Á MEÐAN KARTÖFLURNAR VAXA ER DILLAÐ SÉR Í FJÁRHÚSSHLÖÐUNNI

0
Svavar og Berglind, stundum kennd við hljómsveitina Prins Póló og bændur á Karlsstöðum í Berufirði, opnuðu í fyrrasumar veitinga- og viðburðarýmið HAVARÍ í fjárhúshlöðunni. Þar hafa þau staðið fyrir ýmiskonar viðburðum; kvikmyndasýningum, tónleikum, fundum og mannfögnuðum. Þau hafa nú lokið við að setja saman viðburðadagskrá fyrir sumarið og samkvæmt henni má búast við að aðal stuðið verði í Berufirðinum í sumar.
Sumar í Havarí hefst 3. júní og lýkur 2. september þannig að á meðan kartöflurnar vaxa í garðinum er planið að dilla sér í fjárhússhlöðunni!
Listamennirnir sem koma fram eru þessir:
KK, Lay Low, FM Belfast, Mugison, Lára Rúnarsdóttir, Dimma, Valdimar Guðmundsson, Örn Eldjárn, Jónas Sig, Prins Póló, Borko, Benni Hemm Hemm, Sóley, Moses Hightower, Sara Riel, President Bongo, Úlfur Úlfur og Katrín frá Núpi.
Eins og áður sagði er fyrsti viðburðurinn 3. júní þegar President Bongo (Gus Gus) stígur á svið en fyrr um daginn opnar Sara Riel myndlistarsýninguna Marvera og mun sýningin standa í allt sumar. Svo rekur hver viðburðurinn annan koll af kolli fram á haust. Nánar um tímasetningar á havari.is
Annars er Havarí opið alla daga með sjóðheitt á könnunni og Bulsur á pönnunni!

Skrifaðu ummæli