ANDRI DRAKK Í SIG NORÐUR OG NIÐUR

0

Andri Már Arnlaugsson drakk í sig Norður og Niður.

Tónlistar- og sjónlistahátíðin Norður og Niður fór fram í fyrsta skipti í Hörpunni í Reykjavík daganna 27. – 30. desember, og hefur vafalaust kætt marga að fá slíka viðbót í listalíf landsins á þessum annars dimma og kalda tíma í Reykjavík.

Það má segja að hátíðin hafi í raun gerst nokkuð óvænt þar sem hún kviknaði aðeins sem hugmynd hjá Sigurrós um að flytja inn suma af sínum uppáhalds erlendu listamönnum í samfloti við tónleika þeirra í Eldborg þessi fjögur kvöld. Þetta voru fyrstu tónleikar Sigurrósar hér á landi í fimm ár og um leið endir á tónleikaferðalagi þeirra sem staðið hafði yfir í heila 18 mánuði.

Ég varð strax verulega spenntur þegar ég sá hvaða tónlistarmenn þeir höfðu bókað til að spila, en þar má nefna erlenda listamenn á borð við Mogwai, Stars of The Lid, Peaches, Ulrich Schnauss og fjöldann allan af innlendum myndlistar, sviðslistar og tónlistarmönnum.

Það var ákveðinn undirtónn í hátíðinni í heild sinni sem mér fannst svipa til þess hljóðheims sem Sigurrós hefur skapað, drungalegur enn í senn fallegur og snertir við manni. Hátíðin bar vissulega keim af tónlistarhátíðinni All Tommorow’s Parties (ATP)  hvað varðar val á listamönnum og aldurshóp sem sótti hátíðina.

Stars of The Lid var það band sem ég var hvað spenntastur fyrir að sjá, en þau voru að spila i fyrsta skipti hér á landi. Þau snertu mikið við mér, algerlega magnaðar 90 mínútur í sal Norðurljósa. Bandið samanstóð af tveim fiðluleikurum, sellóleikara, bassa og gítarleikara. Þetta voru sitjandi tónleikar, sem ég hafði ekki séð áður í Norðurljósum og fannst mér það henta þessum tónleikum mjög vel.  Stars of The Lid er band sem ég hef hlustað á í nokkuð mörg ár og hafa sinn eiginn epíska og dulúðlega hljóðheim sem maður sekkur hægt en örugglega inn í. Sviðið var umlukið reyk og flottri lýsingu sem magnaði upp tónlist þeirra og skildi fólk eftir í mikill geðshræringu. Þau héldu öllum salnum i þessar 90 min sem þau spiluðu og verður þetta að teljast með eftirminnilegri tónleikum sem ég hef farið á.

Mikil eftirvænting var fyrir skosku post-rock hjómsveitinni Mogwai sem spilaði í sal Norðurljósa. Verulega vel var mætt á tónleikana og gaman að loksins sjá þá spila eftir öll þessi ár sem ég hefi hlustað á þetta langlífa band. Því miður skilaði salurinn og hljóðið í Norðurljósum ekki nægilega vel þessu tilfingarþrungna en háværa sándi sem Mogwai eru þekktir fyrir en bandið var engu að síður að gefa sig alla fram í flutninginn og þar bar trommari sveitarinnar af, sem fór mikinn á sviðinu. Virtust tónleikagestir vera nokkuð sáttir með þá þrátt fyrir að hljóðið hafi ekki skilað sér nægilega vel.

Gyða Valtýsdóttir sellóleikari og fyrrum meðlimur Múm tróð upp ásamt strengjasveit og listamanninum Shahzad Ismaily í Kaldalóni, en setið var í hverju sæti í sal Kaldalóns. Smekkfullt var nánast á hverja einustu tónleika í þeim sal og mikið var um að færri kæmust að en vildu sökum þess að ekki voru aðrir tónleikar í gangi á sama tíma. Gyða, ásamt meðleikurum sínum, töfraði fram magnaðan seið af yndislega fallegri tónlist og náðu þau að heilla hverja einustu manneskju í Kaldalóni þetta laugardagskvöld.

Vonandi er Norður og Niður kveikjan að einhverju sem við fáum að sjá meira af í einhverju formi,  hvort sem það verður stór hátíð sem þessi eða minni í sniðum með svipuðum áherslum. Gef ég meðlimum Sigurrósar mikið hrós fyrir hversu vel þeir völdu þá listamenn sem komu fram á hátíðinni og um leið kynntu fyrir fólki á Íslandi mikið af mjög áhugaverðum listamönnum sem annars hefðu kannski aldrei komið til landsins að spila.

Takk!

Nordurognidur.is

Skrifaðu ummæli