ÁSGEIR GEFUR ÚT „STARDUST“ AF VÆNTANLEGRI PLÖTU AFTERGLOW

0

Tónlistarmaðurinn Ásgeir var að senda frá sér aðra smáskífu af væntanlegri plötu Afterglow en lagið sem heitir Stardust var frumflutt á tónlistarvefnum Consequence of Sound fyrr í dag. Áður hefur Ásgeir sent frá sér lagið Unbound. Stardust er nú aðgengilegt á öllum helstu tónlistarveitum auk þess sem það fæst frítt til niðurhals ásamt Unbound ef fólk forpantar Afterglow t.d. á heimasíðu Ásgeirs asgeirmusic.com.

Sem fyrr er Ásgeir höfundur lags en heiðurinn að textanum á Högni Egilsson sem aðspurður segist hafa viljað fjalla um þá örvinglun sem grípur sérhverja manneskju sem kann að festast í losta og alsælu ástarinnar. Um lagið sjálft segir Ásgeir:

„Stardust er lag sem ég samdi frekar snemma í plötuferlinu, sennilega sumarið 2015. Ég var bara að hugsa um að gera sniðugt popplag sem innihéldi tilraunir með hljóð og alls konar skemmtileg smáatriði í útfærslu og sem tæki sig ekkert alltof alvarlega. Að mínu mati er þetta mjög hreinskilið lag því það kemur frá einhverjum stað innra með mér sem ég opna ekki oft á.“

Ásgeir tilkynnti nýverið um fyrstu tónleikaferðina sem hann fer í til að fylgja plötunni sinni eftir auk þess sem hann mun leika á sérstökum tónleikum í Eldborg í Hörpu á Iceland Airwaves hátíðinni í haust.

Evróputúr Ásgeirs í maí:

Árósar: Lau 6. maí @ Train

Kaupmannahöfn: Sun 7. maí @ Vega

Berlín: Þrið 9. maí @ Festaal Kreuzberg

Hamborg: Mið 10. maí @ Mojo Club

Zurich: Fös 12. maí @ Plaza

München: Lau 13. maí @ Strom

París: Mán 15. maí @ Cabaret Sauvage

Brussel: Þrið 16. maí @ Les Nuits Botanique

Köln: Mið 17. maí @ Luxor

Amsterdam: Fim 18. maí @ Paradiso

Brighton: Lau 20. maí @ The Great Escape

Manchester: Sun 21. maí @ Gorilla

Bristol: Mán 22. maí @ Thekla

London: Þrið 23. maí @ Koko

Rúm fjögur ár eru síðan Ásgeir gaf út frumraun sína „Dýrð í dauðaþögn“ hér á landi sem var gífurlega vel tekið en hann hefur varið síðustu tveimur árum við upptökur á nýrri plötu í Hljóðrita í Hafnarfirði. Ellefu lög er að finna á „Afterglow“ sem eru öll á ensku, að einu undanskyldu. „Afterglow“ ber öll einkenni listamanns sem hefur þróast og dafnað og tekist á við hlutverk sitt sem alþjóðlegur listamaður en eins og alþjóð veit er Ásgeir frá litla þorpinu Laugarbakka og hafði varla stigið fæti til útlanda þegar hann gaf út „Dýrð í dauðaþögn“ haustið 2012. Það átti eftir að breytast og að sögn listamannsins hefur hann varla lengur yfirsýn yfir þau lönd sem hann hefur heimsótt. Áhrif heimshornaflakksins eru auðheyranleg á „Afterglow“ en þar gætir áhrifa frá tónlistarmönnum eins og James Blake og Bon Iver í bland við R&B tónlist og jafnvel sálar- og kirkjutónlist.

Á plötunni hverfur Ásgeir frá daðri sínu við þjóðlagatónlist sem var einkennandi fyrir „Dýrð í dauðaþögn“ og stingur sér í staðinn á bólakaf í melankólíska raftónlist í sínu hreinasta formi. Enn og aftur vinnur Ásgeir með föður sínum Einari Georgi Einarssyni sem á heiðurinn að nokkrum textum á plötunni en að auki koma þeir Þorsteinn Einarsson, Júlíus Aðalsteinn Róbertsson og fyrrnefndur Högni Egilsson að textasmíði. Sem fyrr vinnur upptökustjórinn Guðmundur Kristinn Jónsson náið með Ásgeiri við gerð plötunnar.

Hér fyrir neðan má heyra lagið „Unbound.“

Skrifaðu ummæli