ARNAR Í LEAVES

0

_DSC3782

Arnar Guðjónsson sem allir þekkja úr hljómsveitinni Leaves hefur komið víða við. Hann hefur gert ótrúlegustu hluti, meðal annars sungið óperu í Frakklandi svo fátt sé nefnt. Hann sagði okkur frá ferlinum en upptökuferill hanns byrjaði á GoldStar fermingargræjur.


 

Hvernig kom það til að þú fórst að spila á gítar?

Ég fór á gítarnámskeið þegar ég var tíu ára og eftir það var ég algjörlega „hooked“ og hef ekki stoppað síðan. Í kringum tólf ára aldurinn stofnaði ég mína fyrstu hljómsveit sem var dauðarokksveit og kallaðist Inflammatory. Við tókum þátt í músíktilraunum árið 1992 og enduðum í þriðja sæti.

_DSC3810

Hvenær byrjaðir þú að syngja?

Ég byrjaði eiginlega að syngja í laumi, ég tók oft upp söng fyrir sjálfan mig og það var ekki fræðilegur möguleiki á að ég mundi leyfa nokkrum manni að heyra. En svo gerðist það þegar ég var um sextán ára að ég og félagar mínir stofnuðum hljómsveit sem hét Moondogs og það var þá sem ég fór fyrst að syngja. Í framhaldi af því stofnaði ég hljómsveitina Vínyl með Kidda og Gulla Júníusbræðrum og fór þá aftur á gítarinn og spilaði með þeim í nokkur ár. Ég hætti svo í Vínyl þegar ég stofnaði Leaves. Ég fór að gera demó sjálfur þar sem ég var að syngja og gera allt á mínum forsendum og þá fann ég að það var það sem ég vildi gera í rauninni og bakkaði út úr hinu. Þar á undan fór ég að læra klassískan söng, ætli ég hafi ekki verið svona átján ára þegar ég byrjaði. Ég var í Nýja tónlistarskólanum í fjögur ár og ég tók sjö stig. Það sem dró mig inn í klassískan söng var rússneskur ljóðasöngur, svona „dark rússnesk drama ljóð.“ Í rauninni var þetta ekkert sem ég ætlaði að gera en ég tók smá syrpu í þessu og fannst það mjög skemmtilegt. Þegar Leaves fór af stað um 2001 þá hætti ég í klassískum söng.

Hver stofnaði Leaves?

Ég stofnaði Leaves ásamt Halli fyrrverandi bassaleikara og er aðal lagahöfundurinn en við vinnum samt alla tónlistina saman. Fyrstu demóin vann ég einn en svo unnum við plötuna saman sem hljómsveit Breathe. Það voru demóin sem kom okkur í raun á samning. Emilíana Torrini fór með upptökurnar á einhvern fund út í USA og eftir það fór boltinn að rúlla. Við vorum rétta bandið á réttum tíma. Allt í einu hafði allur bransinn áhuga á okkur og fjöldi útgáfufyrirtækja vildi gera samning við okkur. Þetta var smá „surprise.“ Þótt ég hafi alltaf hugsað stórt þá bjóst ég ekki við því að hlutirnir myndu gerast svona hratt enda vorum við ekki komnir með fullklárað „stuff“ ég meina strákarnir í bandinu voru enn að læra á hljóðfærin. Mér fannst mikilvægara að fá góða vini með mér í þetta frekar en einhverja „pro hljóðfæraleika.“ Þannig að strákarnir þurftu bara að æfa sig. Það er svo mikilvægt að stemmningin sé góð í svona hóp enda smitar það út frá sér.

_DSC3750-2

Hvað gera menn þegar bransinn er farinn að sýna ykkur svona mikinn áhuga?

Við völdum fljótlega fyrirtæki til að vinna með og fórum strax að túra og taka upp plötu. Það gekk mjög vel og við seldum slatta af fyrstu plötunni. Platan var kosin ein af bestu plötum ársins hjá Q magazine og fékk rosa góða dóma. Við túruðum helling í svefnrútum og stundum vorum við á hótelum og þá mest í Bretlandi. Það má segja að ég hafi séð óþarflega mikið af Bretlandi.

Þið voruð að túra frekar mikið?

Já, en við fluttum samt aldrei út. Við vorum aðallega að fljúga fram og til baka og stundum vorum við að fara oft í mánuði.

