Alvöru sumar BANGER í afmælisgjöf!

0

Tónlistarmaðurinn og partýboltinn Love Guru var að senda frá sér sannkallaðann sumar BANGER en liðin eru fimmtán ár frá því að hann steig fyrst fram á sjónarsviðið! Love Guru átti ófáa smellina en hver man ekki eftir lögum eins og „Partý útum allt” og „1,2 Selfoss” svo sumt sé nefnt. Nýja lagið ber heitið „Partýlestin” og að sögn kappans hefur það verið merkilega lengi í vinnslu. Lagið vann hann ásamt Our Psych og Karítas Hörpu.

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum léttum spurningum!  


Nýtt lag og allt að gerast! Er lagið búið að vera lengi í vinnslu?

Lagið hefur verið merkilega lengi í vinnslu, Our Psych (Ársæll Gabríel) gerði remix fyrir mig fyrir tveimur árum við sumarsmellinn Jackið og þá kom sú hugmynd upp að gera einhverntíman lag saman, þá aðallega í góðu gríni.

Þegar ég áttaði mig á 15 ára stórafmæli Gura þá datt okkur í hug að gera alvöru klúbba banger sem er svolítið heimavöllur Our Psych, eitthvað sem átti ekkert að fara hátt. Við vorum með ákveðnar hugmyndir og hann byrjaði að gera takta en strax heyrði maður að hann var svolítið í Love Scooter gírnum. Droppið í fyrstu útgáfu var svo helvíti fínt að við ákváðum að fara bara alla leið í orginal Gura.

Ég tók upp 5-6 mínútur af “sungnum” texta með öllum þessum shout-um og rugli, bara freestyle og svo átti hann bara að nota það sem hann vildi. Gekk ekki sem skildi. Sem er kannski vesenið við að gera lag bara í gegnum feisbúkk. Þetta var fyrir svona hálfu ári. Síðan fóru báðir aðilar erlendis og ekkert gerðist í um 2 mánuði eða svo. Síðan var ákveðið að keyra þetta í gang í apríl, mánuðurinn sem lagið átti að koma út, ég fékk Karítas Hörpu (The Voice) til að syngja “Strympuna” (það var líka bara freestyle, hún hafði enga tónlist eða beat til að syngja með) og lagið 90% tilbúið. EN þessi 10 % eru stundum ansi erfið.

Guru spilaði að venju á Kótellettunni á Selfossi þar sem ég lofaði nýju lagi og gerðum við allt til þess að klára playbakk fyrir gigg, 10. Júní minnir mig. Playbakkið kom síðan um 15 mínútum fyrir gigg og er óhætt að segja að performansinn hafi ekki verið upp á marga fiska enda kunni Guri varla lagið enn…. Krádið elskaði þetta eins og sjá má í myndbandinu við lagið, tekið upp á síminn minn (metnaður). Þá var ákveðið að keyra þetta í gang og einum og hálfum mánuði síðar var búið að klára þessi 10% og lagið komst út. Glæsileg frammistaða, lengi í vinnslu? Já 6 mánuði!

Þú hefur tekið þér talsvert langa pásu, er von á meira efni frá Love Guru?

Þessi sorgarsaga hér fyrir ofan með „partýlestina” er bara piss við hliðina á hinu laginu sem átti að koma út í sumar, það samdi ég fyrir ca. 5 árum og átti að vera sumargrín fyrir útvarpsþáttinn Hanastél sem ég stjórnaði með Sölku Sól. Nú 5 árum síðar er það enn að velkjast um í kerfinu, þrír pródúserar, fjórar tölvur hrundu og allt sem mögulega gat klikkað í einu ferli hefur klikkað en þessi sumarsalsa átti að koma út í lok júní. Planið er að reyna að koma þessum bastarði út næsta sumar því þetta er öskrandi sumarlag sem virkar lítið á haustin og veturna. Þannig, jú það er vona á nýju efni frá Gura en hvort hann standi við það kemur í ljós í vor.

Á að henda í einhverja tónleika og eitthvað að lokum?

Guru kemur einstaka sinnum fram á ári þar sem Kótelettan er hápunkturinn en önnur gigg eru meira prívat. En til að mjólka þessi afmæli þá verður plata dýrsins, Partý Hetja, 15 ára gömul á næsta ári… er ekki í tísku að spila gamlar plötur í heild sinni, verður kannski erfitt að fá alla gestina á plötunni til að koma saman: Nylon, Kristín Ýr, Beta Rokk, Hreimur Heimis, Einar Ágúst, Tinna Marina, Þora Sif og margir fleiri.

Að lokum vil ég benda fólki á  fésbókarsíðu Gurans, Þar er hægt að lesa alla söguna og sjá öll myndböndin sem gerð hafa verið (og eru þau ansi mörg). Nú er hægt að niðurhala „Partýlestinni” sem er kostaboð því lagið fer ekki á Spotify eða á öðrum veitum, Guru gefur öðrum gjafir þegar hann á afmæli.

Skrifaðu ummæli