ALBUMM EXCLUSIVE DJ MIX / ÞORGERÐUR JÓHANNA

0

togga 2

Plötusnúðurinn Þorgerður Jóhanna skellti í eitt brakandi heitt Albumm Exclusive Dj Mix. Þorgerður notast eingöngu við Vínyl plötur í mixinu sem er einkar skemmtilegt og gefur flæðinu góðan karakter. Mixið byrjar rólega en sækir svo í sig veðrið þegar á líður. House tónlist er allsráðandi í þetta sinn og óhætt er að segja að margir eigi eftir að dilla sér inn í helgina með þessum frábæru tónum. Þorgerður svaraði nokkrum spurningum um t.d. mixið, Dj áhugann og hvernig græjur hún notar.


Hvenær byrjaði þinn áhugi á að plötusnúðast og hvernig kom sá áhugi til?

Áhuginn kviknaði í kringum 2011/2012 eftir tíðar komur á Kaffibarinn. Þá byrjaði ég smám saman að safna lögum og fékk hvatningu frá vinum til að byrja að spila, en það var samt ekki fyrr en haustið 2014 sem ég byrjaði að læra að spila á plötuspilara. Kærastinn minn er líka DJ og hann spilar bara vínyl svo hann er búinn að taka mig í stranga einkaþjálfun á plötuspilarana. Sumarið 2015 spilaði ég svo í fyrsta skipti fyrir almenning á skemmtistað úti í Osló.

Hvernig tónlist spilar þú og hvaðan færðu innblástur og áttu þér einhverja uppáhalds plötusnúða?

Ég spila mjög mikið tech-house, groove house, dub, minimal og smá teknó. Svo sakar ekki ef lögin hafa einhverja dularfulla, kynþokkafulla eða skemmtilega melódíu. Innblásturinn í mixin mín og gigg almennt sæki ég alls staðar frá ég hlusta rosa mikið á allskonar tónlist og er með klassískan píanóbakgrunn, og reyni að leggja áherslu á fjölbreytni þegar ég spila. Og já ég á mér alveg nokkra uppáhalds plötusnúða. Efst á blaði er Sonja Moonear sem ég sá spila í fyrra á Jaeger í Osló hún er idolið mitt. Svo er ég mjög hrifin af Raresh, Mackim & Levi Verspeek, Barac og iO (mulen). Ég leita líka oft að plötum eftir þá þegar ég grúska eftir nýjum vínylplötum. Tek það hinsvegar fram að listinn er alls ekki tæmandi.

togga

Hvernig græjur notar þú þegar þú spilar og hvað er drauma uppsetningin?

Ég nota Technics 1210 plötuspilara hérna heima og spila alltaf vínyl ef ég á lagið á plötu. Ég er enn að koma mér upp plötusafni svo af og til nota ég serato til að spila einhver af lögunum stafrænt. Drauma uppsetningin myndi klárlega vera plötuspilarar, góðir monitorar og gæða hljóðkerfi (sakar ekki ef það er funktion One hljóðkerfi).

Hvað er það sem gerir gott Dj gigg og hvað er eftirminnilegasta giggið?

Að mínu mati er það sem gerir gott dj gigg einfaldlega góð tónlist, góð orka, gott crowd og gott hljóð. Ef DJ-inn er greinilega að njóta þess sem hann/hún er að gera og kannski brosir eða glottir út í annað þá er svo miklu léttara að njóta tónlistarinnar. Það sem gerir gott dj gigg er líka að ná að byggja upp spennu og eftirvæntingu hjá crowdinu og fylgja því svo eftir með lögum sem er óhjákvæmilegt að dansa við. Bassinn verður líka að fá að heyrast. Eftirminnilegasta giggið var næstum nákvæmlega eins og það sem ég var að lýsa – ég og A:G spiluðum b2b á Påfuglen síðasta haust og tókum lokasett kvöldsins og stemningin var bara fáránleg. Svo var líka rosalega gaman og eftirminnilegt að spila í fyrsta skipti á Íslandi á Kaffibarnum núna í janúar.

Hvað getur þú sagt mér um Albumm mixið og hvað er framundan hjá þér?

Albumm mixið er í svolítið afslappaðri kantinum – kannski aðeins meira chill en djamm. Passar kannski ágætlega í vinnuna fyrir suma. Það byrjar allavega frekar afslappað og fer svo yfir í grooves sem ég fíla sjálf mjög mikið og þaðan í takta sem eru aðeins meira banging. Ein af plötunum sem ég notaði í mixið er bleik og var gjöf frá Vinny Villbass, fyrsta bleika platan mín og inniheldur mjög nice Tuff City Kids remix. Svo lýkur því með rómönsku remixi með góðu flæði. Það sem er svo framundan er að taka upp nýtt mix fyrir norskt podcast og spila á the Villa núna 26. febrúar, sem var víst ásamt Kaffibarnum kosinn einn af topp tuttugu og fimm skemmtistöðum Evrópu af the Guardian fyrir ekki svo löngu. Get alveg hiklaust sagt að ég hlakka fáránlega mikið til að spila mitt stærsta gigg til dagsins í dag eftir tvær vikur.

Comments are closed.