„ÁSKORUN VIÐ SJÁLFAN SIG AÐ VERÐA BETRI OG BETRI”

0

Myndlistarmaðurinn Elli Egilsson hefur komið víða við í gegnum tíðina en honum er sko sannarlega margt til lista lagt! Að undanförnu hefur kappinn vakið verðskuldaða athygli með málverkum sínum en hann byrjaði að mála sem smábarn! Elli hefur einnig látið til sín taka í tónlistinni en hann gerði garðinn frægann með hljómsveitinni Steed Lord svo fátt sé nefnt.

Albumm.is náði tali af Ella og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um listsköpun sína!


Hvenær byrjaðir þú í myndlist og hvernig kom það til?

Ætli maður hafi ekki byrjað bara sem smábarn og svo bara aldrei hætt.. það var allavega þannig í mínu tilfelli, ég er sjálflærður og prufaði mig bara áfram ár eftir ár í allskonar mismunandi mediums, tæknum og aðferðum.. allt frá graffiti yfir í penna og blýants teikningar, frá skissum yfir í tölvuteikningar, frá vatnslitaverkum yfir í akrýlverk á striga og svo endaði maður í olíunni að sjálfsögðu.

Þetta byrjar nú oftast hjá okkur öllum sem áhugi og forvitni sem krakkar, sumir halda þessu áfram og æfa sig og svo áður en maður veit af er þetta komið í einhversskonar þráhyggju hjá manni að læra eitthvað nýtt tengt myndlist og til verður áskorun við sjálfan sig að verða betri og betri.

Ég man ég seldi mitt fyrsta málverk á striga sem ég fékk að hafa uppi á opnuninni hans pabba en hann var að sýna sín fyrstu olíumálverk í Gallerí Nýhöfn við Hafnarstrætið árið 1992. Verkið mitt var keypt á fyrsta klukkutímanum eftir opnun og ég man seinna meir þegar við vorum komnir viku síður aftur niður í gallerí og ég hélt að við værum að fara taka niður sýninguna og fara með flest verkin aftur uppí studio þá spurði ég pabba hvað hann hafi selt mörg af sínum verkum, þá svaraði hann „öll… alveg eins og þú!” og labbaði út með feita ávísun í staðinn. Verkið mitt seldist á 5.000 kr. og á eigandinn það ennþá í dag… verkið er alveg gjörsamlega hræðilegt en ég fór beint heim þvílíkt stoltur og byrjaði á nýju verki og vildi gera enn betur!

Þú hefur verið talsvert mikið í tónlist í gegnum tíðina. Er einhver tenging á milli tónlistarinnar og myndlistarinnar?

Já ég meina öll list er einhverskonar túlkun. Þetta snýst allt um að koma þessu frá sér, maður tekur inn það sem gerist í daglegu lífi manns og exheilar því út á táknrænan hátt. Við erum öll listafólk, sum okkar koma því frá sér á myndrænan hátt, aðrir tónlistarlega séð en við öll höfum þetta í okkur, við getum öll skapað hvort það sé myndlist, tónlist, handverk, leiklist o.s.frv. Þetta snýst ekki um að skilgreina okkur endilega hvert okkar er listamaður og hver er ekki.

Tengingin milli myndlistar og tónlistar er mjög sterk, ég allavega þarfnast tónlistar í studioinu mínu ávallt ekki bara til þess að koma mér í einhvern gír heldur hefur tónlistin góð áhrif á hvað ég mála þegar ég mála.

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

Vandvirkur, klassískur og akrónískur stíll, ótímanlegur.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína listsköpun og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Náttúran er minn helsti áhrifavaldur og innblástur en eins og ég nefndi hér fyrir ofan þá vil ég meina að hlutirnir sem gerast í daglegu lífi manns hafi meiri áhrif frekar en völd yfir því sem maður svo skapar en manni grunar. Þegar ég var yngri átti ég að sjálfsögðu mín idol og leit upp til fjölda fólks en í dag lít ég á okkur öll sem bara ágætlega jafna heild, ef það er eitthvað annað en náttúran sem veitir mér innblástur þá er það aðallega jákvæðni! Þegar ég er spurður af læknum, hjúkrunarfræðingum o.s.frv. hvort ég sé með ofnæmi fyrir einhverju þá segi ég oft „já.. neikvæðni og Tequila.” mér finnst það alltaf jafn fyndið… aldrei þolað neikvæðni né Tequila!

