ALLT Á FULLU HJÁ THULE ÚTGÁFUNNI

0

Íslensk teknótónlist er á góðu skriði þessa daganna en þann 17. júlí komu út tvær glæsilegar íslenskar útgáfur á vegum Thule samsteypunnar. Annars vegar er um að ræða EP plötuna „Exiles“ með listamanninum Cold (Ísar Logi Arnarson) og hins vegar EP plötuna „W“ með Waage (Kristján Þór Waage).

Cold hefur haldið sig frá sviðsljósinu síðustu tuttugu árin – allt frá því að jaðarhittarinn „Strobelight Network“ sá dagsins ljós og var t.a.m. lokalag alræmdu Love Parade hátíðarinnar í Berlín. Frá þeim tíma hefur hann einbeitt sér að öðrum verkefnum, svo sem við útgáfu á tónlistartímaritinu Undirtónar. Tónlistarbakterían tímabundin lá í dvala, en síðustu misseri hefur hún rankað við sér á nýjan leik. Útkoman er afar sterk tólftomma, sem hefur vakið athygli plötusnúða um allan heim. Tónlistin er dansvæn, en hentar þó einnig til heimahlustunar. Útgáfan kemur út á AE Recordings, undirfyrirtæki Thule Records.

Waage er ungur og efnilegur Reykvískur tónlistarmaður sem er að stíga sín fyrstu skref. Platan ber þess þó ekki merki um að nýgræðing sé að ræða, því tónverk hans eru afar þroskuð og heilsteypt. Verk hans eru naumhyggjukennd og býður upp á stóran og áhugaverðan hljóðheim. „W“ er hans fyrsta útgáfa og kemur hún út hjá Thule Records.

Thule Records er elsta starfandi raftónlistarútgáfan á Íslandi og hefur verið iðinn við kolann undanfarið – og það er nóg af útgáfum væntanlegar handan við hornið.

Thulerecords.com

Skrifaðu ummæli