STEPHAN STEPHENSEN

0

ggggg
Stephan Stephensen eða President Bongo er margt til lista lagt en eflaust þekkja hann margir sem meðlim hljómsveitarinnar GusGus. Stephan er hættur í GusGus og leitar nú á ný mið í Berlín en kappinn var að senda frá sér plötuna Serengeti. Stephan er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hann byrjaði í tónlistinni, GusGus ævintýrinu og Serengeti verkefninu svo fátt sé nefnt.


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á tónlist og hefur raftónlist alltaf átt hug þinn allann?

Ég er alin upp í tónlistarumhverfi. Faðir minn er jazz píanisti og mikill músíkant. Ætli tónlistin hafi ekki blundað í mér frá blautu barnsbeini þó svo að ég hafi ekki beint ákveðið að verða tónlistarmaður, hef raunar enn ekki tekið neina ákvörðun í þá áttina enn þann dag í dag. Raftónlist kom snemma við sögu í mínu lífi en sennilega af mestum þunga á parísar árum mínum 1990 – 1995 þó svo að bálið hafi tendrast fyrr í ertingunni við klúbbamenningu reykjavíkur og nágrennis 1987 – 1990.

Þú slóst í gegn með hljómsveitinni GusGus, hvenær var hún stofnuð og hvernig kom það til?

Mín aðkoma að þessu verkefni var sem ljósmyndari og kvikmyndatökumaður til að byrja með. Ég hitti Stefán Árna, forsprakkans af ævintýrinu í kaupmannahöfn þar sem við þreyjuðum inntökupróf við Den Danske Filmskole. Þar var Dagur Kári líka en hann var sá eini sem komst inn. Við hinir stofnuðum í staðinn GusGus í kringum stuttmynd sem heitir nautn og bar af sér fyrstu breiðskífu GusGus, „Polydistortion.“ Ég kom í raun lítið sem ekkert við sköpun tónlistar fyrr en á „Attention,“ sem var gefin út 2002.

Þú hefur spilað útum allan heim og lifað þennan rokkstjörnu draum, er þetta eins og þú hélst að mundi vera og hvar í heiminum er skemmtilegast að spila?

Ég lít nú ekki á mitt líf sem eitthvað rokkstjörnulíf. Það er mikil vinna á bakvið allt sem maður gerir á einn veg eða annan og ég veit ekki heldur hvort þetta líf sé það sem ég vonaðist til að það yrði því ég hugsa sjaldnast þannig. Ég vil hafa gaman og gera skemmtilegt og á þessum tímamótum Í lífinu mínu þegar ég klára mitt ljósmyndanám í París og kemst ekki inní kvikmyndaskólann í kaupmannahöfn, lá beinast við að haga seglum eftir vindi og keyra þetta í gang.

steph 2

Hvaða græjur og forrit notarðu þegar þú býrð til tónlist?

Ableton Live, Doepfer A-100 System, Dark Energy, Dark Time, Vostok, Sh-101, Oberheim Matrix 6, Korg Trident svo eitthvað sé nefnt, effekta og lifandi spilamennsku tilfinningasmiða Radio Bongo.

sz8lH5tB7CzEHCIoTVjByQluxi7Hvb-2DTFQLsWi7U4

Þú ert búsettur í Berlín, hvenær fluttirðu þangað, hvað ertu að gera þar og hvernig er Berlín að fara með þig?

Ég flutti til Berlínar fyrir rúmlega ári til að breyta til í lífinu. Ég geri það sama og ég hef gert síðustliðin tuttugu ár, bý til tónlist, tek myndir og bý til eitthvað sem hausinn skipar fyrir um. Já hér er gott að vera og yndislegt að vera aftur einstaklingur í stórborg.

Nú ert þú kominn með nýtt verkefni í gang sem nefnist „Serengeti,“ hvað geturðu sagt okkur um þetta nýja verkefni og hefur það verið lengi í vinnslu?

Serengeti varð til úr nokkrum hliðarverkefnum en kláraðist endanlega í Berlín þegar ég flutti hingað ásamt Helgu Lilju kærustunni minni. Serengeti er í rauninni lítið rannsóknarferli sem ég er að athuga hvort að gangi upp. Hér vinn ég með tilfinningasmiðum Radio Bongo, hópur fólks sem ég get ekki verið án, og má segja að ég sé einskonar leikstjóri þar sem ég blanda saman hinum ýmsu hæfileikum smiðanna og bý til heilsteypta útkomu þarf sem allir una við sitt. Serengeti fjallar um vindáttir í Serengeti þjóðgarðinum í Tanzaníu en lögin bera nöfn vindáttanna á ítölsku.

blllll

Serengeti er ekki beint í líkingum við GusGus, eru menn að þróast frá Technóinu og hvaðan færðu innblástur fyrir þetta verkefni?

Þessi plata gæti auðveldlega verið instrúmental GusGus plata mínus 80’s trommu og syntasánd. Hér er farið um víðan völlinn og tekið á hinum ýmsu áskorunum, unnið með tóna inní konsepti sem virkar líkt og við reyndum ávallt að gera í GusGus. Fyrir mér er Serengeti svo sannarlega tekknó … enda eru næstum 30 mínútur af henni tileinkaðar Tekknói (sbr. greco & tramontana)… þó ó hefðbundið sé. Uppsetning hennar er þó meira í ætt við dj sett eða safnplötu og má alveg hafa það í huga við hlustun. Ferðalagið er eins og fjallganga sem byrjar í einum firði og leiðir mann í gegnum skarðið inní þann næsta.

iCUSw78eiELRu-AbDXzrCx3o2nGGqWfofNN0N4rsaIM

Ertu hættur í GusGus og ef svo er af hverju?

já ég er hættur í GusGus. Ætli ég þrái ekki ný ævintýri?

Hvað er framundan hjá þér?

ljósmyndabók og nýjar plötur!

Comments are closed.