ALBUMM.IS FRUMSÝNIR GLÆNÝTT MYNDBAND MEÐ PÁLI ÓSKARI

0

palli-3-j

Í dag frumsýnir Albumm.is glænýtt myndband með poppkónginum Páli Óskari við lagið „Þá mætir þú til mín.“ Myndbandið er einkar glæsilegt en þar má sjá glansandi einhyrninga, framúrskarandi dansatriði og teikningar eftir Pál Óskar svo fátt sé nefnt.

Lagið smellpassar myndbandinu og ætti það að fá hvert mannsbarn til að hrista á sér kroppinn! Albumm.is tók stutt en skemmtilegt viðtal við Pál Óskar og sagði hann okkur frá hugmyndinni á bakvið myndbandið, þegar laginu var hækkað um heiltón og teiknihæfileikum sínum svo fátt sé nefnt.

Er myndbandið búið að vera lengi í vinnslu?

Já, þetta myndband er búið að vera rúman mánuð í vinnslu. Það var alveg þess virði. Við erum líka öll svo gríðarlega upptekin við aðra vinnu. Ég er stöðugt að troða upp, Jonathan er að meika það feitt sem uppistandari og Ólöf Erla nýbyrjuð að vinna í grafískri hönnun hjá Nova. Svo eins mikið og við elskum hvort annað og gætum hangið saman allan sólarhringinn þá urðum við hreinlega að vinna þetta myndband milli þilja.  Stundum þarf maður að klambra saman klukkutímunum til að finna tíma til að sinna sköpunarferlinu.  En við náðum að klára þetta á þolinmæðinni og við erum mjög sátt með útkomuna. Þau skötuhjúin gerðu líka myndbandið við lagið „Gegnum dimman dal,“ sem er bæði lag og myndband sem mér þykir alveg gríðarlega vænt um.

„Það vaknar í mér lítill púki þegar ég hitti Jono, mér vaxa horn og hali og það er í raun pælingin á bak við myndbandið.“

hver er hugmyndin á bakvið það?

Við erum mjög góð í að hlusta á hvert annað og lána hvort öðru dómgreind. Milli þess sem við drepum hvort annað úr hlátri.  Það vaknar í mér lítill púki þegar ég hitti Jono, mér vaxa horn og hali og það er í raun pælingin á bak við myndbandið.  Lagið sjálft er í raun eins og einkamálaauglýsing á stefnumótasíðu.  Algert „booty call,“ sem maður auðvitað þarf að gera þegar náttúran kallar.  Þá er bara vonandi að einhver svari.

Er þetta myndband eitthvað frábrugðið fyrri myndböndum?

Ég er loksins að koma út úr skápnum sem teiknari. Ég teiknaði alveg gríðarlega mikið sem barn og unglingur og hætti því skyndilega um leið og Rocky Horror var frumsýnt í MH.  Eftir það stökk ég um borð í poppara hringekjuna sem snerist bara hraðar og hraðar eftir því sem árin liðu, og ég fékk aldrei ró og næði til að setjast niður og teikna – eins og ég hef nú gaman af því.  Ég hafði gott af því að teikna sílúettu myndirnar sem birtast hér og þar í vídeóinu, og ég veit að ég þarf að gera meira af því, því þetta virkar á mig eins og hugleiðsla.  Svo er ég svo feginn að elsku einhyrninga dansararnir eru með í þessu myndbandi núna.  Elska líka að ég fékk að skjóta það inni á fallegasta klúbbi Reykjavíkur, Nasa við Austurvöll, sem er gríðarlega mikið tilfinningamál fyrir mig. Auk þess sem það er bara svo hrikalega gott að vinna með Jono og Ólöf Erlu. Við eigum eftir að vinna meira saman, trúðu mér. Ég held við séum bara rétt að hita okkur upp fyrir eitthvað annað og meira.

„Orkan í laginu varð öll miklu réttari og betri og þetta kenndi mér það að lög geta breyst eins og lífverur milli tóntegunda.“

Lagið hefur fengið talsverða umbreytingu og hljómar nú mun kraftmeira, hver var ástæðan fyrir því?

Ég, Bjarki og Kobbi unnum fyrstu útgáfuna af laginu rétt áður en ég tróð upp á Eistnaflugi. Ég frumflutti lagið þar fyrir þungarokkarana. Trausti Haraldsson sem semur lagið á mörg gullkorn sem ég hef sungið eins og t.d. „Bundinn fastur,“ „La Dolce Vita,“ „Minn hinsti dans,“ „Er þetta ást“ og „Gegnum dimman dal.“  Ég fann strax að þetta nýja lag eftir hann gæti mjakað sér inn í miðtaugakerfið á manni. Þótt það tæki jafnvel smá tíma, þá gæti það orðið „sleeper hittari.“  Svo skrapp ég til Kaliforníu í sumarfrí og þar fékk ég bullandi efasemdir um hvort tóntegundin sem ég tók lagið upp í hafi verið rétt. Um leið og ég kom heim rauk ég aftur í stúdío með Dusk strákunum, lagið var hækkað um heiltón og hey prestó – réttur andi lagsins stökk fram. Orkan í laginu varð öll miklu réttari og betri og þetta kenndi mér það að lög geta breyst eins og lífverur milli tóntegunda.

Ertu ekki himinlifandi með útkomuna?

Ég er á bleiku skýji núna, bæði með lagið og myndbandið!

http://www.palloskar.is/

Lag: Trausti Haraldsson

Texti: Páll Óskar)

Upptökustjórn: Jakob Reynir Jakobsson / Bjarki Hallbergsson / Páll Óskar

 

Myndband:

Leikstjórn, kvikmyndataka, grafísk hönnun og klipping: Jonathan Duffy & Ólöf Erla

Aðstoð við upptökur: Orhan Kuresevic & Bjarki Hallbergsson

Dansarar: Javier Valino & Jón Eyþór Gottskálksson

Grímur: Bjarki Hallbergsson & Karún Guðmundsdóttir

Búningar: Coco Viktorsson

Teikningar: Páll Óskar

Framleiðandi: Páll Óskar

Myndbandið var tekið upp inni á Nasa við Austurvöll í ágúst 2016.

Comments are closed.