AÐAL UMRÆÐUEFNIÐ VAR FLASKA MEÐ DULARFULLU INNIHALDI

0

Tónleikar Sunnu á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði í sumar vöktu mikla athygli, ekki síst því þar virtist stökkva fram fullskapaður listamaður þótt öll lögin væru frumflutt þá um kvöldið og verkefnið glænýtt. Nú sendir Sunna frá sér sitt fyrsta lag undir eigin nafni sem nefnist „Hero Slave.“ Það er kannski ekki skrítið því Sunna hefur fengist við tónlist meira og minna alla ævi. Hún er alin upp á miklu tónlistarheimili, en pabbi hennar er tónlistarmaðurinn Þórir Baldursson. „Kannski er það þess vegna sem mér finnst gaman að „svindla“ í tónlist,“ segir hún, „að fara óhefðbundnar leiðir og gera það sem ekki má.“

Hún fékk nasaþefinn af erfiðu en skemmtilegu lífi atvinnutónlistarmannsins þegar hún hélt út í heim sem söngkona danssveitarinnar austfirsku Bloodgroup, þá innan við tvítugt. Í dag býr Sunna í Lausanne í Sviss þar sem hún er í myndlistarnámi. „Hero Slave“ varð til milli þess sem Sunna braut hugann í skólanum.

„Hero Slave“ er naumhyggjulegt en framúrstefnulegt popplag sem sækir í bassamikla klúbbatónlist, oft kennda við London. Rödd Sunnu liggur letilega ofan á hljóðmyndinni og er skæld og toguð í allar áttir. Áhrifin eru undarlega dáleiðandi.

„Textinn er sambland af draumi, veruleika og æskuminningum. Ég var stödd í veislu þar sem aðalumræðuefnið var flaska með dularfullu innihaldi. Svo fór að hún var á endanum opnuð. Um nóttina bjargaði hundur mér frá innihaldi flöskunnar og þaðan kemur nafnið: Hero Slave.“

Það er von á meiri tónlist frá Sunnu en hún segist stefna á að gefa nokkur stök lög út áður en hún hugi að plötugerð.

Ssuunnaa.com

bandcamp

Skrifaðu ummæli