Hvaða hljómsveit var skemmtilegast að túra með?

Supergrass túrinn var mjög skemmtilegur. Þeir voru með sömu umboðsmenn og við þannig þetta var smá svona „family“ stemning í gangi. Svo var Doves túrinn líka mjög skemmtilegur. Þetta eru bönd sem við hlustuðum á áður en við stofnuðum Leaves en okkur datt aldrei í hug að við ættum eftir að túra með þeim þannig að þetta var mjög skemmtilegt og mikið stuð.

_DSC3753

Breathe var fyrsta platan, hvað tók við?

Við gerum svo samning við Dreamworks í Bandaríkjunum og platan var gefin út þar ári seinna (2003) og svo túruðum við þar með Stereophonics. Fljótlega eftir það þá byrjum við á næstu plötu. Það er tekin ákvörðun um að skipta um plötufyrirtæki, það voru reyndar umboðsmennirnir okkar sem ákváðu að það væri rétta skrefið fyrir okkur. Við gerðum samning við Island Records og gáfum út plötuna The Angela test hjá þeim. Eftir fyrstu plötuna langaði okkur að prufa eitthvað nýtt, ekki endurtaka sama formið aftur, þannig að önnur platan varð aðeins tormeltari en Breathe og aðeins meira experimental þó hún sé alveg poppuð líka. Hún var gefin út af Island Records árið 2005 en náði ekki eins miklu flugi og hin platan þótt hún hefði fengið fína dóma og það fór þannig að kallinn í bókhaldinu hjá Island Records sá ekki grundvöll fyrir því að eyða meiri peningum í þetta. Við fórum þá sjálfir að búa til plötur hérna heima ásamt því að stofna fjölskyldur og eignast börn. Það hefur því hægst aðeins á ferlinu en við höfum aldrei hætt að gera tónlist. Þetta er bara spurning um að finna tíma til að gefa út næsta efni.

Það hafa verið mannabreytingar

Það hafa verið mannabreytingar á öllum plötunum. Það er alltaf ákveðin innspýting í því að fá nýja meðlimi inn þótt að það sé alltaf leiðinlegt þegar einhver hættir. En með nýjum manni kemur alltaf einhver neisti og stemmning. Þetta eru bæði plúsar og mínusar en það er rosa góð stemmning í bandinu í dag. Við erum ennþá tveir upprunalegir meðlimir og trommarinn okkar Nói hefur verið með síðan 2003.

Eru þið ekkert að reyna að koma nýja efninu að erlendis?

Jújú þannig séð, en við höfum samt ekki sett mikið púður í það. Þetta er bara svo breytt í dag, en það er fullt af fólki ennþá út um allan heim sem eru að kaupa plöturnar okkar, þannig að það eru ennþá slatti af aðdáendum sem eru að fylgjast með.

Sáuð þið eftir því að hafa ekki gert eins aðgengilega plötu?

Við höfðum mikla trú á því sem við vorum að gera og vorum mjög sáttir við plötuna sem slíka en það hafði samt ákveðin áhrif að hún var ekki eins „commercial“ og fyrsta platan. En nei við sjáum ekkert eftir því. Plötufyrirtækið studdi okkur alveg með þessa plötu og það höfðu allir trú á henni og við erum mjög sáttir við hana í dag.

Hvað er sagan á bak við nafnið á nýju plötunni ykkar See You In The Afterglow?

Engin ákveðin saga. Þetta er setning tekin úr loka laginu á plötunni. Það er bara góð stemmning í þessu.

Hvaða lög eru búin að vera mikið í spilun á nýju plötunni?

Það eru fjögur lög sem eru búin að fá mikla spilun í útvarpi, Líklega hefur Ocean fengið hvað mesta spilun en svo eru það The Sensualist sem er fyrsta lagið á plötunni, Parade og Lovesick. Við reynum alltaf að gera eitthvað alveg nýtt á hverri plötu. Markmiðið er ekki að reyna vera frumlegasta hljómsveitin í heiminum en við reynum alltaf að koma með einhvern nýjan hljóm og skapa nýjan heim fyrir hverja plötu.

Segðu mér frá þessu Leaves soundi eða ykkar soundi sem hljómar rosa vel?

