ALBUMM EXCLUSIVE DJ MIX / ÁSKELL

0

askell albummz

Áskell Harðarson hefur verið einn heitasti Dj okkar Íslendinga í þónokkurn tíma en margir kannast eflaust við hann undir nafninu „Houskell“ og tengingu hanns við Dj krúið Borg. Kappinn gengur eingöngu undir nafninu Áskell í dag og gerir hann út frá Hollandi. Áskell flutti til Rotterdam fyrir ekki svo löngu en þar er hann búinn að spila á mörgum af helstu skemmtistöðum borgarinnar, kemur reglulega fram á útvarpsstöðinni Red Light Radio í Amsterdam þannig það má segja að Áskell sé kominn í innsta hring plötusnúðanna þar ytra. Áskell er mikill meistari og skellti hann í Exclusive Albumm.is Dj Mix eins og honum einum er lagið. Einnig svaraði Áskell nokkrum spurningum. Lesið, hlustið og dillið ykkur gott fólk!


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á að plötusnúðast og hvað var það sem heillaði þig við það?

Ég ólst upp á miklu tónlistarheimili. Báðir foreldrar mínir eru starfandi tónlistarfólk í klassíska tónlistarheiminum og hef ég verið umvafinn tónlist alla tíð. Ég lærði á píanó mjög ungur og var stöðugt að grúska í tónlist frá því að ég man eftir mér. Á heimilinu var samt mest spiluð klassísk tónlist svo aðgengi mitt að fjölbreyttari tónlistarstefnum var mjög takmarkað. Blessunarlega á ég þó tvær stórar systur sem voru duglegar að spila fyrir mig hip-hop og rave í kjallaranum heima. Svo um tíu ára aldurinn var ég byrjaður að hlusta mikið á rapp og á ég minningu af því að hafa alltaf þótt þessir plötusnúðar sem voru bak við rapparana vera mjög áhugaverðir karakterar. Ég rústaði heimaplötuspilaranum að æfa mig að “scratcha” en gerði ekkert meira við þetta þá. Svo kynntist ég meiri og meiri raftónlist á menntaskólaárunum og langaði alltaf að gera meira úr því. Það var svo þegar ég var 19 ára að Unnsteinn Manuel vinur minn henti mér rakleiðis í djúpu laugina og bókaði mig á Karamba skemmtistaðnum. Þá var ekki aftur snúið.

askell 2

Hvernig tónlist spilar þú?

Þegar ég var að byrja að DJ-a spilaði ég allt frá funki og soul upp í dubstep og alla þá tónlist sem fyrirfinnst þar á milli. En ég uppgötvaði Hústónlist í gegnum vinkonu mína hana Natalie „Yamaho” þegar við vorum að læra saman raftónlist í Tónlistarskóla Kópavogs. Hún virkilega opnaði eyrun mín fyrir House-i og kom mér á sporið, sýndi mér helstu áhrifavaldana frá Detroit og Chicago og ég varð alveg húkked! Svo árið 2011 byrjaði ég að halda kvöld á Faktorý undir nafninu Housekell. Það batterí vatt mjög hratt upp á sig og ég var kominn með gigg á Kaffibarnum seinna það ár, sem var virkilega stórt skref fyrir mig. Síðan þá hef ég grúskað dýpra og dýpra í allskonar dans og raftónlist en spila mest House. Það er samt mjög stórt orð því Hús-senan er svo ótrúlega fjölbreytt. Hérna úti hef ég svo kynnst meira og meira Teknói auk þess sem acid soundið er mjög vinsælt í Hollandi og það hefur haft mikil áhrif á mig. Þess vegna hef ég ákveðið að leggja Housekels nafnið niður og fara ganga undir mínu eigin nafni, Áskell. Smekkurinn minn er alltaf að þróast og góð tónlist er góð tónlist, sama hvaða stefnu hún tilheyrir.

Nú ert þú fluttur til Rotterdam hvað ertu að gera þar og hvernig er Dj senan þar?

