ALBUMM.IS FRUMSÝNIR NÝTT MYNDBAND MEÐ PRINS PÓLÓ

0

PRINS PÓLÓ aa 2

Prins Póló er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins en hann sendi frá sér lagið „Sandalar“ á dögunum. Í dag frumsýnir Albumm.is glænýtt myndband við umrætt lag  en myndbandið er einkar skemmtilegt eins og allt sem prinsinn kemur nálægt!

Prins Póló svarði nokkrum spurningum fyrir Albumm.is og sagði hann okkur frá laginu, myndbandinu og hvað er á döfinni.

Um hvað er lagið og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Lagið fjallar um dæmigerðu erkitýpu af karlmanni sem lifir fyrir fótbolta. En hann hefur samt ekkert gaman af fótbolta, hann er bara að leita að afsökun til að hanga með félögunum og drekka bjór. Fyrir það fer hann að sjálfsögðu til helvítis en þegar þangað er komið reyna félagarnir að biðja skrattann um vægð. Við Flex tókum lagið upp í apríl í fyrra. En svo lá það í skúffu þar til ég fór að gaufa við að búa til texta við það.

Þetta er ögn öðruvísi lag en fólk á að venjast frá þér, er þetta eitthvað sem koma skal?

Já þetta er frekar erfitt lag og kannski meira í ætt við fyrstu lög Prinsins. Ég veit svosem ekkert hvað gerist næst. En það verður örugglega eitthvað mjög frábrugðið þessu lagi.

PRINS PÓLÓ aa

Ertu að vinna í plötu og ef svo er hvernig gengur og hvenær er von á henni?

Já nú er ég byrjaður á nýrri plötu. Ætla að gefa hana út í maí á næsta ári. Mér finnst samt best að hugsa plötuna í lögum því um leið og ég hugsa um plötuna sem heild, þá fallast mér hendur og ég fer að gera eitthvað annað. En ég ætla að gefa lögin út eitt af öðru, til að halda Prinsinum við efnið.

Myndbandið er virkilega skemmtilegt hvernig kom sú hugmynd upp?

Við Berglind hittum Frank og Jo hjá Orange ‘Ear í Berlín á dögunum og borðuðum með þeim kvöldverð. Meðan við biðum eftir matnum ákváðum við að hittast daginn eftir og gera myndband. Þau eru með lítið myndver heima hjá sér og þangað mættum við um morguninn og byrjuðum að taka upp. Það var sunnudagur og allar föndurbúðir og búningaleigur lokaðar þannig að eina propsið sem við áttum var pappakassi, hárkolla og lak. En við vorum með reykvél og þá er allt hægt.

Er prinsinn ekki í stuði og hvað er á döfinni hjá honum?

Prinsinn er í feiknastuði. Ætla að hitta Flex í næstu viku og taka upp eitthvað meira. Fara svo til Ítalíu og semja fleiri lög og finna einhverja hressa til að gera fleiri myndbönd. Spila á Eistnaflugi í sumar og vera eftir atvikum hress.

Comments are closed.