AGGRESSÍF DANSTÓNLIST, NÖTRANDI BASSI OG DÁLEIÐANDI RAFRÆNN HÁVAÐI

0

Laugardaginn 2. September mun tón-og-fjöllistasamsteypan FALK hvergi slá af þegar þeir kynna til leiks rafsveitina GIANT SWAN í fyrsta sinn á Íslandi á Gauknum. Þar að auki kemur fram Breska sveitin MUN SING, ásamt Reykvísku listamönnunum KULDABOLI, XARG og REX PISTOLS.

GIANT SWAN, komandi frá Bristol, er hugarfóstur Robin Stewart & Harry Wright; baneitruð samansuða orkumikillar og aggressífrar danstónlistar, nötrandi bassa og dáleiðandi, rafræns hávaða. Með hlaðborð apparata og pedala að vopni, hlaðin misþyrmdum gítörum og röddum, skapa GIANT SWAN blöndu af helgrípandi bassa, industrial slagverki og truflandi orku, flutt með fjarstæðukenndri vandfærni.

Auk þess að vera lykilmenn innan Howling Owl samsteypunnar frá Bristol og tengdir sterkum tengslum við tónlistarlega arfleifð borgarinnar hafa GIANT SWAN statt og stöðugt getið sér gott nafn innan Bretlands og í Evrópu. Í kjölfar nokkurra 12” vínylútgáfa sem hafa fengið talsverða athygli hefur tvíeykið komið fram á þó-nokkrum stórum tónlistarhátíðum og klúbbum, þar sem þeir komu fram með t.d. Jeff Mills, Laurel Halo, DJ Stingray, Surgeon, Vessel, Shackleton, Venetian Snares, og Container. Á sviði eru GIANT SWAN hvirfilbylur af ófyrirsjáanlegri orku, hrærandi í mismunandi hljóðheimum sem geta í senn gjöreyðilagt og endurnært. Byggðar á grunni ryþmískrar spennu og tryllingslegum spuna, eru engar tvær sviðsframkomur eins, þar sem tvíeykið endurreisa og eyðileggja í senn sína snúnu sýn á techno/ekki techno.

GIANT SWAN til halds og trausts verða sumir af bestu neðanjarðar-listamönnum sem Ísland hefur upp á að bjóða. KULDABOLI, einnig þekktur sem Arnar Már Ólafsson, hefur getið sér nafn sem einn mest spennandi raftónlistarmaður Íslands síðustu ár, eftir að fyrsta plata hans, Vafasamur lífsstíll 2015–2016, (gefin út af Hið Myrka Man) kom út og verður endurútgefin af Sænsku útgáfunni Stilleben Records. XARG er nýtt verkefni sem samanstendur af Aðalsteini Jörundssyni, meðeiganda Falk, einnig þekktur sem AMFJ, og Þórði Bjarka Arnarsyni, betur þekktur sem technolistamaðurinn Dynkur. Saman gera þeir kjötaða blöndu af industrial technoi og rafmagnshávaða. REX PISTOLS er sólóverkefni Kanadísku tónlistarkonunnar (nú búsett á Íslandi) Rex Beckett. Fyrrum forsprakki synthapopp sveitarinnar Antimony, hefur Rex nú leitað á nýjar slóðir með eigin stíl af darkwave blönduðu synthapoppi.

Um útgáfuna

Íslenska tón-og-fjöllistasamsteypan FALK (Fuck Art Lets Kill) hafa, síðan 2008, verið viss kjarni fyrir listamenn sem hrærast í heimi tilraunakenndrar og rafrænnar tónlistar og gefið út tónlist með víðfeðmi Íslenskra og erlendra neðanjarðar-listamanna. FALK hafa skapað samastað fyrir alls konar gerðir furðulegra og yndislegra hljóðheima, allt frá hávaðarokki og rafhávaða til neðanjarðar-hip hop og DIY techno og raftónlistar. FALK eru einnig skipuleggjendur tónleika og hafa fengið hingað til lands allra handa tónlistarmenn, t.d. PYE CORNER AUDIO, HACKER FARM, GRUMBLING FUR, CONTAINER OPAL TAPES, SHAPEDNOISE, PERC, og DAMIEN DUBROVNIK.

FALK halda sínu striki 2017 með útgáfum frá Íslenska hip-hop listamanninum LORD PUSSWHIP og techno/raftónlistarmanninum ThizOne, ásamt Kanadíska industrial techno listamanninum /ϟ/HUREN/ϟ/. Einnig kom út split-útgáfa með Reykvísku raftónlistarmönnunum FASCIA og DECANTER, þar sem fyrsta pressrun seldist upp. Á sviði tónleika hafa FALK enn sem komið er haldið viðburði með ECTOTHERM útgáfunni og eigendum hennar, COURTESY og MAMA SNAKE og munu ljúka árinu hátíðlega með því að bjóða heim Breska pródúsentinum og plötusnúðnum DJ SPOOKY BIZZLE.

Skrifaðu ummæli