24 PLÖTUR Á 7 ÁRUM TIL HEIÐURS TINNA

0

Tónlistarmaðurinn Stephan Stephensen hefur svo sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli en margir kannast við hann sem meðlim hljómsveitarinnar GusGus! Stephan eða President Bongo eins og hann er iðulega kallaður hefur sagt skilið við GusGus og herjar nú á ný mið. Á seinasta ári sendi hann frá sér plötuna Serengeti en hún hefur fengið frábærar viðtökur enda afburða góð plata þar á ferðinni!

Stephan er einkar afkastamikill tónlistarmaður og slær hann hvergi slöku við þegar kemur að tónlistarsköpun! Stephan hefur lagt af stað í  langferð er hann hleypir af stokkunum metnaðarfullu langtímaverkefni sem ber yfirskriftina „Les Adventures de President Bongo.“ Um er að ræða safn 24 breiðskífna sem munu koma út með reglulegu millibili næstu 7 árin eða svo á vegum Radio Bongo, í samstarfi við hina virtu þýsku útgáfu AlbumLabel. Hver breiðskífa er helguð tilteknu tónlistarfólki eða sveitum sem Stephan hefur vélað til samstarfs við sig, en hann mun jafna gegna þar hlutverki listræns stjórnanda og framleiðanda.

Stephan hefur hleypt af stað forsölu á vefsíðunni Karolina Fund og mælum við eindregið með að næla sér í eintak af þessu skemmtilega verkefni! Leiðangurinn hefst í maí mánuði, þegar fyrsta innleggið lítur dagsins ljós, Shed Your Skin eftir Högna Egilsson.

Albumm.is náði tali af Stephan Stephensen og svaraði hann nokkrum spurningum um þetta skemmtilega verkefni.


Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu skemmtilega verkefni?

Það vita flestir að ég er alltaf með hugann hinum meginn við girðinguna þegar lausnin er fyrir framan mig.  Serengeti konseptið kviknaði t.d. í Mílanó þegar ég og „my hot sports calendar model” kærastan mín vorum að sækja Social Sven á leið okkar í alpana.  Við kom við í siglingabúð til að spyrja leiðar og keypti mér áttavita límmiða,  sem svo mánuðum síðar, mér til mikillar ánægju, var með öllum upplýsingunum Serengeti verkefnisins svo til tilbúnum til prentunar!

Hugmyndin af LES AVENTURES DE PRESIDENT BONGO kviknaði síðan í stresskasti á 8 hæð á Skúlagötunni, hjá Social Sven… enn og aftur, þegar við vorum að glugga í Tinnabók.  Serían er nefnilega til heiðurs Tinna og hans 24 bókum, LES AVENTURES DE TINTIN.

Ég held samt að hann Social Sven fái allar þessar hugmyndir og láti sem þær séu „mínar,” þó allir viti að enginn eigi hugmynd. Hann veit bara hvað ég er kátur þegar ég „held” að ég hafi fengið góða hugmynd. Alveg yndislegur drengur hann Social Sven.

En burtséð frá því hver fékk hvaða hugmynd og hvenær þá ætlum við að gera 24 plötur á u.þ.b. sjö árum.

Tekið úr Serengeti verkefninu.

Þetta er langtíma verkefni, heldurðu að það verði ekkert vesen að halda þessu úti næstu sjö árin?

Auðvitað verður þetta vesen! Allt er vesen. Ég bý meira segja á götu sem er kennd við wesen.  En þetta verður gaman og skemmtilegt vesen eins og öll vesen eiga að vera! Að vesenast er eitt það skemmtilegasta sem ég tek mér fyrir hendur. Ekkert vesen ekkert stuð.  Við munum einnig leggja mikla áherslu á prentun og ytra útlit og engu til spara.  Paul Mcmenamin, grafíski hönnuðurinn sem hannaði með mér Attention og Arabian Horse (gusgus) verður innsti koppur í hönnunarbrúnni hjá LAPB.

President Bongo

Hvernig tónlist er þetta?

