19 ára á samning hjá One Little Indian

0

Gabríel Ólafsson, 19 ára tónskáld og píanóleikari hefur undirritað plötusamning við breska útgáfufyrirtækið One Little Indian sem m.a. er þekkt fyrir að hafa Björk á sínum snærum. Gabríel hefur ekki enn gefið út tónlist sína á plötu en hefur vakið athygli fyrir lagasmíðar sem birst hafa á netinu. Tónlist Gabríels svipar til kvikmyndatónlistar og meðal helstu áhrifavalda hans eru Jóhann Jóhannsson og Ludovico Einaudi sem samdi tónlistina fyrir kvikmyndina Intouchables.

Gabríel mun halda sína fyrstu tónleika í næstu viku, mánudaginn 30. júlí, og verða þeir í Kaldalóni í Hörpu og eru styrktir af tónlistarsjóðnum Ýli. Gabríel hefur safnað saman hópi af ungu og efnilegu tónlistarfólki til að leika tónlistina hans á tónleikunum. Tónleikarnir eru haldnir að sumarlagi þar sem flestir hljóðfæraleikararnir eru við nám erlendis yfir vetrartímann. Enn er hægt að fá miða á tónleikana á vef Hörpu.

Beint í kjölfar tónleikanna mun Gabríel svo klára upptökur á sinni fyrstu plötu sem One Little Indian hyggst gefa út á heimsvísu. Derek Birkett eigandi One Little Indian hefur, frá því að hann samdi við Björk á tíunda áratugnum, fylgst vel með tónlistarlífinu á Íslandi en áður hefur hann meðal annars gefið út plötur Ásgeirs Trausta, Ólafar Arnalds, Samaris og Emiliönu Torrini, auk Bjarkar Guðmundsdóttur.

Tónlist hefur átt hug Gabríels og hjarta allt frá unga aldri og setti hann snemma stefnuna á að verða kvikmyndatónskáld. Hann hóf nám í tónlistarskóla FÍH þegar hann var 14 ára og lærði bæði við djass- og klassíska deild skólans en fannst þó alltaf skemmtilegra að semja sínar eigin melódíur en að spila verk annarra. Gabríel útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð nú í vor en á meðan hann var nemandi þar vann hann bæði lagasmíðakeppni skólans og lék frumsamið lag á píanó í skemmtiatriði skólans í Gettu Betur á RÚV.

Skrifaðu ummæli