ALDARAFMÆLI THELONIUS MONK VERÐUR FAGNAÐ MEÐ POMPI OG PRAKT Í MENGI

0

Aldarafmæli Thelonius Monk verður fagnað með pompi og prakt í Mengi í kvöld sunnudagskvöldið 12. nóvember þegar ASA-tríóið, skipað þeim Andrési Þór Gunnlaugssyni á gítar, Agnari Má Magnússyni á orgel og Scott McLemore á trommur, heldur tónleika til heiðurs hinum frábæra meistara.

Monk hefur fylgt ASA-tríóinu frá upphafi, fyrstu tónleikar ASA-tríósins fóru fram á Djasshátíð í Reykjavík árið 2005 og þá var smellurinn Bemsha Swing (Different Corners, 1956) eftir Monk einn af hápunktum kvöldsins. Nokkrum árum síðar sendi ASA-tríóið frá sér plötuna ‘Plays the Music of Thelonius Monk’ sem hljóðrituð hafði verið í Ríkisútvarpinu fyrir tilstilli Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, djassmunks með meiru. Tríóið hefur á ferlinum flutt tónlist eftir tónskáld á borð við John Coltrane, Wayne Shorter, Tony Williams, Fiona Apple, Jimi Hendrix, Bud Powell, Red Hot Chili Peppers og Ray Charles svo fátt eitt sé nefnt en í tilefni 100 ára afmælis Monk (f. 10. október 1917 – d. 17. febrúar 1982) er það músíkin hans sem hljómar í Mengi á sunnudagskvöldið.

Thelonius Monk er einn áhrifamesti tónlistarmaður 20. aldarinnar, einn af helstu forsprökkum bíboppsins og einstakur píanóleikari. Hvort tveggja tónsmíðar hans og píanóleikur einkennast af sérstæðri og frumlegri tilfinningu fyrir tímasetningu, fraseringum og óvæntum hljómagangi og sem píanóleikari á hann sér engan sinn líka. Hann er höfundur ótal smella á borð við ‘Round Midnight’, ‘Blue Monk’, ‘Straight, No Chaser’ ,’Ruby, My Dear’, ‘In Walked Bud, og ‘Well, You Needn’t.’. Sviðsframkoma Monk var svo kapítuli út af fyrir sig, einatt með frumlegt höfuðfat á höfði og þegar hæst lét stóð hann gjarnan upp frá píanóinu og tók að dansa. Monk er einn af fimm djasstónlistarmönnum sögunnar sem hafa prýtt forsíðu Times-timaritsins, aðrir eru djasskallarnir Louis Armstron, Duke Ellington, Dave Brubeck og Wynton Marsalis.

Skrifaðu ummæli