Andinn kemur yfir mig þegar honum sýnist – Örvar Smárason á fleygiferð

0

Tónlistarmaðurinn Örvar Smárason hefur svo sannarlega komið víða við á löngum og viðburðarríkum ferli en platan hans Light is Liquid kemur út í vikunni. Örvar hóf sinn tónlistarferil á tölvu foreldra sinna, síðan tók gítarinn við og nýbylgjan varð aðal málið! Örvar er þó örugglega þekktastur fyrir að vera meðlimur í hljómsveitunum Múm og Fm Belfast en báðar sveitirnar eru gríðarlega vinsælar út um allan heim!

Albumm náði tali af Örvari og svaraði hann nokkrum spurningum um nýju plötuna, tónlistaráhugann og hvað er framundan svo sumt sé nefnt!


Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom það til?

Fyrstu tónlistina gerði ég á forritunarmálið BASIC á fyrstu heimilistölvuna sem foreldrar mínir áttu, en stuttu seinna fékk ég samt meiri áhuga á að æfa gítarsóló á rafmagnsgítar sem ég safnaði mér fyrir. Það var síðan eftir að ég náði að kaupa mér tölvu fyrir fermingarpeninginn að ég fór eitthvað að fikta við raftónlist aftur. Svo datt ég í nýbylgjuna þegar ég byrjaði í menntaskóla, en ég hélt áfram að gera tilraunir. Ég gaf út kasettu í MH með einhverju rugli, tilraunatónlist með allskonar skrýtnum sömplum og svo plötu með hljómsveitinni Andhéra. Þannig að þetta hefur alltaf komið í bylgjum hjá mér.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hvernig mundir þú lýsa nýju plötunni í þrem orðum?

Ég reyni svosum ekkert að sækja innblásturinn neitt, andinn kemur bara yfir mig þegar honum sýnist og ég get litla stjórn haft yfir því. Tónlistin á plötunni er auðvitað ólýsanleg, en ég ætla að velja orðin ljósnæm, rök og brakandi.

Þú hefur svo sannarlega komið víða við á tónlistarferlinum. Áttu þér uppáhalds lag sem þú hefur samið?

Það eru mörg lögin í gegnum árin sem hafa einhverja sérstaka þýðingu fyrir mig og þá kanski helst sum Múm lögin. Það eru alltaf einhver sem hafa órjúfanlega tengingu við einhver ákveðin tímabil, allavega í hausnum á mér. Lagið „Moon Pulls“ er mér alltaf ofarlega í huga því það kom á miklum breytingartímum í lífinu mínu. Svo er ég ennþá rosalega hrifinn af „Random Haiku Generator“ sem við Sin Fang og Sóley sömdum saman, það er einhver kraftur í því hvernig tónlistin, flutningurinn og textinn kemur saman í því.

Hvenær kemur platan út og er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Light is Liquid kemur út í þessari viku, ég held að nákvæm dagsetning sé 18.maí en ég verð í Kína á sama tíma svo að ég missi líklega af því. En platan er auðvitað löngu komin út úr kerfinu hjá mér og er búin að eignast sitt eigið líf, það er komið næstum hálft ár síðan ég kláraði lokavinnuna við hana. Þetta tók líklega töluvert meiri tíma allt saman en hefði þurft, ég var á kafi í alltof mörgum verkefnum í fyrra. Við Sin Fang og Sóley vorum með verkefni allt árið þar sem við sömdum og gáfum út nýtt lag í hverjum mánuði. Svo sömdum við Gunni í múm kvikmyndatónlist fyrir Svaninn og héldum áfram með Menschen am Sonntag verkefnið okkar sem var einmitt að koma út á 10” plötu núna í febrúar. Svo kom ný FM Belfast plata með tilheyrandi spilerí og rútulífi og konfettí. Þannig að þessi sólóplata þurfti oftar en ekki að mæta afgangi, en ég er ánægður að ég keyrði í gegnum þetta allt af fullum krafti.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi og er von á tónleikum á Íslandi?

Lögin sem að ég vann með Sin Fang og Sóley komu út á plötunni Team Dreams um síðustu áramót og við erum búin að vera að túra hana um evrópu og þegar við gerum það þá spilum við alltaf þrjú stutt sólósett í byrjun tónleikana og þá hef ég verið að taka lög af sólóplötunni. Það er í raun fullkominn vettvangur til að kynna þetta nýja efni, andrúmsloftið er afslappað og fókusinn ekki endilega akkúrat á mér. Eins og ég sagði fyrr áður, þá erum við að fara til Kína í næstu viku og tökum stuttan túr þar. Eftir það erum við svo með tónleika í Iðnó þann 1. júní og þar mun ég auðvitað taka lög af Light is Liquid, svo að þetta verða næstum því eins og útgáfutónleikar.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Eftir Kína túrinn og Iðnó tónleikana hægist eitthvað á tónleikaferðum, fyrir utan nokkra Múm tónleika í sumar og auðvitað einhver FM Belfast gigg hér og þar, þannig að ég er bara farinn að vinna að nýrri tónlist. Þetta var auðvitað frekar brjálað ár í fyrra og nú er ég bara svolítið kominn aftur á byrjunarreit. Svona sköpunarferli fer alltaf í hringi, nú er bara að sjá hvar ég stend þegar þokunni léttir.

Hægt er að forpanta plötuna á Bandcamp.

Instagram

Skrifaðu ummæli