ANDRI MÁR RÝNIR Í SECRET SOLSTICE 2017

0

Andri Már Arnlaugsson.

Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin í Laugardalnum dagana 15. – 18. júní og fór ég (Andri Már Arnlaugsson) fyrir hönd albumm.is að hlusta á þá mörgu flottu listamenn sem þar voru ásamt því að sjá stemninguna og upplifa þessa mögnuðu hátíð sem haldin var í fjórða sinn.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var virkilega vel sótt, en aðeins tvö svið af fimm voru í boði. Ég ákvað að skella mér inn í Laugardalshöll sem kallað var „Hel.” Þegar ég labbaði inn í höllinna blasti við mér gríðarlega flott svið umlukið rauðum lazer ljósum og reyk. Ekki var annað að sjá en að skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu breytt nýju Laugardalshöllinni í flottann og umfangsmikinn næturklúbb.

Á sviðinu var að spila hin bandaríska Black Madonna. Ég hafði heyrt af henni og að hún spilaði flotta blöndu af danstónlist úr öllum áttum, sem hún gerði. Ég fór úr djúpri takfastri danstónlist yfir í sálarfulla funk tónlist. Skemmtilega fjölbreytt dj sett hjá þessari flottu listakonu frá Bandaríkjunum.

Eftir smá dans æfingar á þægilega teppalagðri Laugardalshöllinni stökk ég út á stærsta svið sem hátíðin hefur haft (Valhöll) til þess að líta augum eitt af allra reynslumesta og langlífasta bandið sem bókað var þetta árið en það var enginn önnur en bandaríska dívan Chaka Khan.

Chaka Khan

Ég var nokkuð spenntur að sjá þau spila en Chaka Khan er búin að spila og semja tónlist í yfir 40 ár. Það var líka ekki að heyra annað á bandinu sem var ótrúlega þétt spilandi og dívan sjálf í fantagóðu formi.

Mér fannst reglulega gaman að sjá hversu góð mæting var á þetta fyrsta kvöld miðað við að maður bjóst nú við að það yrði töluvert fámennra en hin kvöldin, en allt í allt mættu um 20.000 manns á hátíðinna.

Þá var helgin runninn upp – sneisafull dagskrá framundan alla helgina og maður þurfti nánast að velja og hafna hvaða listamann manni langaði að sjá en ég ákvað að byrja á hinum alíslenska og ofursjarmerandi listamanni, Högna. Ég var nokkuð spenntur að sjá hvað Högni myndi framreiða undir sínu nafni og hafði býsna miklar væntingar sem stóðust algerlega. Högni var með trommuleikara með sér upp á sviði ásamt fiðluleikara. Flott blanda af einhverskonar raftónlist með sál. Hlakka mikið til að heyra meira af þessu verkefni hans Högna, kom verulega vel út.

Ata Kak var eitt af þeim nöfnum sem voru óvæntust þetta árið á Solstice en þessi listamaður frá Ghana er býsna magnaður. Erfitt er að lýsa tónlist hans en þetta er einhverskonar hress sýrkennd sveiflutónlist með sál! Mér leið eins og ég væri í brúðkaupi í Ghana og Ata Kak væri að skemmta liðinu. Mæli með að fólk tékki á honum ef það vantar eitthvað öðruvísi að spila á heitum sumarkvöldum, þið verðið ekki svikin!

Strax á eftir Ata Kak steig á svið einn af mínum uppáhalds bresku hip hop listamönnum í gegnum tíðina, Roots Manuva. Hann var eitt af þeim atriðum sem ég var búinn að merkja við að ég ætlaði ekki að missa af enda hef ég hlustað á kappann í fjöldamörg ár.

Roots Manuva var yfirvegaður og svalur með sinn þykka breska hreim og gaman var að heyra mörg af þessum lögum sem ég hlustaði mikið á þegar ég var unglingur. Langar líka að taka fram að sviðið sem hann spilaði á (Gimli) var skemmtilega skreytt með blómum og flottum silfurlituðum fonti sem var skemmtilegt og setti ákveðinn blæ á það.

Roots Manuva

Skundaði svo beint eftir Roots Manuva á Valhöll (stóra sviðið) að sjá aðra breska kempu en það var söngvari og frontmaður hljómsveitarinnar The Verve hann Richard Ashcroft.

Richard Ashcroft

Um aldarmótin gaf hann út plötuna sína, Alone with everybody og hlustaði ég nokkuð mikið á hana á þeim tíma og fannst hún flott. Gamla kempan var reyndur á sviði – ekta breskt „attitude” og kom mér og öllum skemmtilega á óvart með því að taka nokkra slagara með The Verve.

Fólk var alveg með á nótunum og sungu allir með þegar hann tók „Bittersweet Symphony” og einmitt á því augnabliki létu nokkrir sólargeislar sjá sig.

Virkilega skemmtilegir tónleikar hjá Ashcroft og gaman var að líða ekki eins og ég væri elsti maðurinn á svæðinu á þessu mómenti.

Endaði síðan þetta föstudagskvöld á að sjá hip hop legendið Pharoahe Monch gera allt klikkað og taka hugann aftur um talsvert mörg ár. Það varð nota bene allt vitlaust þegar kappinn tók sinn frægasta banger „Simon Says.” Lag sem að myndi fá mesta hip hop efasemdarmenn til þess að vagga hausnum upp og niður.

Laugardagurinn runninn upp og spáð hafði verið grenjandi rigningu, en hún lét nú ekki sjá sig fyrr en töluvert síðar um kvöldið (á býsna góðu momenti þar að auki).

