AK EXTREME VERÐUR STÆRRA OG BETRA MEÐ ÁRUNUM

0

Snjóbrettahátíðin Ak Extreme fer fram á Akureyri um komandi helgi og óhætt er að segja að spennan er gríðarleg! Hátíðin í fyrra tóks með eindæmum vel og glæsilegri snjóbrettahátíð hefur ekki sést á klakanum! Hátíðin í ár verður með sama sniði og í fyrra en bara betri og stærri!

Ak Extreme er ekki einungis snjóbrettahátíð heldur er einnig þétt tónleikadagskrá á boðstólnum! Sturla Atlas, Gísli Pálmi, Aron Can og Emmsjé Gauti er brot af því sem kemur fram á hátíðinni í ár og má svo sannarlega búast við þéttri stemmingu!

Albumm.is náði tali af Emmsjé Gauta sem er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um AK Extreme 2017.


Hvenær var Ak Extreme fyrst haldið og hvernig kviknaði sú hugmynd?

Það var árið 2002. Hugmyndin var sú að halda kveðjuveislu fyrir veturinn sem var fyrst hugsað fyrir snjóbrettafólk en það kviknaði strax upp áhugi hjá almenningi og þá var slegið til veislu og fyrsta gámastökkið varð að veruleika í gilinu.

Skipuleggjendur AK Extreme .

Hefur hátíðin eitthvað breyst í gegnum árin?

Hátíðin hefur vissulega breyst helling í gegnum árin. Áhugi fólks hefur aukist á keppnina og stækkar hún með hverju ári sem líður. Í upphafi var einungis snjóbrettafólk að keppa en núna hefur skíða og sleðafólk bæst í hópinn. Partýin hafa stækkað verulega og við þurftum að færa tónleikahlutann af Græna hattinum yfir í Sjallann vegna mikillar aðsóknar. Við erum þó með Græna hattinn samhliða Sjallanum í ár því á síðasta ári sprakk Sjallinn meira að segja utan af okkur. Á síðasta ári hófum við svo samstarf við Stöð 2 sport sem setti hátíðina á nýjan stall.

Ak Extreme kom, sá og sigraði í fyrra. Verður hátíðin með svipuðu sniði í ár?

Hátíðin verður haldin með sama sniði en hún er þó alltaf að stækka og verða flottari með hverju árinu sem líður.

Við hverju má fólk búast í ár?

Fólk má búast við því að skemmta sér frábærlega bæði í Sjallanum og á Græna hattinum enda erum við með gjörsamlega sturlað line-up sem hentar breiðum aðdáendahópi.

Lofið þið ekki góðu stuði og verður ekki allt tryllt!?

Við lofum!

Eitthvað að lokum?

Við lofum lofum!

http://www.akx.is

Skrifaðu ummæli