„Ætlum að sprengja þökin af sem flestum börum bæjarins”

0

Hljómsveitin Keelrider sendi nýverið frá sér plötuna North en einnig var að koma út brakandi ferskt myndband við lagið Stay. Sveitin var stofnuð árið 2015 en hún hefur gengið í gegnum talsverðar mannabreytingar á þessum tíma. Þrátt fyrir mannabreytingar var sveitin og platan í stöðugri þróun og eru meðlimir sveitarinnar hæstánægðir með gripinn!

Forsprakki Keelrider Björn Birnir svaraði nokkrum spurningum um sveitina, plötuna og framhaldið svo sumt sé nefnt.


Hvenær var Keelrider stofnuð og hvernig kom það til?

Bandið var stofnað haustið 2015 af mér (Björn Birnir) og Atla Viðari vini mínum. Þá var ég að vinna í að hljóðblanda demó fyrir lagið Stay en við höfðum spilað aðeins saman áður svo við ákváðum að stofna hljómsveit. Atli er reyndar hættur í bandinu en hann á nú talsvert í plötunni sem var að koma út.

Þið voruð að senda frá ykkur hljómplötuna North, er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Við byrjuðum að taka plötuna upp í júní í fyrra en sökum þess að það hafa verið miklar mannabreytingar í bandinu (2 gítarleikarar og 1 bassaleikari) þá töfðust upptökurnar talsvert. Platan er engu að síður komin út eftir mikla vinnu og við erum hæstánægðir með hana.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Það er alveg úr öllum áttum… erum miklar alætur á tónlist. Er t.d með Opeth, Agents Of Oblivion, Soundgarden, Pink Floyd, Steven Wilson, Pantera, Faith No More, Tom Jones, Elton John ofl. í bílnum núna svo eitthvað sé nefnt.

Hvað er á döfinni hjá ykkur og eitthvað að lokum?

Framundan hjá okkur er tónleikahald og kynna plötuna fyrir sem flestum. Við spiluðum við góðar undirtektir á Íslenska Rokkbarnum 17. Mars sl. og spilum næst á Bar 11 þann 24. Mars nk. Við erum með nokkur ný lög í vinnslu sem eru frá því að vera á algeru frumstigi yfir í fullkláruð sem við ætlum að flétta inn í sett listann hjá okkur þegar fram líða stundir. Við ætlum að sprengja þökin af sem flestum börum bæjarins áður en við förum í sumarfrí og jafnvel taka upp einhver fleiri lög á þessu ári!

Einnig má hlýða á plötuna í heild sinni á Spotify.

Skrifaðu ummæli