Þú ert kominn með hrikalega flotta vinnuaðstöðu, hvar er hún og skiptir miklu máli hvernig vinnuaðstaðan er?

Ég er hægt og rólega búinn að vera setja upp nýja og stóra vinnustofu í gamalli rækjuvinnslu við hafnarbakkann í Bolungarvík. Fólk spyr mig oft af hverju þar? en mér finnst fólk verði bara að koma og sjá til þess að skilja af hverju borgarstrákurinn ég ákvað að setja upp vinnuaðstöðu í 850 manna bæ þar sem ég þekki ekki sálu. Fegurðin og orkan úr fjallagörðunum á Vestfjörðum hafa áhrif á verkin þrátt fyrir ég mála öll mín verk í dag eftir einungis minni og spuna en ekki myndefnum og ákveðnum fjöllum.. í dag skapa ég mín eigin fjöll og dali en það er gott að geta kíkt aðeins á Erni, Traðar- og Óshyrnu á snjómiklum degi. Fjöllin stara á mann og maður getur ekki annað en starað á móti. Bolvíkingum finnst ég örugglega mjög spes þegar ég stend úti grafkyrr í stórhríð og stari á toppana án þess að mynda þá með lambúshettuna mína á mér og dressaður í allt camo en þá er ég aðallega bara að taka inn orkuna ekki endilega smáatriðin eða heildarmyndina af fjöllunum sjálfum.

Allar vinnustofurnar mínar hafa alltaf verið snjóhvítar og mála ég alltaf í öllu hvítu, fólk hefur stundum borið studioin mín saman við tannlæknarstofur nema það er terpentínulykt í loftinu hjá mér í staðinn fyrir þessu skelfilegu sótthreinsunarlykt sem fólk á til með að hræðast þegar það sest í tannlæknastólinn. Það er eitthvað svo hreint og þægilegt að hafa enga liti í kringum mig eða á mér á meðan ég mála. Í hvert skipti sem ég fer uppí studio þá er ég kominn til að búa til fjall eða jökul eða dal og þá hefur agi, hreinleiki og þolinmæði reynst mér best, ég er kominn til að skapa og ekkert annað. Ég í raun og veru hugsa ekki mikið þegar ég mála, ég skil allar hugsanir, pælingar, stress, fortíð og framtíð eftir heima og stíg inn með þá kannski einu einföldu hugsun um að búa eitthvað fallegt til.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég er á leiðinni í smá heimsrisu og gott mánaðarfrí með Maríu Birtu eiginkonunni minni, við ætlum að þræða nokkur lönd, eyjur og borgir í Asíu og Ástralíu sem við eigum eftir að heimsækja af listanum okkar en ferðalög, góð frí og nýjir áfangastaðir eru hollir fyrir mann, ég kem alltaf heim endurnærður og þá er ekkert annað að gera en bara mála mála mála.

Í sömu byggingu þarna fyrir vestan í Bolungarvík þar sem ég er búinn að setja upp vinnuaðstöðu ætla ég svo að aðstoða þar gott fólk sem einmitt hjálpaði mér að gera þetta studio að veruleika og setja upp miklu fleiri vinnustofur með þeim þar sem fólk getur komið víða frá til Bolungarvíkur og unnið þar í friði. Ég finn það að vinnubrögðin mín eru töluvert vandvirkari og ég mun einbeittari þegar maður kemur á svona friðarstað. Rútínan manns er takmörkuð en ég syndi minn kílómeter á dag, elda minn mat og mála að meðaltali í 10-12 klukkustundir á dag.

Ef það er eitthvað sem ég vil koma áleiðis að lokum þá vil ég bara hvetja fólk til þess að halda áfram að skapa eða bara einfaldlega byrja! Ekki vera hrædd um að fólk taki ykkur ekki alvarlega, það skiptir engu máli, eina sem skiptir máli er að þið hafið gaman að því sem þið eruð að gera hvort það sé vinnan ykkar eða áhugamál, lífið er stutt.. prufið ykkur áfram!

Elliegilsson.com

Instagram

Skrifaðu ummæli