Ég í rauninni held utan um þetta allt og tek þetta upp í stúdíóinu mínu. En „Leaves sound“ segð þú mér, erfitt að segja frá því „soundi“ sem maður veit ekki af sjálfur. Ég fékk Adda 800 til að klára mixið með mér svona síðustu metrana. Það er oft mjög erfitt að klára sitt eigið efni þegar maður er búin að vera að semja og vinna allt frá grunni, það þarf oft fersk eyru til að klára dæmið. Við tókum upp trommugrunninn en restin var tekin upp í stúdíóinu hjá mér.

Þú ert að taka upp meira en Leaves í stúdíóinu hvað er nafnið á stúdíóinu og hvað hefurðu verið að taka upp.

Stúdíóið heitir  Aeronaut Studios og ég er búin að vera að taka upp aðra síðan 2004 en þá gerði ég plötu með hljómsveitinni Tenderfoot. Síðan þá hef ég tekið upp fjölda platna og unnið með mörgun frábærum tónlistarkonum og mönnum. Þar má t.d. nefna Kaleo, Pollapönk, Quarashi og Bigga Hilmar.

_DSC3800-2

Fórstu í upptökunám ?

Í rauninni er ég sjálflærður og byrjaði á GoldStar fermingargræjum bróður míns. Þetta voru stereo græjur með tveimur kassettutækjum. Maður tók upp á eina spóluna og dömpar svo yfir á hina og spilar ofan á. Þegar maður spilar á hljóðfæri og er að búa til tónlist þá fylgir því að taka sjálfan sig upp. Þú vilt alltaf heyra það sem þú varst að gera svo maður þarf í raun að læra tæknilegu hliðina á þessu og finna út hvernig maður á að gera  hlutina. Þannig á endanum er maður eiginlega orðinn upptökumaður. Ég hef verið að vinna á Protools frá 2004 það hentar rosa vel í þessa tónlist sem ég er að gera.

þú tókst upp Eurovision lagið í ár?

Það var mjög gaman að taka þátt í því. Strákarnir í Pollapönki spurðu hvort ég væri til í að gera demo með þeim til að senda inn í keppnina og það endaði með því að nokkrum mánuðum seinna var ég staddur í Eurovision höllinni í Köben klæddur grænum Henson galla. Þetta var mjög skemmtilegt og frábær hópur sem tók þátt í þessu.

Spilar Leaves mikið live?

Við tökum svona syrpur, en í kringum seinustu plötu þá spiluðum við frekar mikið. Við erum að reyna að spila reglulega en það geta samt alveg liðið einn eða tveir mánuðir á milli. Við erum alveg til í að spila meira en maður nennir ekki að bóka t.d. Gaukinn oft í mánuði en vonandi á það eftir að aukast.

_DSC3716-2

Finnst þér aðstaðan til tónleikahalds góð á Íslandi?

Það hafa verið ágætir tónleika staðir í bænum en það gerist alltof oft að þegar þeir eru loksins orðnir fínir þá er þeim lokað og byggt hótel í staðin. Gaukurinn er td. orðinn miklu betri en hann var, það er búið að breyta honum talsvert og svo er Húrra  á neðri hæðinni fínn tónleika staður líka. Bönd hafa stundum verið að leigja Gömlu Óperuna en það getur verið svolítill pakki og maður nennir ekki að lenda í mínus við það að halda tónleika.

Hvað ertu að fást við núna?

Ég var að klára splúnku nýtt lag með Kaleo og svo er ég að vinna með ýmsum öðrum tónlistarmönnum og hjálpa þeim við upptökur og útsetningar. Svo erum við byrjaðir  að vinna nýtt efni með Leaves. Ég hef oft sagt að það komi ný plata á næsta ári og það hefur klikkað þannig að ég ætla ekki að lofa neinu. Ég veit ekki alveg hvenær það kemur út nýtt efni en við erum að detta í stuð og það verður eitthvað allt annað en síðasta plata, við munum nálgast tónlistina á annan hátt og prófa nýja hluti. En vonandi helst eitthvað „Leaves sound“ en samt eitthvað öðruvísi. Þetta virðist vera að stefna í meira groove, kannski meira minimal en það kemur bara í ljós.

Hefurðu einhvern tímann hugsað um að hætta í tónlist?

