ART IS DEAD

0

AID new grafik

Art is Dead er ný hljómsveit sem skaust fram á sjónarsviðið með laginu Bad Politics. Við hittum Huga Garðarsson, söngvara hljómsveitarinnar, og hann sagði okkur allt um Art is Dead og meðal annars frá kostunum sem fylgja því að vera tónlistarlegur villimaður.


Hverjir eru Art is Dead og hvernig tónlist spilið þið?

Við erum Arnar Sigurður Hallgrímsson og Bjarki Fannar Atlason sem spila báðir á gítar og hljómborð, Martin Davíð Jensen á trommum, Snæbjörn Árnason á bassa og Hugi Garðarsson á míkrófón. Við spilum einhverskonar „nýaldarsull“ af elektrói og rokki.

Art is dead 2

Hafið þið verið í öðrum böndum áður?

Við erum allir gamlir rokkarar eða pönkarar og erum meðal annars úr Andlát, Shogun, Snafu, Finnegan, Kolku, Lagleysu, Munnriður og Wulfgang.

Varð Art is Dead strax til þegar þið hittust?

Við byrjuðum að spila saman 2009 sem rokkband, en síðan fór ég út í nám til Danmerkur og sneri aftur þremur árum seinna og þá tókum við saman aftur, þá fundum við allir fyrir svona vissri rokkþreytu og við ákváðum að byrja upp á nýtt og ráðast í eitthvað framandi. Okkur langaði einhvernvegin að brjótast út úr „rokk-regluverkinu“ og settum okkur þær reglur að það væru hreinlega engar reglur og ekkert hljóð eða hljóðfæri væri okkur óviðkomandi, bara „pjúra villimennska“ þannig að útkoman er bara einhverskonar „grautur af rokki, poppi, elektró og bara whatever.“  Verandi gamall rokkari er alveg fáránlega spennandi, eiginlega bara eins og að byrja aftur í hljómsveit í fyrsta sinn.

Eydduð þið miklum tíma í að finna ykkar hljóm?

Já, það fór töluverður tími í að finna okkur á ný. Við áttum nokkra gamla syntha sem við fórum að fikta í og við hófum líka smá tilraunastarfsemi í kringum það, hvernig væri hægt að nota gítara og láta þá hljóma sem eitthvað allt annað.

Er ekki gaman að vera í hljómsveit sem allt er leyfilegt?

Jú, það er frekar frelsandi af því hérna í den þótti það ekki góður pappír ef að rokkband var t.d. að sporta hljómborðsleikara er ekki sérlega maskúlínt. Í dag er bæði tónlist og heimurinn bara almennt orðinn miklu meira „líbó“ og attitúdið er meira komið út í „whatever goes.“

Eru einhverjir sterkir áhrifavaldar hjá Art is Dead?

Við erum rosalega ólíkar týpur og hlustum á ólíka tónlist, en við, rétt eins og allir aðrir erum bara svona „tónlistarlegir svampar“ og allt sem við heyrum síast inn og brýst út þegar við semjum eitthvað nýtt.

Þið eruð búnir að gefa út tvö lög, segðu okkur aðeins frá því.

Fyrsta lagið okkar heitir Bad Politics og kom út í febrúar. Við vorum ansi stressaðir yfir viðbrögðunum, það eru margar róttækar kaflaskiptingar í því og við vorum hræddir um að það myndi ekki ná að grípa fólk. Það kom okkur skemmtilega á óvart að það náði góðu flugi á mörgum útvarpsstöðvum og fór meðal annars í toppsætið á Pepsi Max listanum á X977 rétt fyrir sveitastjórnarkosningarnar eftir að hafa tórað á lista í sautján vikur. Það var mjög hvetjandi og blés sjálfstrausti í okkur og við upplifðum það sem allavegana smá staðfestingu á því að við værum kannski að gera eitthvað af viti.

 

Annað lagið okkar heitir Razormouth og kom út í lok sumars og hefur farið vel af stað. Það er frábrugðið Bad Politics að því leyti að það er meira elektró-baserað.

 

 

Er mikið spilerí á ykkur?

Okkar fyrstu tónleikar voru í portinu fyrir aftan Bar 11 á menningar-næturtónleikum X977 og Bar 11. Það gekk vel fyrir sig en ég verð að viðurkenna að maður var alveg með ágætis kvíðahnút í maganum yfir að vera koma fram í fyrsta sinn sem þessi hópur. Við vöktum langt frameftir nóttina fyrir og Arnar sauð saman in-ear kerfi úr gömlum effekta-pedölum og allskonar plastboxum til að tryggja að við myndum heyra almennilega í okkur. Strax eftir tónleikana kom Smutty Smiff útvarpsmaður á X inu upp að okkur og bókaði Art is Dead á styrktar-tónleika fyrir Frosta Jay Freeman sem er lítill strákur sem glímir við ansi alvarlegan taugasjúkdóm. Við spiluðum að sjálfsögðu á þeim og buðum okkur líka fram í sjálfboðavinnu við að aðstoða við uppsetningu tónleikanna og það var ansi líflegur rússíbani. Smutty Smiff er mikið gull af manni og það var gaman að kynnast honum.

Finnst ykkur gaman að spila live?

