ANDREA JÓNSDÓTTIR

0

Andrea Jónsdóttir er einn helsti tónlistarspekúlant landsins. Andrea hefur verið dagskrárgerðarkona á Rás 2 um árabil og Dj á rokkbarnum Dillon. Andrea kom í viðtal hjá Albumm.is og sagði hún okkur frá fyrstu tónlistarminningum sínum, flugferðinni með Led Zeppelin og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.
andrea 1

Hvenær byrjaðir þú að hafa verulegan áhuga á tónlist og hefur rokkið alltaf vakið mestan áhuga þinn?

Fyrsta lag sem ég fékk á heilann mun hafa verið Ég vild´ ég væri… (hænuhanagrey). Það söng Svavar Benediktsson inn á plötu árið 1952, en sumarið 1953 fór ég í ferðalag með minni famelíu og fleira fólki og kvað hafa sungið þetta stöðugt í rútunni. Ég man nú ekki eftir því…var fjögurra ára. 1954 kom út Söngur villiandarinnar með Jakobi Hafstein og það er fyrsta lag sem ég man eftir að hafa fallið fyrir þá sérstaklega hinum sorglega texta, sem ég kunni utanað. Svo kom Elvis Presley, en hann var ólíkur öllu sem á undan hafði heyrst hér í útvarpi…hann heillaði mig…kannski hef ég verið átta ára þegar ég heyrði fyrst í honum og Be-bob-a-lula með Gene Vincent, algjör tímamótaupptaka (´56). Svo voru það Shadows og Cliff Richard, en með Bítlunum byrjaði músikdellan fyrir alvöru…ekki varð aftur snúið. Rokk? Það hefur þróast í áranna rás, en það sem við köllum rokk í dag byrjaði í mínum huga með Jimi Hendrix, Janis Joplin, Doors, Deep purple, Led Zeppelin, Black sabbath, Grand funk o.fl. Ég hlusta á allskonar tónlist, poppaða, þjóðlagakennda, djassaða og rokkaða.

Hvað er það við tónlist sem heillar þig og ertu alltaf að grúska í tónlist?

Ég er alltaf að hlusta og lesa. Kaupi rit eins og Uncut, Mojo og Classic rock, mér finnast textarnir skipta máli en líka fólkið sjálft, viðhorf þess og framkoma. Hef bæði gaman af miklum töffurum og ljúflingum, þeir geta líka verið töff…

Nú þekkja þig allir sem rokkömmu Íslands og þú hefur verið einn helsti tónlistarspekúlant Íslands í áraraðir en hefurðu aldrei verið í hljómsveit og ef svo er hvaða hljómsveit var það og hvaða hlutverki gengdirðu þar?

Mér finnst titillinn rokkamma Íslands aðeins yfir strikið, sérstaklega af því að ég hef aldrei verið í hljómsveit. Það lengsta sem ég hef komist í þeim bransa er að hafa skrifað niður nokkra texta af hljómplötum eða kassettum fyrir vini mína í Mánum þegar þeir voru að æfa einhver ensk lög.

and

Nú hefur þú lifað nokkur tónlistartímabil, ef þú gætir hoppað aftur í tímann, hvaða tímabil mundirðu fara til og af hverju þess tímabils?

Ég hef aldrei verið haldin fortíðarþrá, mér finnst framtíðin áhugaverð en verð þó að viðurkenna að rosaleg þróun var í tónlist ca ´64 – ´74 sem hefur áhrif á tónlist enn þann dag í dag.

Hvernig finnst þér Íslensk tónlist í dag og hvaða tónlistartímabil á Íslandi telur þú vera það besta?

Hugsanlega er núið í íslenskri tónlist það besta, ég er að vísu eilífur Hljóma– og Trúbrots aðdáandi og margt gott gerðist á þeirra tíma. Stuðmenn, Spilverk, Bubbi o.fl. eru líka órjúfanlegur partur af þjóðinni, en nú til dags hafa miklu fleiri aðgang að upptökutækni og sprottið hefur upp aragrúi af hæfileikaríku fólki á ýmsum sviðum dægurlagatónlistar, gróskan hefur aldrei verið meiri.

jons2

Finnst þér eitthvað vanta í tónlist í dag og ef svo er hvað er það?

Ef eitthvað vantar nú til dags, kemur það síðar. Það verður eitthvað að geyma fyrir framtíðina. Fólk nú er meira að segja með hugsjónir, t.d. reggae liðið okkar. Mér finnst hinsvegar að almenningur megi sýna betur í verki að það standi með okkar frábæra tónlistarfólki, það er að segja, að kaupa plötur/tónlist þess.

Nú ert þú einnig Dj, hvað er þitt versta og besta Dj gigg og hvað er það við Dj störfin sem heillar þig?

Hef aldrei lent í svo leiðinlegu giggi að ég muni eftir því. Oftast er mjög skemmtilegt af því að flest fólk er fínt, ég er svo mikill Dj fólksins, eins og Krummi segir, að þetta er samspil. Ég reyni að finna hvað virkar hverju sinni. Ég er ekki listrænn plötusnúður með eindregna stefnu, ég spila lög.

Ef það yrði heimsendir á morgun, hvaða plötu mundirðu skella á fóninn og af hverju þeirri plötu?

Ja hérna, dramatísk spurning. Líklega Joni Mitchell The Circle Game á Ladies Of The Canyon er frábært lag og texti um lífshlaup mannsins, en ég yrði kannski að halda mig við lokalagið mitt á Dillon, það væri smartast Piano Man, „man, what are you doing here?

andrea

Nú er fræg saga af þér þar sem þú áttir að hafa flogið af landi brott með hljómsveitinni Led Zeppelin, er eitthvað til í þessu og hver er öll sagan?

Þetta er hárrétt. Ég var búin að fá mér vinnu í London en ákvað að sjá Led Zeppelin fyrst í Laugardalshöll og fara svo eldsnemma (minnir mig) næsta dag með Flugfélagi Íslands til London. Ég veit ekki enn hvort það var af því að ég er alltaf á síðustu stundu og vélin var orðin full að ég fékk sæti fremst hægra megin við ganginn, við hliðina á Roberti Plant (Jimmy Page v/gluggann), eða hvort það var af því að vinkona mín Olga Clausen var flugfreyja í ferðinni og kom þessu svo fyrir. En þeir voru algjörir séntilmenn og mjög gaman að hlusta á þá tala saman, þeir voru eins og vinkonur, flughræddir en afskaplega ánægðir með allan viðurgjörning sem þeir fengu hér og þeim fannst Trúbrot fín hljómsveit og fundust sérstaklega flautuleikur Gunna Þórðar góður. Það hvarflaði hins vegar ekki að mér að taka mynd af þeim þótt ég væri með myndavél, en ég fékk eiginhandaráritun á tónleikaplakatið hjá þeim öllum nema Bonham, hann var sofandi.

Hvað er framundan hjá Andreu Jóns?

Það sama, þáttagerð hjá Rás 2 og á Dillon. Plötusnýðsla er nefnilega ekkert annað en þáttagerð í beinni, nema hvað maður sleppir hljóðnemanum yfirleitt á Dillon.

 

 

Comments are closed.