17 MÍNÚTNA FERÐALAG Í FRJÁLSU FLÆÐI

0
Ingibjörg Elsa Turchi

Ingibjörg Elsa Turchi

Tónlistarkonan Ingibjörg Elsa Turchi kolféll fyrir bassanum um tvítugt en hún hefur komið fram með mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins að undanförnu.

Ingibjörg var að senda frá sér verkið Wood/Work og er það vægast sagt forvitnilegt! Verkið eða ferðalagið eins og hún kallar það er rúmlega sautján mínútur að lengd og er það byggt upp á bassa, gítar og elektróník.

Tónlistarkonan Sigurlaug Gísladóttir eða Mr. Silla eins og flestir þekkja hana aðstoðaði Ingibjörgu við verkið og er útkoman tær snilld! Bassi, gítar og Elektróníski hljóðheimurinn blandast saman á frábæran hátt og tekur hlustandann í stórfenglegt ferðalag!

Albumm.is náði tali af Ingibjörgu og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum.

Hvenær byrjaðir þú að spila á bassa og hvernig fékkstu áhuga fyrir honum?

Upp úr tvítugt. Ég var þá að spila í hljómsveit og það vantaði bassaleikara og ég spurði hvort ég mætti ekki bara prófa. En ég hef spilað og lært á hin ýmsu hljóðfæri frá barnsaldri.

ingibjorg

Þú hefur verið iðin við tónlistarflutning og komið fram með allskonar tónlistarfólki, er eitthvað eitt sem stendur upp úr?

Það er erfitt að velja eitthvað ákveðið, það er ekki eitthvað eitt sem stendur upp úr. Ég hef kynnst frábæru fólki, spilað fjölbreytta tónlist, ferðast og skemmt mér. Ætli það sem standi ekki upp úr sé bara lærdómurinn og þeir góðu vinir sem ég hef eignast.

Þú varst að senda frá þér verkið Wood/Work sem er rúmlega sautján mínútna langt, geturðu sagt mér aðeins nánar frá því?

Já, þetta er ferða-„lag“ sem leyfir frjálsu flæði að standa. Í haust tók ég upp rúmlega tuttugu lagabúta þar sem ég vann hratt og leyfði innsæinu að ráða, leyfa því að koma sem kom og bara treysta því sem mér fannst fallegt. Spilað á gítara og bassa.

Mr. Silla

Mr. Silla

Sigurlaug Gísladóttir eða Mr. Silla eins og hún kallar sig vann með þér að laginu, hvernig kom það skemmtilega samstarf til?

Við erum rosalega góðar vinkonur og höfum alltaf ætlað að vinna meira svona saman. Við höfum verið saman í böndum að spila tónlist annarra, hún hefur spilað í mínum böndum og svo spilaði ég aðeins inná plötuna hennar. Hún hafði heyrt hin ýmsu demo hjá mér og vissi hvað ég var að hugsa og í síðustu viku settumst við niður og unnum í þessu, hún þá sem pródúser og svo mixaði hún.

Er von á meira efni frá þér og viltu segja eitthvað að lokum?

Já það er algjörlega von á meiru, þetta er bara byrjunin! Ást og friður.

Skrifaðu ummæli