100 ára seglskip í Afríku varð fyrir valinu

0

Jóhanna Elísa er 22 ára gömul söngkona, lagahöfundur og píanóleikari en hún var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið „Adventurous Dream.“ Jóhanna hefur verið að semja tónlist lengi og er ný byrjuð að taka upp lögin sín, en „Adventurous Dream“ er annað lagið sem hún gefur út.

Jóhanna hefur verið að koma fram við ýmis tilefni, brúðkaup, veislur o.s.frv. Einnig sem jazzsöngkona, en hún er útskrifuð úr Tónlistarskóla FÍH en þar lærir hún enn, í þetta skiptið á jazzpíanó. Jóhanna segist hafa ótrúlega gaman af öllu sem við kemur tónlist. Að semja, syngja, spila og útsetja fyrir allskyns hljóðfæri.

Myndbandið var tekið upp á 100 ára gömlu seglskipi við Grænhöfðaeyjar í Afríku en Jóhanna var einmitt stödd á þessu sama skipi árið 2016 og segir hún að upplifunin hafi verið stórkostleg.

„Ég samdi lagið „Adventurous Dream“  um borð í skipinu í því augnabliki þegar ég sat uppi á dekki og horfði á sjóndeildarhringinn. Lagið kom til mín á þennan hátt, bókstaflega í augnablikinu.“

Lagið fjallar um þessa upplifun og eftir þessa ferð 2016 er Jóhönnu búið að dreyma um að snúa aftur á skipið. Í janúar síðastliðin lét hún verða að því og tók upp myndbandið í leiðinni. Jóhanna segir að þetta hafi verið verkefni sem krafðist mikils skipulag, áræðni og þolinmæði.

Skrifaðu ummæli