínu hlutverki í hljómsveitinni, þá hef ég stundum á lager hjá mér texta sem hentar þeim hljóðheim sem þeir hafa áður kokkað saman og prufa ég þá og aðlaga þá að laginu. Stundum ímynda ég mér sögu út frá hljóðbitunum sem þeir senda mér og nota það til þess að búa til textana. Þeir eru líka duglegir við að nota tónlist mína sem hljóðfæri og vinna hinar ýmsu tilraunir með hana – sem ég kann mjög vel við.

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þið hafið spilað á og af hverju þeir?

Fannar: Eftirminnilegustu tónleikarnir fyrir mér eru án efa tónleikar sem ég og Jónas spiluðum ofan á skúlptur út á túni í afskekktu sveitaþorpi í Rússlandi árið 2013. Tónleikarnir voru hluti af tveggja vikna music residency sem við tókum þátt í.

Jónas: Fyrir mér er það líklegast í Tallinn í Eistlandi á síðasta ári, þar sem þar er ég á heimavelli – en ég bý einmitt þar.

Olena: Fyrir mér er það ávallt þeir síðustu sem eru næst mínu hjarta. Það er vegna þess að sveitin verður þéttari og þéttari á sviðinu og er það afar gefandi að sjá þær framfarir. Samt sem áður hafa allir þeir staðir sem við höfum ferðast á gefið mér mikið af góðum minningum. Því miður gat ég ekki farið með strákunum til Rússlands, en ég er viss um að þeir hafa bara haft gott af því að losna við mig í smá tíma.

Erlenda útgáfufyrirtækið n5MD gefur Asonat út hvernig kom það til?

Fannar: Ég gaf út plötuna 3:03 hjá þeim árið 2009 með hljómsveit minni Plastik Joy og komst svo að því ári síðar að það væri annar Íslendingur að gefa út hjá þeim sem reyndist vera Jónas, sem er ástæðan fyrir því að ég setti mig í samband við hann þegar ég flutti aftur til Íslands.

Jónas: Eins og Fannar segir þá höfðum báðir verið að gefa út hjá n5MD áður. Ég hef verið að gefa þar út undir nafninu Ruxpin og Fannar undir nafninu Plastik Joy. Þegar þeir fréttu að við værum að vinna að efni saman þá var ekki erfitt mál að sannfæra þá um að gefa þetta út.

asonat3

Nú hafið þið unnið með mikið af flottu tónlistarfólki eins og I Am Dive og Chihiro hvernig kom það til og er eitthvað spennandi samstarf á næstunni?

Jónas: Ég hafði unnið að nokkrum lögum með Chihiro í gegnum tíðina og langaði til þess að vinna meira með henni. Hún var til í að ljá rödd sína í einu lagi. Einnig var Kjartan F. Ólafsson (Kjarr, Ampop) fenginn til að syngja í einu lagi á plötunni og kom það vel út.

Fannar: I am Dive er flott dúó frá Sevilla sem ég kynntist í gegnum íslenskan vin minn og  spænsku konu hans. Þeir gerðu remix af laginu Forgotten af fyrstu breiðskífu okkar og við gerðum remix af lagi þeirra Mount Eerv.

Jónas: Við fengum til okkar nokkra góða vini til þess að endurhljóðblanda nokkur lög til þess að koma verkefninu okkar af stað. Við fengum t.a.m. My Dry Wet Mess, sem hafði verið að gefa út hjá Brainfeeder útgáfunni hans Flying Lotus, og Leon Somov, sem vann eitt sinn MTV Music Awards verðlaun fyrir besta baltneska tónlistaratriðið. Við höfum einnig notast við innlenda krafta, t.a.m. Murya, Muted og Yagya.

Fannar: Ég veit ekki til þess að það sé neitt samstarf á döfinni, en við erum alltaf til í að vinna með skemmtilegu tónlistarfóllki.

Nú eru miklir reynsluboltar í bandinu, hvernig er að vinna saman og eru aldrei ágreiningar í stúdíóinu?

Fannar: No comment. Nei nei, auðvitað verða litlir ágreiningar af og til, en ekkert sem hingað til hefur ekki verið hægt að leysa með smá rökræðum. Ég er mjög fegin að við erum oddatöluband, það einfaldar kosningar.

Jónas: Við höfum öll okkar skoðanir á hlutunum, en virðum skoðanir hvors annars og reynum stundum að finna hinn gullna milliveg. Það hefur allavega ekki soðið upp úr ennþá.

Olena: Þeir sjá eftir því á hverjum degi að hafa tekið mig inn í hljómsveitina.

asonat 4

Ef það væri heimsendir á morgun hvaða plata yrði sett á fóninn og af hverju sú plata?

Fannar: Plata Ryuichi Sakamoto  „BTTB“ frá árinu 1999 er án efa sú plata sem ég myndi hlusta á. Á þessari plötu er Sakamoto einn við píanóið og tónlistin er ótrúlega falleg og hefur róandi áhrif á mig. Ekki veitir af ef heimsendir væri nánd.

Jónas: Ég veit það ekki. Kannski myndi ég setja „I Don‘t Want To Miss a Thing“ með Aerosmith á repeat og vonast til þess að Bruce Willis muni bjarga málunum. Hann gerir það alltaf. Ef Aerosmith diskurinn væri rispaður, þá myndi ég líklegast setja á e-h með John Tavener og horfa út á sjóndeildarhringinn  í faðmi fjölskyldunnar.

Olena: Þessa stundina er það japanski tónlistarmaðurinn De De Mouse og platan hans „Sky Was Dark“.

Hvenær kemur nýja platan út og getið þið sagt mér aðeins frá henni?

Jónas: Hvaða hvaða? Það eru ekki nema innan við ár síðan síðasta plata kom út. Voðalegur æsingur er þetta.

Fannar: Það er ekki komin nein dagsetning á plötuna því enn sem komið er erum við bara að vinna í hugmyndum og lagagrunnum og er langt í land. Það eina sem hefur í raun komið upp varðandi grunnhugmyndina er að okkur langar til að gera meiri tilraunir og ekki festa okkur of mikið í einu formi.

Jónas: Þau lagabrot sem við erum að vinna í eru mun tilraunakenndari en fyrri verk okkar og verður það áhugavert fyrir okkur að sjá hvert þær pælingar fara. Við erum nokkuð spennt fyrir henni og mig grunar að þetta eigi eftir að vera afar lærdómsríkt ferli að vinna í þriðju breiðskífunni.

Olena: Við erum í leit að hljóðum og tilfinningum. Tilraunamennskan er allsráðandi þessa dagana. Þetta hefur verið viðburðar- og tilfinningarríkt ár – og mótar það sköpunina.

asonat2

Hvað er framundan hjá Asonat?

Jónas: Næst á dagskrá er einmitt að vinna í nýju efni.  Við munum ekki spila mikið á næstunni, nema á nokkrum vel völdum tónleikum – t.a.m. á Iceland Airwaves hátíðinni.

Olena: Eftir það er allt óráðið!

 

LINKAR:

https://www.facebook.com/asonatmusic

http://n5md.com/artist/Asonat

http://www.discogs.com/artist/2689050-Asonat

 

Comments are closed.