ALLSHERJAR DJÖFULGANGUR NÆR TÖKUM Á REYKJAVÍK

0

Ljósmynd: Hafsteinn Viðar Ársælsson.

Allsherjar djöfulgangur verður á Gauknum í kvöld þegar helstu Black Metal sveitir landsins koma saman! Sveitirnar sem koma fram eru: Mannveira, Dulvitund, Roht, Dauðyflin og Andavald. Herlegheitin byrja stundvíslega kl 21:00 og kostar litlar 1.000 kr inn.

Mannveira hófst sem hugarfóstur Illuga Þórs, sem hann lagði grunn að á meðan hann spilaði með hljómsveitinni Abacination. Þegar sú hljómsveit leið undir lok árið 2013 kom svo fyrsta smáskífa Mannveiru út Von Er Eitur sem gefin var út af Íslenska black metal útgáfufyrirtækinu Vánagandr. Smáskífan vakti þó nokkra athygli víðs vegar og í kjölfarið kom upp sú hugmynd að stofna fullskipað band til þess að geta bæði flutt efnið á sviði og þróað hugmyndina enn frekar. Um vorið 2015 var komið fullskipað band með meðlimum úr sveitum á borð við Naught og Nöðru.

Nú í lok sumars gaf Mannveira út sína aðra útgáfu hjá Bandaríska útgáfufyrirtækinu Dark Descent records, sem var split-útgáfa með Þýsku sveitinni Ellorsith. Síðastliðinn október lagði Mannveira svo land undir fót ásamt hljómsveitinni Wormlust á 11 tónleika túr um meginland Evrópu og spilaði við góðar undirtektir.Hugmyndafræði Mannveiru byggist að miklu leyti á tómhyggju, spekúleringum um dauðann og ótta við það sem liggur handar vitundar mannsins.

dulvitund

Dulvitund

Dulvitund er eins manns verkefni Þóris Óskars Björnssonar. Hann stofnaði hljómsveitina 2013 og spilar drungalega  og kalda  raftónlist. Í tónlist sinni fjallar hann um mannlegt eðli, þunglyndi og hinn kalda veruleika sem mætir okkur öllum. Dulvitund einblínir á lagauppbyggingu og er framkoma á tónleikum hrá og árásagjörn. Dulvitund gaf nýlega út plötuna Lífsins þungu spor hjá íslensku útgáfunni Hið Myrka Man og EP plötuna Huldar Slóðir hjá portúgölsku útgáfunni Dissociated Records. Um þessar mundir vinnur hann að plötu í fullri lengd sem koma mun út hjá síðarnefndri útgáfu.

roht

Roht

ROHT varð til í byrjun árs 2016 í kulda og skammdegi sem endurspeglast í tónlist sveitarinnar. Á ferðinni er blanda af hávaðarokki og hardcore pönki með anarkískum undirtóni. Á næstu mánuðum er von á 7” plötu sem gefin er út af Iron Lung í Bandaríkjunum.

daudyflin

Dauðyflin

Dauðyflin hafa spilað saman síðan haustið 2015. Þau spila hrátt hardcore pönk sem hægt er að dansa við. Þrír af fjórum meðlimum í sveitinni eru einnig í hljómsveitinni Börn sem getið hefur sér góðs orðs á undanförnum árum. Hljómsveitin er femínísk og lætur sig dreyma um að kveikja í feðraveldinu.

Dauðyflin gáfu út EP plötu fyrr á árinu sem þau fylgdu eftir með tónleikaferð um Evrópu og eru að leggja loka hönd á sína fyrstu plötu í fullri lengd sem kemur út á Iron Lung útgáfunni í Bandaríkjunum.

andavald

Andavald

Andavald á sér bæði langan og strangan aðdraganda og er ekki endilega hljómsveit, öllu heldur er verkefnið samansafn afvegaleiddra einstaklinga eða öllu heldur ógæfumanna með svipaðar “væntingar” og skoðanir á hinu mannlega ástandi.

Andavald snýst fyrst og fremst um tilfinninguna og hina díónýsísku orku sem nær tökum á manninnum þegar hann er undir áhrifum og þegar hann hleypir hinu dýrslega eðli í gegnum rökhyggjuna. „Við erum eitraðir hugar tjóðraðir við eitraða líkama, nauðbeygðir og undirgefnir þjónum við hinum eina sanna drottnara þessa heims í blindni.“ THE NARKOKVLT IS ALIVE!

Skrifaðu ummæli