Nei aldrei, ég hef aldrei fengið leið á þessu. Það kemur alltaf eitthvað nýtt, maður er mjög leitandi og það er kannski drifið í þessu. Það er alltaf spennandi að gera nýja hluti og að byrja með autt blað. Mér finnst líka frábært að fá að vinna með öðrum tónlistarmönnum og sjá hvernig þeir hugsa og vinna tónlistina, það er mjög  lærdómsríkt. Ef ég lendi einhvern tímann í sömu hjólförunum aftur og aftur og fer að endurtaka mig þá vona ég að einhver hnippi í mig og láti mig vita.

Hvað geturðu sagt mér um nýju plötuna?

Platan kom út í október 2013 og var gefin út af Record Records. Við vorum alveg vissir um hvaða lag ætti að vera fyrsti singull en þeir stoppuðu okkur algjörlega af og bentu okkur á hvaða lag ætti meiri möguleika í útvarpi. Það vill stundum gerast að hljómsveitin er ástfangin af einhverju lagi sem er ekki beint útvarpslag þannig að við erum mjög sáttir með hvernig þeir hjá Record Records eru búnir að tækla þetta, við höfum nefnilega aldrei fengið eins mikla útvarpspilun og einmitt núna. Myndin á coverinu var tekin út í hrauni á Reykjanesinu. Ég fór með fjölskylduna í sunnudags bíltúr og við ætluðum að búa til myndband við lagið The Sensualist, myndbandsgerð er nefnilega mjög góð fjölskylduskemmtun. Ég bjó til þennan karakter og hann endaði sem myndin framan á plötunni. Vídeóið hefur samt ekki farið í loftið ennþá, kannski einn daginn.

_DSC3815-2

Hvernig er að tvinna saman tónlistinni og fjölskyldunni?

Ég næ að halda vinnutímanum þannig að ég er yfirleitt frá níu til fimm, en auðvitað eru stundum kvöldsession inn á milli, en já ég hef náð að halda þessu svona svo maður geti líka verið með fjölskyldunni og krökkunum sínum sem er mjög mikilvægt, þetta er svo fljótt að líða.

Bang gang og ópera

Ég hef verið að vinna mikið með Barða Jóhannssyni. Ég hef spilað með Bang Gang frá 2008 – 2009 og túrað mikið með honum. Undanfarið hef ég t.d. verið að fara með honum til Kína í tónleikaferðir. Árið 2011 fór ég með eitt aðalhlutverkið í óperu eftir hann og Keren Ann í Frakklandi. Þetta er eitthvað sem mig hefði aldrei grunað að ég ætti eftir að gera, en þetta voru sex sýningar í nokkrum borgum. Þetta var rosalega flott gert allt saman og stórt production. Sviðsmyndin kom frá Boston, virtur fatahönnuður gerði fötin og danshöfundurinn Damien Jalet sá um dansinn. Svo var íslenskur kór og hljóðfæraleikarar frá Frakklandi. Þetta var bara stórglæsileg sýning og það hefði verið gaman ef hún hefði verið sett upp hérna heima.

Hvernig er að vera í bandinu hanns Barða?

Það er rosalega gaman. Ég var búin að vera svo lengi í Leaves og engu öðru að ég tók þessu tækifæri fegins hendi. Það var eiginlega ákveðið frelsi fólgið í því að prófa vinna með öðru bandi og það gerði mér mjög gott. Ég held að það sé gríðarlega hollt að vinna með ólíku fólki og að loka sig ekki bara inni með sitt.

_DSC3691

Hlustarðu mikið á tónlist heima hjá þér?

Já það er stanslaus tónlist í gangi heima og mikið sungið og spilað.  Krakkarnir þurfa svo oft að hlusta á það sem ég er að vinna í og eru líklega bestu gagnrýnendurnir sem ég get fengið. Það má því segja að tónlist sé mjög stór partur af heimilislífinu.

Hvað hlustarðu aðallega á?

Af íslensku efni þá er ég að akkúrat núna að fíla nýja lagið með Júníusi Mayvant mjög vel og svo finnst mér Monotown og Starwalker mjög flott bönd svo eitthvað sé nefnt.

Ertu sáttur með ferilinn hingað til?

Jú algjörlega það er margt sem ég á eftir að gera og langar að gera. Ég er til dæmis að vinna í sóló efni sem er farið að taka á sig góða mynd. Þannig stefnan er að gefa út sólóplötu í náinni framtíð sem verður mjög ólík Leaves en það verður bara að koma í ljós hvenær hún verður tilbúin.

 

Comments are closed.