„Ætla að gera klikkað show” – Bríet drekkur í sig Iceland Airwaves

0

Eins og flest allir íslendingar vita er Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves á næsta leiti en hún fer fram 7 – 10 Nóvember næstkomandi. Dagskráin í ár er vægast sagt glæsileg og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi! Hvert ár fyllist miðbær Reykjavíkur af innlendu og erlendu tónlistarfólki, aðdáendum og bransa liði og er stemningin vægast sagt rafmögnuð! Það er eins og litli miðbærinn okkar breytist í stórborg eins og t.d New York og á hverju götuhorni er eitthvað stórkostlegt að gerast!

Albumm.is náði tali af allskonar skemmtilegu fólki og spurðum við þau nánar um Iceland Airwaves og upplifun þeirra af hátíðinni. Á næstu dögum munum við birta herlegheitin þannig endilega fylgist vel með!

Söngkonan Bríet ríður á vaðið en hún hefur heldur betur slegið í gegn að undanförnu en hún hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna með grípandi laglínum og óaðfinnanlegum söng. Nýlega sendi Bríet frá sér lagið „Feimin(n)” en það vann hún ásamt tónlistarmanninum Aron Can.

Bríet kemur fram á Iceland Airwaves í ár og svaraði hún nokkrum léttum spurningum um hátíðina:


Hvernig leggst Iceland Airwaves í þig?

Mjög vel, er spennt að sýna fólkinu nýju lögin mín sem ég er búin að vera að vinna í. Ætla að gera eitthvað klikkað show, so get ready!

Hefur þú farið oft á Airwaves hátíðina?

Heyrðu! Ég hef farið tvisvar sinnum.

Hver er þín eftirminnilegasta minning frá hátíðinni?

Ég fór með gaur (kærastanum mínum) sem ég var að deita og hann gaf mér armband sem ég þurfti að líma á mig, það var tekið af mér og ég mátti ekki fara á fleiri sýningar. Annars náði ég að sjá Fleet Foxes sem var geggjað.

Hvað ætlar þú að sjá á hátíðinni í ár?

Axel Flóvent og Eivor ég elska þau!

Hvar og hvenær kemur þú fram á hátíðinni í ár?

Ég er að spila á Listasafninu á fimmtudeginum og fyrr um daginn í stúdentakjallaranum klukkan 17:00 svo er ég á laugardeginum í Landsbankanum klukkan 15:30

Eitthvað að lokum?

Eins og ég sagði áðan þá er ég að spila fullt af nýjum lögum og þetta verður bara klikkað show, so get ready!

Icelandairwaves.is

Hægt er að nálgast miða á hátíðina á Tix.is

Bríet á Instagram

Skrifaðu ummæli