ÁGÚSTA EVA ERLENDSDÓTTIR

0
ágústa 4

Ljósmynd: Saga Sig

Söng og leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir þarf ekki að kynna fyrir landsmönnum en hún gerði allt brjálað sem Sylvía Nótt. Ágústa hefur gert ótrúlega margt bæði í tónlist og leiklist og óhætt er að segja að hér er mikil hæfileikakona á ferðinni. Albumm.is náði tala af Ágústu og sagði hún okkur frá fyrsta hlutverkinu, Sylvíu nótt ævintýrinu og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.

Hvenær byrjaði þinn tónlistar og leiklistaráhugi og hvar fékkstu þitt fyrsta hlutverk eða gigg?

Áhuginn byrjaði mjög snemma, ég man eftir mér uppi á stofuborði að dansa ballet og syngja, þá var ég mjög lítil, þriggja til fjögurra ára. Síðan þá á ég fjölmargar minningar, ég syngjandi allstaðar og þegar systkini mín fengu nóg af mér þá fór ég inn í fataskáp til að syngja. Ég söng fyrst fyrir fjölmenni þegar ég var sex ára, á jólaskemmtun í Hveragerðiskirkju. Þá var ég María Mey og söng „Sofðu Sonur Kæri“ með hvítt lak á hausnum og Jesúdúkku í fanginu. Epískt fyrsta hlutverk!

Ætlaðir þú alltaf að feta þessa braut í lífinu eða var planið að gera eitthvað allt annað?

Ég hef aldrei haft nein plön, bara áhuga á ýmsu. Myndlist og tónlist var í brennidepli, allt svona skapandi og fljótandi. Ég er frekar fljótandi karakter og fer með flæðinu og ástríðunum, ég endaði bara hérna, ekkert sem ég tók ákvörðun um að gera.

ágústa 3

Ljósmynd: Valli

Nú fylgdist öll þjóðin með þér sem Sylvíu Nótt hvernig var að leika það hlutverk, bjóstu við að þetta ævintýri færi svona langt og tók ekki á að leika þetta hlutverk?

Það kom á óvart hversu margir fylgdust með því, við Gaukur vorum aðallega að gera þetta af því að okkur langaði til þess, að gera eitthvað klikkað, skemmtilegt og ögrandi og þá á ég við fyrir okkur sjálf það sem okkur fannst fyndið og skemmtilegt. Öll athyglin og velgengnin var svaðalegur bónus sem við höfðum aldrei getað látið okkur dreyma um.

Eurovision ævintýrið vakti mjög mikla athygli um alla Evrópu, hvernig leið þér nokkrum dögum eftir keppnina og hugsaðir þú aldrei, úbbs þetta var of mikið?

Haha, já það var vissulega sprenging. Silvíu-karakterinn fór bara með okkur á þessa staði, eina sem við gerðum var að vera sannarlega samkvæm því sem hún myndi gera og létum hana algerlega ráða ferðinni. Vissulega var það „of mikið“ en það hafði allt sínar ástæður og meiningar. En já, okkur leið akkúrat þannig, eins og eftir sprengingu! Við vorum algerlega búin á því og lágum og sváfum á Grískri strönd straight í tvær vikur, algerlega „flat-línuð.“ Við vorum ekkert á bömmer en vissulega eftir okkur og brostum bara út í annað, alveg ánægð með okkur.

ágústa 1

Ljósmynd: Börkur Sigþórsson – Ágústa Eva í hlutverki Silvíu Nótt.

Nú ert þú að leika Línu Langsokk hvernig finnst þér að leika hana og áttu mikið sameiginlegt með Karakternum?

Mér finnst bæði styrkjandi og frelsandi að fá að ljá Línu allt sem ég get, líkama og rödd, hún er frábær karakter sem er mörgum mikil fyrirmynd. Hún er einn sterkasti kvenkarakter sem skapaður hefur verið og því er heiðurinn mikill fyrir mig. Gaman að fá að vera barnastjarna á „réttum“ forsendum, því að Lína er alveg með þetta, annað en Silvía Nótt sem var algerlega ekki með þetta. (hlátur)

