Arnar drekkur í sig Airwaves: „Ég lofa geggjuðu kvöldi”

0

Ljósmynd: Ómar Örn Smith.

Eins og flest allir íslendingar vita hefst Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves á morgun en hún fer fram 7 – 10 Nóvember næstkomandi. Dagskráin í ár er vægast sagt glæsileg og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi! Hvert ár fyllist miðbær Reykjavíkur af innlendu og erlendu tónlistarfólki, aðdáendum og bransa liði og er stemningin vægast sagt rafmögnuð! Það er eins og litli miðbærinn okkar breytist í stórborg eins og t.d New York og á hverju götuhorni er eitthvað stórkostlegt að gerast!

Albumm.is náði tali af allskonar skemmtilegu fólki og spurðum við þau nánar um Iceland Airwaves og upplifun þeirra af hátíðinni. Á næstu dögum munum við birta herlegheitin þannig endilega fylgist vel með!

Nú er komið að tónlistarmanninum Arnari Guðjónssyni en hann hefur svo sannarlega verið áberandi í íslensku tónlistarlífi svo árum skiptir! Flestir þekkja kappann úr hljómsveitinni Leaves en hann semur einnig tónlist undir nafninu Warmland og rekur hljóðverið Aeronaut Studios svo sumt sé nefnt!


Hvernig leggst Iceland Airwaves í þig?

Svakalega vel. Það er nýr aðili að sjá um festivalið í ár og það verður gaman að sjá hvernig áherslubreytingarnar koma út. Það er alltaf veisla að fara á Iceland Airwaves.  

Hefur þú farið oft á Airwaves hátíðina?

Ég er búinn að fara ansi oft. Ég fór í flugskýlið 1999 á fyrstu hátíðina og svo spilaði ég í fyrsta skipti sjálfur árið 2001. Ég hef ekki misst úr margar hátíðir eftir það.

Hver er þín eftirminnilegasta minning frá hátíðinni?

Það er líklega árið 2001 þegar ég spilaði fyrstu tónleikana með hljómsveitinni Leaves í Listasafninu.  

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni í ár?

Það er fullt af spennandi hlutum að gerast í ár. Af íslenskum atriðum langar mig að sjá Ayia, Berndsen, JFDR, Einar Indra, GlerAkur og Ólaf Arnalds til að nefna eitthvað. Svo er hellingur af nýju erlendu sem ég ætla að tékka á.

Hvar og hvenær kemur þú fram á hátíðinni í ár?

Warmland spilar í Gamla bíó á fimmtudeginum kl.20:30 og svo spila ég með Sycamore tree á laugardeginum kl.19:30, líka í Gamla bíó.

Eitthvað að lokum?

Ég lofa geggjuðu kvöldi í Gamla bíó á fimmtudeginum. Allir að kaupa miða á Airwaves!

Skrifaðu ummæli