Á MILLI ÞESS AÐ SEMJA LÖG ER HORFT Á SPACE JAM

0

Óhætt er að segja að Hljómsveitin Moses Hightower sé á blússandi siglingu um þessar mundir en fyrir skömmu sendi sveitin frá sér plötuna Fjallaloft. Platan hefur verið að fá frábærar viðtökur enda er grúvið frá þessari frábæru sveit hreint út sagt ómótstæðilegt!

Albumm.is náði tali af Moses Hightower og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum!


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og og hvernig verða lögin til hjá Moses Hightower?

Við vorum frekar snöggir að þessu, sko. Tók bara þrjú, fjögur ár frá fyrsta upptökusessjóni og þangað til að platan kom út. Lögin verða þannig til að einstaka sinnum mætir einhver með allt að því klárað lag, en flest lögin sullum við í sameiningu, og þá er ferlið nákvæmlega svona:

Við hittumst tveir til fjórir, og spilum eitthvað út í loftið með demóupptökutæki í gangi. Svo fáum við okkur kaffi og segjum brandara. Svo hlustum við á upptökurnar og vinsum út það sem okkur finnst skemmtilegast, og spáum í því hvernig megi púsla saman köflum til að sé gaman. Svo horfum við saman á Space Jam með íslensku tali. Þarnæst förum við í stúdíó og spilum skemmtilegustu kaflana, og reynum að ná sem mestu inn „læv,“ því að það er meira stuð en að taka bara upp eitt og eitt hljóðfæri. Svo förum við í ísbíltúr og Maggi trommari heldur erindi um fluguveiðar. Að því loknu þarf að raða upp lagaköflum, bæta við hljóðfærum og semja texta og söng. Það gerist mikið yfir internetið, af því að við túrum sumir um heiminn með alls konar hljómsveitum, og búum í mismunandi löndum. Svo snurfusum við þetta með Styrmi Haukssyni upptökumeistara. Að lokum hellum við upp á kaffi og ræðum parketútsölur.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Við spilum allir mikið með öðru fólki sem er að gera sína tónlist, og þá er maður vonandi alltaf að læra eitthvað nýtt, sem vonandi nýtist þegar maður ætlar sjálfur að semja eitthvað. Í textagerð er helsti áhrifavaldurinn kannski Þorsteinn Thorarensen, sem þýddi meðal annars Ástríksbækurnar, Lukku-Láka og Tinna. Meðal dóna og róna í Arisóna er algjört lykilverk.

Lýsið plötunni Fjallaloft í sjö orðum.

Hringsnýst undir nálinni. Framkallar hljóð eftir okkur.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Jú, biddu fyrir þér. Við spilum í Havaríi í Berufirði þann 2. september, og svo höldum við almennilega útgáfutónleika í Háskólabíói 22. september. Svo er aldrei að vita nema að við dúkkum eitthvað meira upp á næstunni.

Eitthvað að lokum?

Karlarígur í Kveinabæli er líka mjög góð bók. Og Ríkisbubbinn Rattati.

Moseshightower.com

Skrifaðu ummæli