Maður getur alltaf fundið samsvaranir í flestum karakterum sem maður leikur og hvað varðar Línu á ég margar sterkar tengingar. Augljóslega erum við báðar rauðhærðar með freknur, ætli ég hafi ekki rétt náð í skottið á fordómum samfélagsins hvað varðar rauðhærða og ég var svona mjúklega meðvituð um að ég væri ekki alveg fyrsta flokks þegar ég var barn, en sem betur fer háði mér ekki. Ég fór t.d. bara einu sinni í leikhús þegar ég var barn og sat ekki á peningakistu, þannig að þá er sú samsvörun úr myndinni. Ég las ekki mikið (frekar en Lína) og þess vegna hugsa ég að ég hafi ekki verið mjög meðvituð um Línu Langsokk þegar ég var barn, ég þekkti ekki sögurnar. Ég var afleit í skóla og þá sérstaklega stærðfræði, sama hvað margföldunartaflan var tuggin ofan í mig þá tókst það engan vegin og til þessa dags kann ég ekki bofs í henni. Ég var hinsvegar út um allt og upp um allt, syngjandi og trallandi eins og Lína. Pabbi minn var mikið í burtu að vinna og það má segja að ég hafi átt hálfgerðan „sjóræningjapabba“ saknaði hans stundum mikið. Ég skúra gólfið með löppunum eins og hún og spila jólalög í júlí. Fatasmekkurinn minn á það til að vera fáránlegur og hugmyndirnar vel súrar, eins og hjá Línu. Já, ég á það til að gera bara það sem mér finnst og sýnist best.

Það er ótrúlega margt sem þú hefur gert er eitthvað eitt sem þér finnst standa upp úr og ef svo er af hverju?

Mér finnst þetta allt bara fínt, en mesta kikkið fæ ég úr því að gera eitthvað frá grunni sjálf, sbr Silvíu Nótt. Hún átti líka sínar sterku karakterrætur m.a. frá nákomnum fjölskyldumeðlimum, þess vegna elska ég hana svo mikið, gallana og glansið alveg jafn mikið.

Hlustarðu mikið á Íslenska tónlist og ef svo er hvað ertu að hlusta á?

Ég hef aðallega hlustað á gamla íslenska tónlist, alveg í hengla síðan ég var þrettán ára. Ég er mikið fyrir Jazz og þá sér í lagi íslenskan og elska fátt meira en að fara að hlusta á Jazzbræður íslands Óskar og Ómar og co, þeir eru svo mikið með þetta. Ásgeir Trausti er líka einstaklega einlægur og frumlegur og mér finnst gott að hlusta á tónlistina hans. Annars held ég að pönktímabilið á íslandi hafi verið mitt tímabil, sem ég missti af því miður. Megas er augljóslega í miklu uppáhaldi, DJ Flugvél Og Geimskip finnst mér fáránlega fyndin og skemmtileg svo hlakka ég svakalega mikið til að heyra nýju plötuna frá Þórunni Antoníu. Eins er Magnús Þór stórvinur minn og býr við sömu götu og ég, það er mindblowing að fara í heimsókn til hans og fá að heyra öll nýju lögin hans flutt live í stofunni hjá honum. Annars er Singapore Sling enn  í uppáhaldi hjá mér, hugsa að það teljist varla sem ný íslensk tónlist. Ætli nýjasta íslenska tónlistin sem ég fíla svolítið sé ekki Samaris, þau eiga góða spretti.

ágústa 5

Ljósmynd: Hildur María

Ef það væri heimsendir á morgun og þú mættir horfa á eina kvikmynd og hlusta á eina plötu hvaða kvikmynd væri það og hvaða plata yrði sett á fóninn?

Úff… erfið spurning! Ég mundi horfa á Night At The Roxbury og ætli ég myndi ekki velja plötu sem ég hlusta mest á þessa dagana… Mix tape sem ég gerði með Bruce Springsteen.

Ef þú mættir breyta einu í þjóðfélaginu hvað væri það og af hverju?

Ég myndi vilja hafa fólk almennt jákvæðara, það er svaðaleg neikvæðni að plaga þjóðarsálina að mér finnst. Það er ótrúlegt hvað hefst með breyttu viðhorfi og hugarfari.

Hvað er á döfinni hjá Ágústu Evu?

Það er vitaskuld Lína í Borgarleikhúsinu, svo er ég með tvær kvikmyndir á teikniborðinu, svo verð ég svolítið í sjónvarpi í vetur og auðvitað verð ég hér og þar að syngja en þetta allt saman á eftir að gefa út formlega, en ég get ekki annað sagt en að veturinn hjá mér verði sannarlega viðburðaríkur og fullur af spennandi og mjög svo ólíkum verkefnum.

http://www.agustaeva.com

https://www.facebook.com/agustaeva

 

 

 

 

 

Comments are closed.