LES AVENTRURES DE PRESIDENT BONGO verða allskyns ævintýri!  Ekkert alvöru ævintýri er ævintýri ef þú hefur gert það áður… held ég, svo við munum fara um víðan völl og kanna nýjar slóðir!  Í ár, 2017 koma út 3-4 plötur og þær eru allar tilbúnar. Högni – Shed Your Skin // Tilbury – Execution  (ég á eftir að spyrja þá hvort ég megi kalla hana þetta) sem eru spikfeitar extended döbb endurgerðar útgáfur af Drama & Transmission hitturunum þeirra plús kannski eitt nýtt lag.  Síðan í lok árs 2017 kemur út tvöföld plata (þess vegna segi ég 3-4 plötur því ég veit ekki hvort hún verði útgefin saman eða í sundur) sem við Óttar Sæmundsen erum að gera og ber titilinn QUADRANTES.  Hún fjallar um fjórðungana og er 4x15min lög. Hérna er verið að leggja lokahönd á áttavitann sem skreytti fallega límmiðan sem ég keypti í Mílanó forðum.

Þú ætlar að vinna með mismunandi tónlistarfólki, hvaða fólk er það?

Jú, og hér má helst nefna: Aaron Roche, Ásdís Viðarsdóttir, Arnþór Örlygsson, Atli Bollason, Atli Ingólfsson, Bjarni Frímann Bjarnason, Kurt Uenala, Dagur Kári Pétursson, Davíð Þór Jónsson, Eiríkur Orri Ólafsson, Einar Örn Benediktsson, Gabríela Friðriksdóttir, Gunnar Tynes, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Haukur S. Magnússon, Heimir Sverrisson, Hrafnkell Egilsson, Hrafnkell Sigurðsson, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, Helga Lilja Magnúsdóttir, Högni Egilsson, Jón Atli Jónasson, Linda Loeskow, Margeir Steinar Ingólfsson, Matti Kallio, Ólafur Björn Ólafsson, Óttar Sæmundssen, Ómar Guðjónsson, Paul Mcmenamin, Samúel Jón Samúelsson, Sigurður Oddsson, SnorriBros, Sveinbjörn Bjarki Jónsson, Sigtryggur Baldursson, Tilbury, Viktor Orri Árnason, Þuríður Jónsdóttir og vonandi miklu miklu fleiri!

Ertu búinn að ganga lengi með þessa hugmynd í maganum?

þessi hugmynd, eða réttara sagt leitin að þessari hugmynd, hefur á einn eða annan hátt verið lengi í mótun en aldrei náð fótfestu einhvernveginn fyrr en nú. LES AVENTURES DE PRESIDENT BONGO eru nefnilega hugsuð sem einhverskonar hattur ofaná hausinn af því sem ég hef áhuga að gera.  Pródúsera önnur bönd og  gera mitt eigið.

Hvenær kemur fyrsta platan út?

Högni – Shed Your Skin kemur út 19.Maí 2017 og verður, eins og allar aðrar útgáfur LES AVENTURES DE PRESIDENT BONGO í takmörkuðu upplagi og gefið út á vínyl. Eftir 7 ár eða svo verður síðan hægt að fjárfesta í sérbökuðum kassa utanum dýrðina.

Ástæðan fyrir takmörkuðu upplagi og útgáfu sem einskorðast við vínyl er einföld og er hugsuð til þess að auðvelda þessum verkefnum brautargengi hjá öðrum plötufyrirtækjum, sem þá munu gefa út stafrænt en alltaf aðrar útgáfur og/eða fleiri lög heldur en þessi vínyl útgáfa, ein og sér, nær að fanga.

Við munum einbeita okkur að hinni fullkomnu lengd eða 35min, þar sem gæði tónlistarinn munu ekki líða skort heldur blómstra undir nálinni!

Með hverri útgáfu munum við stofna til forsölu í samstarfi við Karolina Fund.  Þessi verkefni eru ekki háð útkomu þar, engan veginn, því þau verða gerð og unnin framm í tímann og langt áður en hver einstök „söfnun” er sett í loftið.  Karolina Fund er hinsvegar úrvals umhverfi til þess að safna saman áhugasömum um þetta langtímaverkefni og gefa a.m.k. 100 aðilum kost á að tryggja sér eintak af þessum 24 ævintýrum og eiga allt safnið að 7 árum liðnum.

Eitthvað að lokum?

Lengi lifi byltingin! Lifið heil!

Hljóðbútar til hlustunar og almennar upplýsingar um LAPB má finna á heimasíðunni www.radiobongo.net

Skrifaðu ummæli