Foreign Beggars er rapp crew sem ég hafði heyrt mikið af og hlustað lítillega á en hafði aldrei séð spila áður og húrraði mér því að sjá þá á Valhalla sviðinu. Mikil orka einkenndi þá og vel harðir taktar – datt í smá drum&bass á tímabili í settinu þeirra – hip hop aðdáendur sem og danstónlistar aðdáendur fengu því eitthvað fyrir sinn skammt þegar þessi bresku mc’arnir héldu öllum á tánum.

Foreign Beggars

Þegar leið á tónleika þeirra sá maður að svæðið var byrjað að fyllast og var það vegna þess að á eftir þeim var eitt af headline böndum hátíðarinnar og margföldu Íslandsvinirnir í The Prodigy.

Ég gæti skrifað heila grein um The Prodigy hér enda ein af mínum allra uppáhalds böndum í gegnum alla ævi mína. Fyrsti geisladiskurinn sem ég fékk var t.d fyrsta plata þeirra Experience sem er nota bene mest spilaða plata lífs míns.

The Prodigy

Ég fann að það var mikil eftirvænting í loftinu og ég efast ekki um að það hafi verið hartnær 15 -17.000 manns á Valhalla svæðinu þegar Keith Flint, Maxim Reality og Liam Howlett stigu á svið og ekki laust við að gamla Prodigy hjartað hafi tekið smá kipp þegar ég heyrði að fyrsta lag þeirra var „Everybody in the place,” sem er eitt af þeirra fyrstu lögum.

Prodigy er eitt af þessum böndum sem leggja allt í lifandi flutning sinn og hafa alltaf gert. Næstu 90 mínúturnar dansaði undirritaður ásamt nokkur þúsund öðrum gestum hátíðarinnar í grenjandi rigningunni við lög eins og „Their Law,” „Firestarter” og „Breath.” Klárlega einn, ef ekki bara hápunktur hátíðarinnar, að mínu mati.

Rennblautur og glaður leit ég við í Laugardalshöll að sjá Kiasmos og endaði þetta fínasta laugardagskvöld mitt þar.

Sunnudagurinn og jafnframt lokadagur Secret Solstice, en ekki var að það að sjá á dagskránni sem var eflaust fjölbreyttust þennan daginn – allt frá 70’s soul og funk yfir í post-punk tónlist og allt þar á milli.

Kiriyama Family er band sem ég hef fylgst ansi náið með síðan ég heyrði lag þeirra „Weekends” fyrir nokkrum árum. Verulega vel spilandi band og mikil og sterk 80’s skotin lögin þeirra hrifu mig og viðstadda. Þau voru að gefa út fyrir aðeins mánuði síðan plötuna Waiting For. Algjör feel good fílingur í lögunum þeirra og hvet ég fólk til þess að mæta á útgáfutónleika þeirra núna næstkomandi föstudag, 23. Júní, í Tjarnarbíó og versla sér plötu þeirra sem er stórgóð og hressandi.

Eftir stutt dansi stopp í Ask útitjaldinu á Soul Clap og Wolf and Lamb fór ég að sjá hinn magnaða nýja listamann Anderson Paak ásamt bandi sínu The Free National. Þessi listamaður er gjörsamlega magnaður í alla staði, ég vissi hve vinsæll hann var og hafði hlustað á nýjustu plötu hans sem mér finnst verulega góð en grunaði ekki að hann ætti eftir að vera jafn góður og raun bar vitni.

Anderson Paak

Andreson Paak er verulega fjölhæfur listamaður en hann spilaði á trommurnar af mikilli fagmennsku, ásamt sem hann söng, og verulega gaman var að heyra hversu virkilega fjölbreyttur lifandi flutningur þeirra var.

Anderson nær að samtvinna tónlist gamalla tíma í einhvernskonar nýjum búning, fortíð mætir framtíð að vissu leyti. Mun klárlega fylgjast með þessum flotta listamanni framvegis. Eitt af 2-3 hápunktum hátíðarinnar að mínu mati án efa!

Cymande tróðu upp í Gimli, ég var ekki að átta mig á að þetta band sem starfrækt hefur verið í næstum 50 ár væri að fara að spila á hátíðinni og þau sem sáu um að bóka þá eiga hrós skilið.

Þetta er eitt af þessum upprunarlegu soul og funk böndum sem hafa haft áhrif á gríðarlega marga listamenn í hip hop og soul og funk heiminum. Alls 10 saman á sviði, eflaust flestir orðnir 70 ára og eldri, matreiddu þeir alvöru sálar og funk bræðing fyrir viðstadda og leið mér eins og ég væri kominn aftur til ársins 1975.

Frábært að fá þetta band inn á hátíðinna og er ég vel til í að sjá fleiri listamenn í líkingu við Cymande á komandi hátíðum. Eins og plötusnúðurinn Natalie sagði „Þeir sem eru hér eru „REAL““ sem var dálítið satt. Hef t.d. ekki séð Dj Tomma White brosa jafn mikið á ævi minni, sem er gæðastimpill!

Rick Ross

Big Sean og Rick Ross enduðu svo hátíðina á stóra sviðinu með góðum tilþrifum. Á þeim tímapunkti lét ég gott heita og kvaddi þessa frábæru og vel heppnuðu Secret Solstice hátíð þetta árið.

Big Sean

Langar að taka fram að þessi nýja staðsetning fannst mér vera töluvert stökk upp á við frá fyrri hátíðum og skipulagning og aðstaða algerlega til fyrirmyndar að öllu leyti. Ekki mátti sjá nein slagsmál eða annað vesen alla þessa fjóra daga, sem verður að teljast æðislegt með 20.000 manns samankomin.

Ég þakka skipuleggjendum hátíðarinnar og öllum sem að henni komu reglulega vel fyrir mig.

Sé ykkur á næsta ári!

Fyrir hönd Albumm.is

Andri Már Arnlaugsson.

http://secretsolstice.is

Skrifaðu ummæli