Ég bý núna tímabundið í Rotterdam þar sem ég er í starfsnámi hjá útgáfufyrirtæki og bókunarskrifstofu sem heitir Triphouse Rotterdam. Ég tók það skref til að ná mér í aukna reynslu, kynnast stærri senu og komast í nýtt tengslanet. Ég rek label sem heitir BORG með góðum vinum mínum á Íslandi og það hefur hjálpað okkur að komast á kortið erlendis sem plötusnúðar. Þetta var í rauninni rökrétt framhald af því sem ég hef verið að vinna að heima og hefur verið ótrúlegt ævintýri. Í Hollandi er mjög stór danstónlistarsena og í Rotterdam er mikið að gerast sem er mjög “underground”. Hérna er ein besta plötubúð í heiminum, Clone Records, þar sem ég hef eytt miklum tíma (og peningum). Það eru mikil forréttindi að geta grúskað í tónlist allan daginn, alla daga, með frábæru fólki sem gerir það sama. Í sumar var ég á festivölum allar helgar, bæði að spila og að hlusta á aðra, og sá ég marga af stærstu plötusnúðum í heimi koma fram. Allar helgar hefur maður síðan val milli mismunandi klúbba og tónleikastaða þar sem stór nöfn eru að spila. Í október ár hvert er haldinn stærsti danstónlistarviðburður í heiminum, Amsterdam Dance Event, og var ég svo heppinn að fá að spila þar með Ómari E., samstarfsfélaga mínum í BORG. Þess á milli hittum við fólk úr senunni og heyrðum frábæra tónlist á hverju einasta horni í Amsterdam. Það hefur mjög góð áhrif á vaxandi tónlistarmann. Ég er rosalega þakklátur fyrir þennan tíma hér í Hollandi og gaman að kynnast nýju fólki og takast á við nýjar áskoranir.

askell

Hvernig græjur notar þú þegar þú spilar?

Ég er fárveikur af vínylbakteríunni svo ég vil helst bara spila vínyl. Sjálfur á ég rosalega gott par af SL-1210 M5G og tvo mixera sem ég skiptist á að notast við. En senan á Íslandi hefur þann galla miðað við í stærri senum að þar er ekki gengið að því að skemmtistaðir hafi allan þann búnað sem plötusnúðar þurfa að nota. Svo það kallar á mikið rót að vera ferðast með tvo plötuspilara, mixer og risastóra plötutösku allar helgar. Í komandi framtíð vona ég að allir staðir verði jafn vel búnir og Kaffibarinn, þar sem maður gengur að tveimur CDJ-um, mixer og plötuspilurum. Það gerir starf plötusnúðarins mikið auðveldara.

Hvað er framundan hjá þér?

Núna í lok nóvember er ég að fara spila í Slóvakíu, en fyrr í haust skrifaði ég undir samning við Hollensku bókunarskrifstofuna Masenqo sem skapar aukin tækifæri fyrir mig  í Evrópu. Í desember ætla ég að taka mér mánaðarfrí og ferðast um Indónesíu og Kambódíu með kærustunni minni. Í janúar sný ég aftur heim til Íslands og ætla að hella mér á kaf í vinnu, bæði sem plötusnúður og producer. Ég stefni á að klára nokkrar smáskífur sem ég er búinn að vera vinna að hér úti og svo er BORG með mörg járn í eldinum. Árið 2016 lýtur bara virkilega vel út!

Lagalistinn:

1. Kindimmer – Reminisce

2. Hooved ‎– Black Lodge – A1

3. YSE – Pace Set By Others

4. Dan Beaumont – The Bath House (Mr Tophat & Art Alfie Remix)

5. DJ Octopus – Hangover

6. Borrowed Identity feat. Mechanical Soul – The Scene

7. Quarion – Burnin’

8. Trikk ‎– Midnight Sequence

9. Sagats & Madì Grein – Murales

10. Martyn – Shook Up

11. Steve Murphy & Dj Octopus – Rudolf’s Lesson

12. Jonas Friedlich – Hapenis

13. Opinion, Borrowed Identity – Vergin

14. FJAAK ‎– Rush

15. Jacob Korn, San Soda – The Music

Áskell Exclusive Albumm.is Dj Mix by Albummis on Mixcloud

Comments are closed.