37 NÝ TÓNLISTARATRIÐI Á SECRET SOLSTICE

0

Daði Freyr.

Secret Solstice tónlistarhátíðin hefur svo sannarlega ekki slegið slöku við í ár en 37 nýjir listamenn hafa nú bæst við þá tónlistaflóru sem mun taka yfir Laugardalinn 15.-18. júní næstkomandi á fjórða starfsári hátíðarinnar. Á seinustu árum hefur hátíðin farið stigmagnandi og í ár mun hátíðarsvæðið sjálft vera stækkað svo um munar.

„Við höfum alltaf viljað hafa hátíðarsvæðið eins grænt og mögulegt er,“ segir Friðrik Ólafsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice en svo skemmtilega vill til að í ár mun meirihluti hátíðarinnar fara fram á grænu grasi.

Ab-Soul.

Hátíðin hefur þegar tilkynnt stór nöfn á borð við Foo Fighters, The Prodigy, Rick Ross og Big Sean en af þeim 37 sem nú hafa bæst við dagskrána ber helst að nefna bandaríska hip-hop átrúnaðargoðið Ab-Soul sem bætist við hin fjölmörgu rapp-atriði sem þegar hafa verið tilkynnt. Einnig munu frumkvöðlarnir í XXX Rottweiler koma fram, okkar eigin Sturla Atlas ásamt fylgdarliði, Herra Hnetusmjör og íslenska rappdúóið Cyber sem skutust fram á sjónarsviðið í fyrra þegar þær gáfu út sína fyrstu EP plötu ‘Crap’.

Tappi Tíkarrass.

Áhugamenn um íslenska tónlistarsögu hafa einnig tilefni til þess að fagna því pönksveitin Tappi Tíkarass hefur staðfest endurkomu sína á tónlistarhátíðinni í ár en sveitin hefur ekki komið opinberlega fram síðan árið 1987. Er Tappi Tíkarass einnig talið eitt fyrsta alvarlega tónlistarverkefni Bjarkar Guðmundsdóttur.

Á svið hátíðarinnar munu einnig stíga á stokk Hórmónar, pönksveitin sem sigraði Íslensku Músíktilraunirnar árið 2016 og hafa verið á stöðugri uppleið síðan. Önnur sveit sem sigraði sömu Músíktilraunir árið 2008 hafa einnig boðað komu sína en íslensku rokksveitina Agent Fresco þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistaráhugamönnum.

Auður.

Secret Solstice-tónlistarhátíðin leggur mikið upp úr fjölbreytni og úrval tónlistaratriða og hefur þannig skapað sér sess sem ein fremsta tónlistarhátíð heims. Ljóst er að hvaða tónlistaraðdáandi sem er geti fundið eitthvað við sitt hæfi en hér fyrir neðan má sjá tæmandi lista yfir þau tónlistaratriði sem koma fram á hátíðinni í ár.

Miðar á hátíðina eru fáanlegir á 24.900kr og má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.Secretsolstice.is

Skrifaðu ummæli