“Amma er og verður alltaf minn söngfugl og verndari”.

0

Tónlistarkonan Sunna sendi nýverið frá sér sitt annað lag, „Amma“ ásamt 4 remixum en lagið spratt til lífsins eina andvaka nótt í Reykjavík þar sem Sunna deildi íbúð með vini sínum en Sunna bjó þar í stofunni þar sem glugginn snéri að umferðargötunni.

„Ljósin, rauð, gul, græn og stundum blá, endurvörpuðust frá götunni og á vegginn fyrir ofan mig. Það rigndi alla nóttina en rigningin var ekki þung heldur létt. Ég lá á dýnu á gólfinu og hugsaði til þess þegar amma sagði mér sögur úr æskunni þegar hún og systir hennar sváfu undir matarborðinu því íbúðin þeirra var svo lítil og ekki var pláss fyrir rúm. Þetta matarborð var núna inní herberginu mínu. Það var orðið 100 ára gamalt. Það átti sér sögu þó svo að það væri bara hlutur, það var lifandi, lifandi minning. Amma er og verður alltaf minn söngfugl og verndari” – Sunna.

Í laginu „Amma“ notast Sunna einungis við sína eigin rödd. Hún fékk í framhaldinu nokkra íslenska raftónlistarmenn til að endurgera lagið eftir eigin höfði. Mr. Silla, Sykur, Hermigervill og Good Moon Deer tóku öll þátt, hvert og eitt með sinn einstaka stíl.

Tónlistarmyndbandið við „Ömmu“ er eftir tónlistarkonuna sjálfa en hún sækir innblástur í upplifun sína af því að búa erlendis.

„Stöðugt streymi samfélagsmiðlanna lætur mér líða eins og ég eigi heima í tveimur löndum í einu. Það er ekki hægt að aftengjast heimalandinu að fullu.“ – Sunna

Íslenskt landslag og svissneska borgarlíð tvinnast saman sem tákn þessa átaka á meðan rödd Sunnu býr í hverju boxi sem birtist á skjánum eins og draugur. Litir, form og söngur tvinnast saman í hálfgerðri möntru sem fer með hlustandann í róandi ferðalag.

Tónlistarmyndbandið verður frumsýnt á Loft Hostel í Reykjavík þann 15. mars, degi áður en Sunna stígur á svið á tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík í Kaldalóni, Hörpu.

Ssuunnaa.com

Skrifaðu ummæli