Já, það er gaman, en fyrir mína parta er alveg sama hvað maður gerir það oft, maður er alltaf pínu stressaður fyrir tónleika, svo tekur við nett algleymisástand á meðan þeim stendur og svo iðar maður alveg af vellíðan þegar þeir eru búnir. Þ.e.a.s. ef þeir gengu vel.

Eruð þið með aðstöðu til að æfa og taka upp?

Já við spanderum tveimur kvöldum í viku í hinu gullfallega höfða-hverfi 110 Reykjavík, í atvinnuhúsnæði og erum að taka það í gegn núna. Erum t.d. að teppaleggja veggina og innrétta upp á nýtt, þannig þetta er voðalega svipað og þegar maður var sextán ára í bílskúr að setja eggjabakka á veggina, en núna eru þetta bara rauð teppi. Snæbjörn vinnur á Hótel Sögu og húsvörðurinn á hótelinu gaf okkur gamla rauða dregla þaðan, þannig það er kannski skref uppávið frá eggjabökkunum (hlátur).

Er Art is Dead að vinna að plötu?

Sko ég man þá tíma þegar Skífan var risa veldi með stórverslanir útum allar trissur. En eftir því sem ég best veit er Skífan bara til í mýflugu mynd í dag og virðist byggja viðskiptamódelið sitt á því að selja tónlist og tölvuleiki til jafns. Fólk virðist ekki kaupa mikið af plötum lengur, sem er kannski skiljanlegt þegar það er svo auðvelt að „hala“ þeim niður á netinu og ég viðurkenni fúslega að ég er ekki alsaklaus af niðurhali sjálfur.  Ég keypti mér nýja tölvu um daginn og tók fyrst eftir því þegar ég kom heim að það var ekki einu sinni geisladiskadrif á henni, en mér finnst þetta samt sorgleg þróun og þrátt fyrir alla þá stórkostlegu hluti sem netið hefur gefið okkur hefur það líka haft slæmar afleiðingar í för með sér. Það er öllum skítsama um hvort Bono eða Brad Pitt fái tíu milljónir dollara minna fyrir að leika í mynd eða gefa út plötu, en þetta bitnar mest á t.d. litlum böndum og sjálfstæðum kvikmyndagerðarmönnum sem eiga litla eða enga peninga og eiga í stórvandræðum með að fjármagna sig. Til að gera langa sögu stutta þá er tónlistin okkar fáanleg á Itunes, Spotify og tónlist.is, en hvort að við munum gefa út plötu í einhverju físísku formi verður bara að koma í ljós.

 

Er stefnan sett á útlönd?

Við höfum ekki sett okkur neitt endanlegt markmið sem hljómar upp á að verða heimsfrægir eða eitthvað þannig, enda held ég að þannig rembingur dragi frekar úr manni en að byggja mann upp. Það er óhollt að vera alltaf að miða sig við eitthvað sem maður er ekki og leiðir á endanum bara af sér að maður verður drifinn áfram af minnimáttarkennd. Við stöndum í þessu vegna þess að við finnum til köllunar til þess að skapa tónlist, við fáum útrás í gegnum þetta og svo er þetta óneitanlega viss tegund af saumaklúbb (hlátur).

Hvenær byrjaðir þú að syngja?

Þetta byrjaði þegar maður var unglingur að hoppa í rúminu með kústskaftið að dúndra Smells like teen spirit. Svo var maður líka alltaf eitthvað að gaula í sturtunni og hljómburðurinn inná baði var alveg himneskur og gaf manni flugur í hausinn. Ég byrjaði fyrst í hljómsveit þegar ég var sextán ára og það tók mig vel rúmt ár bara að þora að syngja á æfingum. Þóttist alltaf þurfa að slípa textann eitthvað aðeins til og lofaði að koma sterkur inn á næstu æfingu. Mér kveið líka alveg stórkostlega fyrir þeirri tilhugsun að þurfa jafnvel einhverntíman að syngja fyrir framan ókunnuga. Það að verða söngvari samanstóð af mörgum litlum skrefum sem ég miklaði alveg fáránlega fyrir mér, en í rauninni snýst það að vera söngvari bara um að þora, það er ekkert flóknara en það. Maður verður síðan líka að vera einlægur og ósérhlífinn, annars mun fólk aldrei tengja við það sem maður hefur að segja og maður verður líka að sætta sig við að alls ekki öllum mun líka við það sem maður hefur upp á bjóða, en fyrir mína parta kom aldrei neitt annað til greina en að vera tónlistarmaður, þetta er það eina sem ég hef alltaf þráð að gera.

Hvað er á döfinni hjá Art is dead?

Erum eitthvað að kukla við að reyna að koma saman nýju lagi, það verður aðeins öðruvísi „fílingur í næsta lagi“ Bad Politics og Razormouth eru með ögn þunglyndari undirtón. Ég er samt ekki að segja að næsta lag sé beinlínis eitthvað „gleðipopp“ alls ekki. Svo erum við líka að fara gera myndbönd við Bad Politics og Razormouth og það verður spennandi að sjá hvernig þeim verður tekið og hvort það opni einhverjar nýjar dyr fyrir okkur.

 

Comments are closed.